Lífeyrissjóðir ættu að geta komið meira að fjármögnun innviðaverkefna og fjöldi slíkra verkefna er tækur í samstarf með fjárfestum að mati Ólafs Sigurðssonar framkvæmdastjóra Birtu Lífeyrissjóðs en hann var gestur Sprengisands á Bylgjunni í morgun. Að hans mati þarf fjármögnun slíkra verkefna ekki endilega að vera öll á fjárlögum.
Ólafur nefndi ISAVIA og Landsnet sem dæmi um ríkisrekin fyrirtæki sem þurfa á fjármagni að halda til uppbyggingar, fjármagni sem gæti komið frá Lífeyrissjóðunum. „Það er fullt af verkefnum sem er brýn þörf á að fara í og við höfum horft á þetta sem fjárfestingu sem gæti skilað hagvexti til framtíðar, að innviðirnir verði skilvirkari,“ sagði Ólafur.
Það sem hefur í staðið í vegi fyrir þessari þróun að mati Ólafs eru stjórnmálin: „Þetta er einkavæðing eins og svo er kallað. Okkur hefur líka mögulega vantað formið til að fara í samrekstur. Þetta er ekki endilega spurning um að þetta þurfi að fara að fullu í eigu einkaaðila. Þetta er spurning um það hvort að stjórnvöld, sveitarfélög og ríki, sjái sér hag í því að eiga suma hluti með einkaaðilum, með lífeyrissjóðum og öðrum.“
Hann sagði aðkomu lífeyrissjóða að slíkum verkefnum auka fjölbreytni eigna sjóðanna og í því fælist þar af leiðandi áhættudreifing. Í upphafi viðtalsins ræddu þeir Kristján Kristjánsson, stjórnandi þáttarins, og Ólafur um þann vanda sem lífeyrissjóðirnir standa frammi fyrir í því lágvaxtaumhverfi sem nú er til staðar; að skila viðunandi ávöxtun.
Umhverfismálin sífellt mikilvægari
Að sögn Ólafs eru umhverfismálin sífellt ofar á baugi, sérstaklega þegar horft er langt fram í tímann líkt og lífeyrissjóðir þurfa að gera í sínum fjárfestingum. Þá geti lífeyrissjóðir sem fjárfestar haft áhrif þegar kemur að umhverfismálum. „Áhrifin sem fjárfestar geta haft, ef þeir vilja hafa áhrif geta verið annars vegar að sniðganga það sem vont er eða þá að fara inn í það sem þykir ekki gott og hafa jákvæð áhrif til breytinga. Enda skilar það viðunandi ávöxtun og þetta verður hver sjóður fyrir sig að meta,“ sagði hann.
„Við erum á þessari vegferð að við viljum hafa jákvæð áhrif hvar sem við berum niður. Við viljum taka þátt í hluthafafundum og segja skoðun okkar. Við vonum að hún auki ávöxtun, dragi úr áhættu og leiði til verðmætasköpunar,“ sagði Ólafur um stefnu Birtu. Hann sagði auk þess að þau fyrirtæki sem horfi til umhverfismála geti dregið úr kostnaði. Það hafi auk þess oft og tíðum í för með sér aukna framlegð.