Stefán Ólafsson, prófessor í félagsfræði, hefur ákveðið að láta af störfum hjá Háskóla Íslands eftir 40 ára starf innan skólans.
Hann greinir frá ákvörðuninni í stöðuuppfærslu á Facebook og segir þar að honum hafi verið boðið fullt starf hjá Eflingu-stéttarfélagi sem hann hafi ákveðið að þiggja. „Ég hef verið í hálfu starfi þar sem sérfræðingur síðan 2018 og líkað afar vel að vinna með hinni nýju öflugu forystu sem þar ryður nýjar brautir inn í framtíðina.“
Stefán var ráðinn í hálft starf hjá Eflingu í júní 2018 en það starf fól í sér umsjón með rannsóknar-og greiningarvinnu auk þess sem hann hefur verið Sólveigu Önnu Jónsdóttur, formanni Eflingar, og stjórn félagsins til ráðgjafar um stefnumótun í kjaramálum og á tengdum sviðum.
Stefán tók síðar sæti í stjórn Gildis lífeyrissjóðs, þriðja stærsta lífeyrissjóðs landsins, fyrir hönd Eflingar. Hann er nú stjórnarformaður Gildis.
Hann skrifar reglulega greinar sem birtast á Kjarnanum. Sú síðasta, sem birtist 12. desember, bar fyrirsögnina „Neyðaraðstoð til þeirra best settu!“ Þar spurði Stefán hvers vega verið væri að lækka skatta á vel stætt efnafólk sem hefur aukið eignir sínar stórlega á síðustu árum.
Stefán var einnig á meðal þeirra 49 einstaklinga sem gáfu kost á sér á lista Samfylkingarinnar í Reykjavík fyrir næstu þingkosningar, sem fram fara að óbreyttu í september á næsta ári. Stefán segir í samtali við Kjarnann að hann hafi dregið það framboð til baka í kjölfar þess að hafa ráðið sig í fullt starf hjá Eflingu.