Samfylkingin hefur birt lista yfir þá einstaklinga sem gefa kost á sér til þess að taka sæti á framboðslistum flokksins í Reykjavík. Alls eru frambjóðendurnir 49 talsins.
Nokkur nöfn koma á óvart á listanum, en þar má meðal annarra finna Stefán Ólafsson prófessor og sérfræðing hjá Eflingu, Rósu Björk Brynjólfsdóttur alþingismann, Karl Th. Birgisson blaðamann og Nicole Leigh Mosty, fyrrverandi þingmann Bjartrar framtíðar.
Einnig er Ásta Guðrún Helgadóttir fyrrverandi þingmaður Pírata á listanum og sömuleiðis Inga Auðbjörg Straumland formaður Siðmenntar. Þess má geta að hún eiginkona Helga Hrafns Gunnarssonar þingmanns Pírata.
Hjálmar Sveins gefur kost á sér í landsmálin
Nokkrir úr borgarstjórnarflokki Samfylkingarinnar eru á listanum, en borgarfulltrúarnir Hjálmar Sveinsson og Ragna Sigurðardóttir gefa bæði kost á sér auk varaborgarfulltrúanna Arons Leví Beck og Ellenar Calmon.
Báðir þingmenn flokksins í Reykjavík, Ágúst Ólafur Ágústsson og Helga Vala Helgadóttir, gefa kost á sér til þess að vera áfram í fararbroddi fyrir Samfylkinguna í Reykjavík. Það gerir einnig Rósa Björk Brynjólfsdóttir, sem gekk í þingflokk Samfylkingarinnar í gær, en hún er þingmaður Suðvesturkjördæmis og óljóst var þar til nú hvort hún hefði hug á að bjóða fram krafta sína í Reykjavík.
Talsverður fjöldi fólks hafði þegar staðfest að það ætlaði að gefa kost á sér, þeirra á meðal Kristrún Frostadóttir aðalhagfræðingur Kviku banka, Jóhann Páll Jóhannsson fyrrverandi blaðamaður á Stundinni og Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu, félags fanga, svo nokkur séu nefnd.
Framboðskönnun stendur yfir fram á sunnudag
Samfylkingin ætlar ekki að halda prófkjör í Reykjavík fyrir komandi kosningar, eins og áður hefur verið greint frá, heldur nota svokallaða „sænska leið“ við uppstillingu á lista. Hún felur í sér að flokksfélagar geta lýst skoðun sinni á frambjóðendum og hefst framboðskönnun á netinu síðdegis í dag og stendur fram á komandi sunnudag.
Í könnuninni velur hver og einn 5 til 10 frambjóðendur með kjörmerkinu X en ekki með tölugildum eins og algengast er í prófkjörum hérlendis. Þessar niðurstöður verða svo kynntar uppstillingarnefnd flokksins, en úrslitin verða ekki opinberuð. Uppstillingarferlið á að hefjast strax að lokinni framboðskönnun, samkvæmt tilkynningu frá fulltrúaráði Samfylkingarinnar í Reykjavík.
Búist er við að listar flokksins verði kynntir í febrúar.
Listi frambjóðenda í heild
- Aldís Mjöll Geirsdóttir, forseti Norðurlandaráðs æskunnar
- Alexandra Ýr van Erven, ritari Samfylkingarinnar
- Aron Leví Beck Rúnarsson, myndlistarmaður og varaborgarfulltrúi
- Auður Alfa Ólafsdóttir, sérfræðingur hjá Alþýðusambandi Íslands
- Axel Jón Ellenarson
- Ágúst Ólafur Ágústsson, alþingismaður
- Ásgeir Beinteinsson, skólaráðgjafi
- Ásta Guðrún Helgadóttir, ráðgjafi
- Björn Atli Davíðsson, lögfræðingur
- Bolli Héðinsson, hagfræðingur og formaður efnahagsnefndar Samfylkingarinnar
- Dagfinnur Sveinbjörnsson, forstjóri Arctic Circle
- Einar Kárason, rithöfundur og varaþingmaður
- Ellen J. Calmon, varaborgarfulltrúi
- Eva H. Baldursdóttir, lögmaður og jógakennari – formaður umhverfishóps Samfylkingarinnar
- Finnur Birgisson, arkitekt á eftirlaunum
- Fríða Bragadóttir
- Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu
- Gunnar Alexander Ólafsson, heilsuhagfræðingur
- Gunnhildur Fríða Hallgrímsdóttir
- Halla Gunnarsdóttir, lyfjafræðingur
- Helga Vala Helgadóttir, alþingismaður
- Hjálmar Sveinsson, borgarfulltrúi
- Hlíf Steinsdóttir, aktívisti og baráttukona
- Hlynur Már Vilhjálmsson, stofnandi Félags fósturbarna og starfsmaður frístundaheimilis
- Höskuldur Sæmundsson, leikari og markaðsmaður - formaður atvinnuvegahóps Samfylkingarinnar
- Inga Auðbjörg Straumland, athafnarstjóri og Kaospilot
- Ingibjörg Grímsdóttir, þjónustufulltrúi hjá Velferðarsviði Reykjavíkurborgar
- Ída Finnbogadóttir, mannfræðingur og deildarstjóri á áfangaheimili
- Jóhann Páll Jóhannsson, blaðamaður og stjórnmálahagfræðingur
- Jóhanna Vigdís Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Almannaróms
- Karl Th. Birgisson, blaðamaður
- Kikka K. M. Sigurðardóttir, leikskólakennari
- Kristrún Mjöll Frostadóttir, hagfræðingur
- Magnea Marinósdóttir, alþjóðastjórnmálafræðingur og sérfræðingur í jafnréttismálum
- Magnús Árni Skjöld Magnússon, dósent í stjórnmálafræði við Háskólann á Bifröst - formaður alþjóðahóps Samfylkingarinnar
- Magnús Davíð Norðdahl
- Nichole Leigh Mosty, formaður Samtaka kvenna af erlendum uppruna á Íslandi og verkefnastjóri í Hverfisverkefni Breiðholts
- Nikólína Hildur Sveinsdóttir, vefstjóri og fyrrverandi forseti UJ
- Óskar Steinn Ómarsson, deildarstjóri á leikskóla
- Ragna Sigurðardóttir, forseti Ungra jafnaðarmanna og borgarfullrúi í Reykjavík
- Rósa Björk Brynjólfsdóttir, alþingismaður
- Sigfús Ómar Höskuldsson, varaformaður SffR
- Sonja Björg Jóhannsdóttir, deildarstjóri á leikskóla - Bs. í sálfræði
- Stefanía Jóna Nielsen, sérfræðingur á kjarasviði Sameykis
- Stefán Ólafsson, prófessor við HÍ og sérfræðingur hjá Eflingu – stéttarfélagi
- Steinunn Ása Þorvaldsdóttir, fjölmiðlakona
- Steinunn Ýr Einarsdóttir, forman Kvennahreyfingar Samfylkingarinnar
- Viðar Eggertsson, leikstjóri og verðandi eldri borgari í starfsþjálfun
- Viktor Stefánsson, forseti Hallveigar – Ungra jafnaðarmanna í Reykjavík
- Vilborg Oddsdóttir
- Þórarinn Snorri Sigurgeirsson