Ónefndur ráðherra í ríkisstjórn Íslands var á meðal 40 til 50 gesta sem voru í samkvæmi í sal í útleigu í miðborg Reykjavíkur í gærkvöldi. Töluverð ölvun var í samkvæminu og enginn þeirra sem þar voru staddir voru með grímur fyrir andliti.
Frá þessu er greint í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu en hún var kölluð til vegna samkvæmisins klukkan 22:25 á Þorláksmessukvöldi í kjölfar þess að henni barst tilkynning um sérstaka smithættu og brot á reglum um fjöldasamkomu.
Í dagbók lögreglunnar segir að veitingarekstur sé í umræddum sal sem falli undir svokallaðan flokk II og því ætti salurinn að hafa verið lokaður á þeim tíma sem samkvæmið var stöðvað. „Í ljós kom að á milli 40-50 gestir voru samankomin í salnum, þar á meðal einn háttvirtur ráðherra í ríkisstjórn Íslands. Töluverð ölvun var í samkvæminu og voru flestir gestanna með áfengi við hönd. Lögreglumenn veittu athygli að enginn gestanna var með andlitsgrímur fyrir andliti. Lögreglumenn sögðu að nánast hvergi voru fjarlægðartakmörk virt.“
Kjarninn hefur sent fyrirspurn á upplýsingafulltrúa ríkisstjórnarinnar og óskað eftir upplýsingum um hvaða ráðherra það hafi verið sem var viðstaddur í umræddu samkvæmi í gærkvöldi.
Á vef RÚV segir að Kristján Þór Júlíusson hafi verið á Akureyri í gærkvöldi og Sigurður Ingi Jóhannsson heima hjá sér í sveitinni í Hrunamannahreppi. „Ásmundur Einar Daðason sagðist hafa verið í Pictionary með dætrum sínum. Guðmundur Ingi Guðbrandsson sagðist vera uppi í sveit og ekki þekkja til málsins. Lilja Dögg Alfreðsdóttir sagði í samtali við fréttastofu að hún hefði ekki verið í umræddum gleðskap.“
Á vef Vísis segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir að hún hafi ekki hafa verið í samkvæminu. „Hún hafi rölt um miðbæinn í gærkvöldi, náð sér í mat og verið komin heim snemma í gærkvöldi. Þá segist Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir hafa verið hjá foreldrum sínum á Akranesi í gærkvöldi. Guðlaugur Þór Þórðarson kveðst þá vera í Skaftártungum. Hann hafi verið þar síðan í fyrrakvöld.“
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra var heldur ekki í umræddu samkvæmi.
Ráðherra áður gert mistök
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem ráðherra verður uppvís að því að taka þátt í athæfi þar sem sóttvarnareglur sem almenningur er beðinn um að virða voru ekki virtar. Um miðjan ágúst birtist mynd á samfélagsmiðlum af Þordísi Kolbrúnu, sem er ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og varaformanni Sjálfstæðisflokksins, og vinkonum hennar þar sem þær stóðu saman í einum hnapp.
Myndin sætti mikilli gagnrýni í ljósi tveggja metra reglunnar svokölluðu sem var ekki viðhöfð við þær myndatökur.
Ríkisstjórnin, sem Þórdís Kolbrún situr í, hafði nokkrum vikum áður hert reglur vegna þess að önnur bylgja kórónuveirusmita var að gera vart við sig. Á blaðamannafundi í lok júlí sagði Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra: „„Þar sem fólk kemur saman og í allri starfsemi verði tveggja metra reglan viðhöfð á milli einstaklinga. Það er að segja að hún verði ekki lengur valkvæð heldur skyldubundin. Þar sem ekki er hægt að tryggja tveggja metra fjarlægð milli ótengdra einstaklinga þá er krafist notkunar andlitsgrímu sem hylur nef og munn.“
Rúmri viku eftir að hertar aðgerðir tóku gildi skrifaði Þórdís grein í Morgunblaðið með fyrirsögninni: „Þetta veltur á okkur“. Þar fjallaði hún um þann upptakt í smitum sem hafði verið frá lokum júlímánaðar. Í greininni sagði: „Auðvitað vonum við öll að þetta bakslag endurtaki sig ekki og kúrfan fletjist út. Í því skiptir mestu að við, hvert og eitt okkar, gætum að sóttvörnum í daglegu lífi.“
Föstudaginn 15. ágúst ákváðu stjórnvöld að herða verulega takmarkanir á landamærum Íslands, sem í reynd lokuðu landinu að mestu fyrir komu ferðamanna. Við það tækifæri skrifaði Þórdís Kolbrún í stöðuuppfærslu á Facebook að áfram væru „persónubundnar sóttvarnir langöflugasta tækið til að berja þessa veiru niður og hertari aðgerðir á landamærum koma aldrei í staðinn fyrir það. Við búum í góðu samfélagi. Sterku samfélagi. Og við erum heppin með það teymi sem ráðleggur okkur í gegnum þann þátt þessa risa stóra verkefnis.“
Vinkonuhittingurinn sem röð mynda voru teknar af átti sér svo stað daginn eftir, laugardaginn 16. ágúst.
Þórdis viðurkenndi að hún hefði gert mistök og baðst afsökunar. Í viðtali við Morgunblaðið í byrjun október sagði hún um myndatökuna: „Hún var taktlaus og mistök, svona eftir á að hyggja. Myndmálið var þannig og tímasetningin rétt eftir að tilkynnt var um afdrifaríkar ákvarðanir um komur til landsins.“