Már Guðmundsson fyrrverandi seðlabankastjóri segir stjórnmálamenn ekki einungis geta vísað í útreikninga hagfræðinga sem hina einu réttu niðurstöðu um ákvarðanir eins og aðild Íslands að Evrópusambandinu. Samkvæmt honum er ekki hægt að ætlast til þess að hagfræðingar „reikni þá inni í lausnina.“
Þetta segir Már í ítarlegu viðtali í jólablaði Vísbendingar, sem kom út til áskrifenda í gær. Samkæmt honum væri myntbandalag alvöru valkostur fyrir Ísland. Hins vegar lægi ekki endilega fyrir hvort sá kostur væri fýsilegri við núverandi aðstæður en sá sem þjóðin býr við um þessar mundir, þar sem eini raunhæfi kosturinn á myntbandalagi væri aðild að Evrópusambandinu og að umræða og ákvarðanir fyrir það færu langt út fyrir svið hagfræðinnar.
„Mér finnst eins og ýmsir, bæði stjórnmálamenn og aðrir, hafi tilhneigingu til að ætlast til þess að hagfræðingar reikni þá inn í lausnina. En það er ekki þannig og það verður ekki þannig,“ bæti Már við. „Ef mál hafa mjög víðtæk þjóðfélagsáhrif og pólitískar hliðar, þá verða stjórnmálamennirnir að meta alla kosti og galla slíkra mála, taka þá forystu sem þeir vilja taka á hverju sviði og þora að standa með því. Þeir geta þá ekki einungis vísað í að það sé búið að reikna þetta út og það sé það eina rétta. Því að þannig er það ekki.“
Jólablað Vísbendingar verður aðgengilegt öllum í gegnum heimasíðu Kjarnans í næstu viku. Ásamt viðtalinu við Má eru þar ýmsar greinar frá sérfræðingum úr öllum áttum, meðal annars frá Gylfa Zoega hagfræðiprófessor í HÍ, Grétu Maríu Grétarsdóttur fyrrverandi framkvæmdastjóra Krónunnar og Gunnari Þór Bjarnasyni sagnfræðingi.
Hægt er að gerast áskrifandi að Vísbendingu með því að smella hér.