Þingflokkur Miðflokksins fer fram á að Alþingi verði kallað sama í síðasta lagi mánudaginn 28. desember næstkomandi. Fundum Alþingis var frestað 18. desember síðastliðinn í mánuð, eða til 18. janúar 2021.
Miðflokkurinn segir í tilkynningu að nauðsynlegt sé að kalla þing fyrr saman en stóð til í „ljósi þeirrar óvissu sem nú er uppi varðandi komu bóluefna vegna COVID-19 hingað til lands“. Þingheimur þurfti að fá tækifæri til að ræða málið við ríkisstjórnina.
Flokkurinn telur að mjög misvísandi upplýsingar hafi birst um þá samninga sem gerðir hafi verið við bóluefnisframleiðendur undanfarna daga og um hvernig bólusetningu verði háttað. „Þar vegast upplýsingaóreiða og ráðaleysi stjórnvalda á.“
Að mati Miðflokksins verður ríkisstjórnin að veita sem fyrst „áreiðanlegar og nákvæmar upplýsingar um hver raunveruleg staða er á samningum um virk og nothæg bóluefni og hvernig bólusetning þjóðarinnar mun ganga fyrir sig og hvenær þess er að bæta að þjóðlíf geti færst í hefðbundið ástand. Ríkisstjórnin verður að gefa skýringar á því hvort öll úrræði þ.m.t. aðkoma einkafyrirtækja að útvegun bóluefnis hafa verið nýtt.“
Janssen bóluefnið kemur ekki fyrr á þriðja ársfjórðungi 2021
Ísland undirritaði í gær samning um bóluefni frá lyfjaframleiðandanum Janssen. Um er að ræða þriðja samning íslenskra heilbrigðisyfirvalda um kaup á bóluefnum við COVID-19, en hann tryggir bóluefni fyrir 235 þúsund einstaklinga. Áður höfðu íslensk stjórnvöld gert samning um bóluefni frá Pfizer fyrir um 85 þúsund manns og Astra Zeneca fyrir um 115 þúsund manns.
Í tilkynningu frá heilbrigðisráðuneytinu sagði að þátttaka Íslands í samstarfi Evrópuþjóða um kaup á bóluefnum í gegnum samninga framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins tryggi Íslandi hlutfallslega sama magn bóluefna og öllum öðrum þjóðum sem taka þátt í samstarfinu. „Framkvæmdastjórnin kveður á um hve mikið ríkin fá og er þar alfarið byggt á hlutfallslegri úthlutun miðað við höfðatölu hverrar þjóðar. Heilbrigðisráðuneytið vinnur að lokagerð samnings við lyfjaframleiðandann Moderna og er ráðgert að undirrita hann 31. desember næstkomandi.“
Fyrstu skammtar frá Pfizer væntanlegir
Fyrsta bóluefnið sem Ísland fær verður frá Pfizer. Samningar við það fyrirtæki voru undirritaðir 9. desember síðastliðinn og Evrópska lyfjastofnunin veitti bóluefninu skilyrt markaðsleyfi í vikunni. Ísland fær 170 þúsund skammta af bóluefninu en hver einstaklingur mun þurfa tvo skammta. Það dugar því fyrir 85 þúsund manns. Bóluefnið frá Pfizer kemur þó ekki allt í einu hingað til lands. Stefnt er að því að afhending hefjist fyrir árslok og að fyrsta sending verði tíu þúsund skammtar.
Bóluefni Moderna verður líkast til næst til að koma á markað. Fasa III prófunum á því er lokið og áætlað er að Evrópska lyfjastofnunin haldi matsfund vegna Moderna bóluefnisins 6. janúar næstkomandi. Ísland hefur ekki samið við Moderna en viðræður eru í gangi og stefnt er á undirritun samnings á gamlársdag.
Astra Zeneca hefur líka lokið fasa III prófunum. Virkni þess bóluefnis er þó minni en hjá Pfizer og Moderna. ekki liggur fyrir hvenær Evrópska lyfjastofnunin mun gefa út álit á bóluefninu, en stefnt er að því að byrja að afhenda skammta í Evrópu á fyrsta ársfjórðungi 2021. Ísland fær, líkt og áður sagði, efni sem dugar fyrir 115 þúsund einstaklinga þaðan.