Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið leggur til að endurgreiðslur til sjónvarps- og kvikmyndaframleiðslufyrirtækja lúti skýrari reglum og séu bundnar strangari skilyrðum, samkvæmt drögum að nýju frumvarpi í Samráðsgátt stjórnvalda. Meðal annars er lagt til að framleiðslukostnaður fyrirtækjanna verði betur skilgreindur og að þau fái löggilta endurskoðendur til að fara yfir uppgjör þeirra.
Drögin birtust í Samráðsgáttinni í gær og byggja á skýrslu sem Ríkisendurskoðun skilaði til Alþingis um endurgreiðslukerfi til kvikmyndafyrirtækja og framkvæmd þess. Samkvæmt ráðuneytinu eru lagabreytingatillögurnar í frumvarpinu gerðar til að bregðast við athugasemdum Ríkisendurskoðunar í skýrslunni sinni.
Uppgjör og endurskoðun á öllum verkefnum
Samkvæmt núgildandi lögum þurfa kvikmyndafyrirtækin að skila endurskoðuðu uppgjöri ef þeir fá meiri en 20 milljónir króna í endurgreiðslu frá ríkinu. Þetta þýðir þó að talsverðar fjárhæðir eru greiddar til kvikmyndafyrirtækja án þess að uppgjör liggi fyrir, en þær námu 223 milljónum króna vegna 35 verkefna árið 2018 eins og kemur fram í frumvarpsdrögunum.
Ráðuneytið leggur til að öll framleiðslufyrirtæki sem fá endurgreiðslu frá ríkinu þurfa nú að skila kostnaðaruppgjöri sem farið hefur verið yfir með löggiltum endurskoðanda, óháð upphæð.
Allur vafi tekinn af
Til viðbótar við kröfu um kostnaðaruppgjör fela frumvarpsdrögin í sér skýrari skilgreiningu á framleiðslukostnaði sem hægt er að fá endurgreiðslu fyrir. Hann feli í sér allan þann kostnað sem fellur til hérlendis, eða stundum í öðrum EES-löndum, við gerð kvikmyndaverks og tengist annað hvort undirbúningstímabili, framleiðslutímabili eða eftirvinnslutímabili framleiðslu. Þessi kostnaður verði að vera skráður í fjárhagsbókhaldi umsækjanda.
Þar að auki inniheldur frumvarpið ýmis önnur skilyrði sem er ætlað að taka af allan vafa um skilyrðin sem fylgja endurgreiðslunni. Þeirra á meðal er að endurgreiðsla til sjónvarpsþátta eða kvikmynda verði alltaf tilgreind í kreditlista og að skýrt verði nánar hvenær framleiðslu telst vera lokið.
Ráðuneytið hefur opnað fyrir umsagnir við frumvarpsdrögin og mun taka á móti þeim fram að áramótum. Enn sem komið er hefur enginn skrifað umsögn.