Yfir þúsund fjölskyldur leituðu aðstoðar hjá Hjálparstarfi kirkjunnar frá byrjun mars og til októberloka á þessu ári. Aukningin er yfir 40 prósent frá sama tímabili í fyrra er 743 fjölskyldur óskuðu eftir efnislegri aðstoð. Líklega er fjölgunin sambærileg þegar kemur að jólaaðstoðinni sem veitt er í desember í formi inneigna í matvöruverslunum, jóla- og skógjöfum fyrir börn og fatnaði.
„Það varð mikil aukning á umsóknum um aðstoð í kjölfar bankahrunsins en aukningin nú er vissulega meiri en við höfum séð síðustu ár,“ segir Kristín Ólafsdóttir, fræðslufulltrúi Hjálparstarfsins, í samtali við Kjarnann.
Í greiningu sérfræðingahóps ASÍ, BHM og BSRB kemur fram að vísbendingar séu um að efnahagsleg áhrif COVID-faraldursins komi harðast niður á láglaunahópum á Íslandi. Konur eru sérstaklega útsettar fyrir áhrifum kófsins en einnig ungt fólk og innflytjendur. Hópur segir að þegar megi sjá merki þess hér á landi að ójöfnuður fari vaxandi vegna heimsfaraldursins.
„Við vitum auðvitað ekki hvernig atvinnuleysið mun þróast og efnahagsástandið almennt,“ segir Kristín um hvernig hún meti stöðuna framundan. „Það er mín tilfinning og rannsóknir hafa einnig bent til þess að þeir sem eru í erfiðri stöðu fyrir verða í enn erfiðari stöðu þegar það kreppir að og hafa þess vegna enn minni tækifæri til að spyrna sér upp aftur. Við verðum að gera ráð fyrir að þetta ástand sé ekki búið.“
Hjálparstarf kirkjunnar er í samstarfi við önnur hjálparsamtök víðsvegar um landið og í samráði við þau einbeitir það sér að fjölskyldufólki, þ.e. fólki með börn á sínu framfæri.
Spurð hvort að sama fólkið þurfi jafnvel á aðstoð að halda í mörg ár segir Kristín að reynslan sýni að það sé fólk í sömu aðstæðum sem þurfi aðstoð ár eftir ár. „Það eru ekki alltaf sömu einstaklingarnir en það eru ákveðnar aðstæður sem valda því að fólk þarf að leita til okkar.“
Húsnæðisliðurinn að sliga fólk
Þrír félagsráðgjafar eru starfandi hjá Hjálparstarfi kirkjunnar. Þeir veita fólki sem sækist eftir aðstoð stuðning, ráðgjöf og leiðsögn og meta þörf hverrar fjölskyldu fyrir sig fyrir aðstoð. Kristín segir að sá útgjaldaliður sem helst sé að sliga fólk, nú sem áður, sé kostnaður við húsnæði. Fólk með örorku, einstæðir foreldrar, innflytjendur og láglaunafólk séu þeir hópar sem hvað erfiðast eiga með að ná endum saman. „Í fleiri ár og jafnvel áratugi er það hár húsnæðiskostnaður sem verður til þess að fólk lendir í miklum fjárhagsvandræðum,“ segir Kristín.
Hún bendir á að það sé hlutverk stjórnvalda að tryggja velferð fólks og aðstoð Hjálparstarfs kirkjunnar sé alltaf neyðaraðstoð. Starfið sé í sífelldri þróun og taki breytingum eftir því hvar þörfin er mest hverju sinni.
Í september hófst í þriðja sinn verkefnið Stattu með sjálfri þér sem miðar að sjálfstyrkingu kvenna sem allar eiga það sameiginlegt að vera með örorku, hafa börn á sínu framfæri og að hafa þurft að leita á náðir Hjálparstarfsins í lengri tíma. Verkefnið stendur í tvö ár og yfir fimmtán konur eru þátttakendur að þessu sinni.
