„Sannleikurinn truflar ekki Miðflokkinn, frekar en fyrri daginn, enda eru þingmenn hans bara að færa eigin fordóma í búning umhyggju fyrir börnum. En fordómar eru fordómar sama hvaða hulu maður reynir að sveipa yfir þá.“
Þetta skrifar þingmaður Vinstri grænna, Kolbeinn Óttarsson Proppé, á Facebook í dag.
Tilefnið er frumvarp sem tekur á ódæmigerðum kyneinkennum en þingmenn greiða atkvæði um málið á Alþingi seinna í dag. Umræðu lauk í hádeginu.
Barnið ráði sjálft yfir eigin líkama
Kolbeinn segir að með nýjum lögum sé börnum sem fæðast með ódæmigerð kyneinkenni tryggður réttur til líkamlegrar friðhelgi í tengslum við kyneinkenni sín og að þau eigi rétt á fullkomnustu heilbrigðisþjónustu sem á hverjum tíma er völ á að veita.
„Hvað þýðir það? Jú, að barnið sjálft ráði yfir eigin líkama og hvort á honum verði gerðar breytingar til að færa hann í átt að því sem við teljum dæmigert. Gríðarlega stórt mannréttindaskref.
Auðvitað ætti maður bara að fagna og gleðjast yfir framförunum. Og kannski er það að veita Miðflokknum of mikla athygli að virða rangfærslur þeirra í málinu viðlits. En ég get bara ekki á mér setið, því ég hef undir umræðum þeirra skammast mín fyrir þá staðreynd að þessi fornaldarviðhorf finnist á Alþingi Íslendinga. Sem betur fer bara bundin við einn flokkinn, en samt,“ skrifar hann.
Mikið megi þeir skammast sín
Þá telur Kolbeinn að þessi viðhorf Miðflokksmanna séu fornaldarviðhorf sem þeir setji í búning umhyggju þar sem þeir fullyrði að nauðsynlegar læknisaðgerðir verði ekki heimilar.
„Kippa sér ekkert upp við að í frumvarpinu er sérstaklega kveðið á um að heimilt sé að framkvæma aðgerðir sem hafa varanlegar breytingar í för með sér „ef heilsufarslegar ástæður krefjast, að undangengnu ítarlegu mati á nauðsyn breytinganna og afleiðingum þeirra til skemmri og lengri tíma,“ eins og segir í frumvarpinu. Kippa sér heldur ekki upp það að Læknafélagið, Landlæknir, barnaskurðlæknateymi Landspítalans og fleiri læknar styðji frumvarpið.“ skrifar hann.
Lýkur hann færslunni á því að segja að mikið megi þingmenn Miðflokksins skammast sín „fyrir að sparka úr sinni forréttindastöðu í jafn viðkvæman hóp og frumvarpið fjallar um“.
Telur að rökstuðningurinn sé oft og tíðum farsakenndur
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, hefur sagt að þetta sé versta mál þessarar ríkisstjórnar.
„Dæmigert merkimiðastjórnmál sem er eingöngu rætt út frá heiti og yfirlýstum markmiðum en ekki innihaldi og afleiðingum. Þess vegna höfum við heyrt hér hástemmd öfugmæli um mannréttindi og annað sem er í raun þversagnir þegar þetta mál er skoðað. Þetta snýst ekki um að vernda intersex fólk og þetta snýst ekki um trans fólk. Þetta snýst um að svipta börnin sjálfsögðum og lífsbætandi lækningum sem framkvæmdar hafa verið með góðum árangri, jafnvel áratugum saman,“ sagði hann í umræðum á Alþingi fyrr í vikunni.
Þá telur hann að rökstuðningurinn sé oft og tíðum farsakenndur og að jafnvel sé vísað í alþjóðasáttmála gegn pyntingum til að réttlæta það að börn fái ekki heilbrigðisþjónustu.
„Það er með þessu verði að gefa til kynna að mörg hundruð foreldrar og læknar hafa á undanförnum árum og áratugum brotið rétt á börnum sínum með því að veita þeim aðgerðir eða aðrar lækningar sem hafa verulega bætt lífsgæði þeirra fyrir lífstíð. Og það er ótrúlegt að svona forneskjulegt og öfgafullt mál skuli keyrt hér í gegn á alþingi árið 2020,“ sagði hann.