Þrátt fyrir að í lögum um dómstóla frá árinu 2016 sé að finna þá meginreglu að dómarar skuli ekki sinna öðrum störfum samhliða störfum sínum sem dómarar, fást dómarar landsins við ýmislegt annað en eingöngu að dæma við dómstólana, eins og má sjá í skrá yfir aukastörf dómara á vef dómstólanna.
Fjallað er um þessi aukastörf dómara í grein í nýjasta tölublaði Lögmannablaðsins, félagsriti Lögmannafélags Íslands (LMFÍ). Berglind Svavarsdóttir formaður félagsins segir við Kjarnann það hafi komið stjórn félagsins ögn á óvart hve víðtæk þátttaka dómara í öðrum störfum er.
Í því ljósi kannaði stjórn LMFÍ hvort nefnd um dómarastörf teldi gildandi reglur um aukastörf dómara samræmast kröfum sem gerðar eru, m.a. í stjórnarskrá, lögum og siðareglum dómara, um sjálfstæði og óhæði dómara. Bréfaskipti á milli félags og nefndar eru rakin í Lögmannablaðinu.
Þar segir að nefndin hafi vísað til þess í svari sínu að þegar lögum um dómstóla var breytt árið 2016 hefði það meðal annars verið markmið löggjafans að breyta þeirri áratugalöngu framkvæmd að dómarar sinntu margvíslegum aukastörfum.
Þó kemur fram að nefndin hafi fengið misvísandi skilaboð frá Alþingi, þar sem það hafi komið fram í nefndaráliti með frumvarpinu að meginreglan um að dómarar skuli ekki sinna aukastörfum ætti þó ekki að koma í veg fyrir að framkvæmdavaldið gæti notið reynslu og þekkingar dómara við undirbúning löggjafar og þá gæti seta dómara í úrskurðarnefndum einnig komið til greina í einhverjum tilvikum.
Sjálfstæði dómstóla gagnvart löggjafar- og framkvæmdavaldi
Berglind segir að afstaða LMFÍ til þessara mála byggi á því að sjálfstætt dómsvald og sjálfstæði sérhvers dómara í starfi sé forsenda réttlátrar málsmeðferðar og réttarríkis og skýr skil skuli vera á milli dómsvaldsins annars vegar og framkvæmdavaldsins og löggjafarvaldsins hins vegar, ekki síst til að koma í veg fyrir vanhæfi dómara vegna aukastarfa sem þeir gegna. Því skuli túlka heimildir dómara til að sinna aukastörfum þröngt.
Lögmannafélag Íslands hefur komið athugasemdum á framfæri til bæði Dómarafélags Íslands og dómsmálaráðuneytisins vegna aukastarfanna, en þær athugasemdir lúta til dæmis að setu dómara í úrskurðar- og kærunefndum og því að dómarar séu fengnir til þess að sinna gerð lögfræðilegra álitsgerða fyrir framkvæmdavaldið.
Berglind segir að seta dómara í stjórnsýslunefndum orki tvímælis, þar sem úrskurðir og afgreiðslur slíkra nefnda geti jú komið til kasta dómstóla síðar meir. Þá sé ákveðin hætta á vanhæfi dómara til staðar.
Samkrull akademíu og dómstóla „eitur“ fyrir gagnrýna umfjöllun um dómstólana
Auk þeirra sjónarmiða um sjálfstæði dómara gagnvart löggjafar- og framkvæmdavaldi sem stjórn LMFÍ hefur bent á og spurst fyrir um eru einnig sjónarmið uppi innan háskólasamfélagsins þess efnis að það sé jafnvel beinlínis skaðlegt að starfandi dómarar séu í akademískum stöðum við lagadeildir.
Það er sagt hafa heftandi áhrif á gagnrýna umfjöllun um störf dómstólanna og dóma þeirra innan lagadeildanna, en það er nokkuð sér-íslenskt fyrirbæri að starfandi dómarar séu samhliða með fastar stöður við háskóla.
Einn lögfræðingur í akademíunni, sem ekki vill láta nafns síns getið, segir að þetta hafi verið rætt á meðal lögfræðinga. Fáir séu hins vegar tilbúnir til þess að ræða þessi mál opinberlega, ýmist af ótta við afleiðingarnar eða af því að þeir séu í óþægilegri stöðu til þess.
Rúmur tugur starfandi íslenskra dómara er einnig í akademískum stöðum, nær allir við lagadeild Háskóla Íslands. Fjórir af sjö dómurum við Hæstarétt Íslands eru til dæmis í dag akademískir starfsmenn við Háskóla Íslands.
Benedikt Bogason forseti Hæstaréttar er til dæmis í 49 prósent starfshlutfalli sem prófessor ofan á 100 prósent starf sitt við dómstólinn og Karl Axelsson er í 20 prósent dósentsstöðu.
Þá eru þær Ása Ólafsdóttir og Björg Thorarensen, sem nýlega voru skipaðar í embætti, báðar í prófessorsstöðu við lagadeildina, en samkvæmt því sem fram kemur í skrá yfir aukastörf dómara verða þær í þeim stöðum fram á næsta sumar.
Líkt og ef ráðherrar væri með stöður við stjórnmálafræðideild
„Með þessu móti hafa dómarar óeðlilega mikil ítök í lagakennslu og rannsóknum hérlendis,“ segir fræðimaðurinn og bætir við að það fyrirkomulag að starfandi dómarar séu í föstum akademískum stöðum sé „eitur“ fyrir gagnrýna umfjöllun á störf dómstólanna og dóma þeirra og skapi þannig aðhaldsleysi gagnvart dómstólunum.
„Það er eitt að þeir séu að koma inn með eitt og eitt erindi í kennslu en að þeir séu upp í 49 prósent stöðu eins og Benedikt Bogason er nokkuð sérstakt,“ segir lögfræðingurinn, sem líkir þessu fyrirkomulagi við það að ráðherrar væru með akademískar stöður við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands.
Þessi staða skapi einkennilegt andrúmsloft varðandi það hvað þyki æskilegt og hvað ekki.