Landsbankinn, aðallánveitandi þeirra sem átt hafa Keahótel-keðjuna, hefur breytt skuldum þeirra í nýtt hlutafé. Eftir breytinguna á ríkisbankinn 35 prósent hlut í Keahótelunum, sem starfrækja alls níu hótel víðsvegar um landið, þar á meðal Hótel Borg og Hótel Kea. Skuldbreytingin er hluti af endurskipulagningu sem felur einnig í sér að ýmis fasteignafélög sem leigja Keahótelum fasteignir veltutengja leigugreiðslur, þó með ákveðnu lágmarksgólfi.
Þeir sem áttu Keahótel áður koma í staðinn með nýtt hlutafé, alls á þriðja hundrað milljónir króna, inn í reksturinn á móti og halda fyrir vikið tæplega tveimur þriðja hluta í keðjunni. Um er að ræða bandaríska fasteignafélagið JL Properties, bandaríska eignastýringarfyrirtækið Pt Capital Advisors og Erkihvönn ehf. Allir í hluthafahópnum tóku þátt í hlutafjáraukningunni.
JL Properties stærsta fasteigna-, fasteignaþróunar-, og fjárfestingafélag Alaska. Heimamarkaður félagsins er Alaska en félagið á jafnframt eignir í Utah, Georgíu og Flórída ríkjum. Pt Capital Advisors LLC er dótturfélag bandarísks eignastýringarfyrirtækis sem er með höfuðstöðvar í Anchorage í Alaska. Félagið sérhæfir sig í fjárfestingum á norðurslóðum, þar á meðal Alaska, Norður-Kanada, Grænland og Ísland.
Tryggir rekstrargrundvöll fram á árið 2022
Í tilkynningu Keahótela segir endurskipulagningin tryggi félaginu rekstrargrundvöll vel fram á árið 2022. „Endurskipulagningin styrkir bæði eiginfjárstöðu og rekstur Keahótela og skapar félaginu sterka stöðu á gistimarkaðnum þegar ferðamönnum fer að fjölga á ný, sem vonir standa til að verði strax á komandi vori.“
Þar er haft eftir Hugh Short, forstjóra PT Capital, að hluthafar séu þakklátir Landsbankanum og leigusölum fyrir farsælt samkomulag. „Við hlökkum til áframhaldandi samstarfs við Landsbankann, sem er nýr ríflega þriðjungs hluthafi í félaginu, og við leigusala okkar sem hafa ákveðið að tengja leigukjör félagsins við undirliggjandi rekstrarafkomu hótelanna sem starfrækt eru í viðkomandi fasteignum. Þetta skiptir miklu. Fyrir liggur að aðilar samkomulagsins hyggjast takast á við næstu misseri saman eða þar til eðlilegt ástand skapast á ferðamarkaðinum að nýju. Ljóst er að Covid hefur haft gríðarlegar afleiðingar í för með sér fyrir ferðaþjónustuna, bæði hér á landi og um allan heim. Fyrir þá sem munu lifa í gegnum þessa óvenjulegu tíma geta orðið til ýmis ný tækifæri og á þeirri vegferð skiptir miklu að vera með fullfjármagnað félag og reksturinn tryggðan til lengri tíma.“