Vinnumálastofnun hefur tekið ákvörðun um að upplýsingar um fjölda tilkynntra hópuppsagna verði framvegis birtar á heimasíðu stofnunarinnar á öðrum degi hvers mánaðar. Í lok nóvember greindi stofnunin frá hópuppsögn hjá fjármálafyrirtækinu Borgun þremur dögum áður en fyrirtækið sjálft var búið að segja upp starfsmönnum sínum.
Í samtali við Vísi föstudaginn 27. nóvember sagði Unnur Sverrisdóttir forstjóri Vinnumálastofnunar frá því að 35 manns hefði verið sagt upp í hópuppsögn hjá fjármálafyrirtæki, en til þessa hefur Vinnumálastofnun veitt upplýsingar um hópuppsagnir þegar slíkar tilkynningar berast til stofnunarinnar.
Það er oftast á allra síðustu dögum mánaðarins. En í þessu tilviki var síðasti dagur mánaðarins mánudagurinn 30. nóvember.
Fjölmiðlar og stéttarfélag og starfsmenn fjármálafyrirtækja engu nær
Fjölmiðlar, meðal annarra Kjarninn, reyndu að komast að því hvaða fyrirtæki í fjármálageiranum hefði verið að segja upp starfsfólki, án árangurs.
Í frétt Viðskiptablaðsins, sem skildi eftir fleiri spurningar en svör, var haft eftir Friðberti Traustasyni framkvæmdastjóri Samtaka starfsmanna fjármálafyrirtækja að engin tilkynning um hópuppsögn hefði borist stéttarfélaginu.
Spurning væri hins vegar hvort umrætt fyrirtæki hefði sent Vinnumálastofnun skeyti um uppsagnirnar en hygðist tilkynna þær starfsfólki eftir helgi. Það reyndist raunin. Á mánudeginum, 30. nóvember, tilkynnti Borgun að tæplega þrjátíu starfsmönnum hefði verið sagt upp.
Viðkvæmar upplýsingar þurfi að berast með réttum hætti
Starfsmenn fjármálafyrirtækja voru því margir með þessar óljósu fréttir af hópuppsögn í huganum síðustu helgi mánaðarins. Áðurnefndur Friðbert segir við Kjarnann að það sé gott að Vinnumálastofnun hafi ákveðið að breyta verklagi sínu.
„Það var ekki búið að segja starfsmönnum Borgunar upp þennan föstudag þegar forstjóri Vinnumálastofnunar fór með fréttina í fjölmiðla,“ segir Friðbert og bætir við að þetta hafi skapað „mikla óvissu“ hjá öllum starfsmönnum fjármálafyrirtækja þessa helgi.
Í tilkynningu sem barst fjölmiðlum í dag segir Unnur Sverrisdóttir forstjóri stofnunarinnar að um sé að ræða erfiðar og sársaukafullar ákvarðanir af hálfu fyrirtækja og viðkvæmar upplýsingar sem snerta hagi fjölda fólks.
„Það er mikilvægt að þessar upplýsingar séu áreiðanlegar og réttar og hafi borist fólki, sem þær kunna að snerta, með réttum hætti og frá réttum aðilum og því er þessi ákvörðun tekin,“ segir Unnur, í tilkynningunni.