Árangurinn af verkefninu hefur verið frábær að sögn Kristínar. „Þá er ég ekki endilega að meina að hann sé mælanlegur í peningum hjá hverri og einni konu heldur að þeim líður betur. Þetta miðar auðvitað allt að því – að konunum líði betur og að þær verði virkari í sínu eigin lífi og innan sinnar fjölskyldu. Hafi meiri trú á sjálfri sér. Það skilar miklu til fjölskyldunnar í heild. Við viljum leggja okkar af mörkum svo að fólk geti komist út úr sínum erfiðleikum. Þó að félagsráðgjafarnir okkar séu ekki göldróttir þá geta þeir sannarlega veitt góð ráð.“
Sjálfboðaliðar eru mjög mikilvægir í allri starfsemi Hjálparstarfs kirkjunnar og undanfarið hefur verið í nógu að snúast hjá þeim sem og félagsráðgjöfunum við að undirbúa jólaaðstoðina. Vegna samkomutakmarkana þurfti að skipuleggja hana með öðrum hætti en hingað til. Fatamiðstöðin hefur til að mynda ekki verið opin vegna sóttvarnaaðgerða. En nú í desember hefur fólk getað komið í miðstöðina eftir fatnaði fyrir börnin og jafnvel getað fengið inneignarkort í barnafataverslanir.
Í fjölda mörg ár hefur fólk sem á þarf að halda getað fengið inneignarkort í matvöruverslunum hjá Hjálparstarfinu í desember. Það er stærsti liðurinn í aðstoð samtakanna fyrir jól ár hvert. Í ár er fólk nú beðið að koma og sækja inneignarkortin sem og jólagjafir fyrir börnin á fyrirfram ákveðnum tíma og á mismunandi stöðum til að lágmarka smithættu.
Vantar tengslanetið
Flestir þeirra sem leita til Hjálparstarfsins eru Íslendingar en fólk af erlendum uppruna er þó í meirihluta þeirra sem fá notuð föt hjá samtökunum. „Þetta er fólk sem er ekki með sterkt tengslanet hér á landi. Það getur ekki leitað til frænku og frænda til að fá notuð barnaföt. Þetta er hópur sem má ekki gleymast, fólk sem er jafnvel nýlega komið hingað og þekkir ekki sín réttindi og hvert það getur leitað eftir aðstoð þegar eitthvað bjátar á.“
Til að styðja við þennan hóp heldur Hjálparstarfið úti saumaverkefni fyrir konur af erlendum uppruna sem hafa lítið tengslanet hér á landi. Það byrjaði smátt í sniðum en nú eru þátttakendur orðnir hátt í hundrað. Margir velviljaðir einstaklingar gáfu saumavélar og nokkrar verslanir gefa efni. Konurnar koma saman og sauma og styrkja samtímis böndin sín á milli. Pokarnir sem þær sauma eru svo seldir hjá Hjálparstarfinu og ágoðinn fer aftur inn í verkefnið.
Aðstæður alls staðar versnað
Auk þessa mikla innanlandsstarfs er Hjálparstarfið einnig í samvinnuverkefnum í Eþíópíu og Úganda. „Þar hefur faraldurinn vissulega haft neikvæðar afleiðingar líka,“ segir Kristín. „Framundan er mikið verk til að komast aftur á sama stað og við vorum fyrir faraldurinn. Aðstæður hafa versnað alls staðar.“
Spurð hvort að þessi mikla áskorun sé ekki yfirþyrmandi fyrir starfsfólk og sjálfboðaliða Hjálparstarfsins svarar Kristín: „Við trúum því að aðferðafræðin okkar, hjálp til sjálfshjálpar og samvinnan, virki vel. Það þýðir ekkert annað en að halda áfram. Og við finnum fyrir miklum stuðningi og velvild, bæði almennings og fyrirtækja. Það er alveg greinilegt að Íslendingum finnst hlutverk Hjálparstarfsins vera brýnt núna. Og það er aukin þörf, við finnum það.“
Heimasíða Hjálparstarfs kirkjunnar