Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra gerir ekki kröfu um að Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármála- og efnahagsráðherra, segi af sér eftir að hann varð uppvís af því að brjóta sóttvarnareglur á Þorláksmessu.
Þetta kemur fram á Vísi. Þar segir Katrín að hún hafi rætt við Bjarna í gær og tjáð honum óánægju sína með málið. „Svona atvik skaðar traustið á milli flokkanna og gerir samstarfið erfiðara. Sérstaklega vegna þessa að við stöndum í stórræðum þessa dagana, hins vegar er samstaðan innan stjórnarinnar verið góð og ég tel okkur hafa náð miklum árangri í því sem við erum að vinna að. Við munum halda því ótrauð áfram.“
Á vef RÚV kemur fram í viðtali við Katrínu að Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, hafi einnig átt samtal við Bjarna vegna málsins. „Ég held að öllum sé ljóst okkar hugur í þessu máli. Svo verðum við bara að sjá til,“ segir Katrín.
Allt of margir, enginn með grímu og gestur líkti lögreglu við nasista
Greint var frá því í dagbók lögreglunnar í gærmorgun að ónefndur ráðherra í ríkisstjórn Íslands hefði verið á meðal 40 til 50 gesta sem voru í samkvæmi í sal í útleigu í miðborg Reykjavíkur á Þorláksmessu. Upplýst hefur verið að sá salur var listasafnið í Ásmundarsal. Töluverð ölvun var í samkvæminu og enginn þeirra sem þar voru staddir voru með grímur fyrir andliti.
Í dagbók lögreglunnar segir að veitingarekstur sé í umræddum sal sem falli undir svokallaðan flokk II og því ætti salurinn að hafa verið lokaður á þeim tíma sem samkvæmið var stöðvað. „Í ljós kom að á milli 40-50 gestir voru samankomin í salnum, þar á meðal einn háttvirtur ráðherra í ríkisstjórn Íslands. Töluverð ölvun var í samkvæminu og voru flestir gestanna með áfengi við hönd. Lögreglumenn veittu athygli að enginn gestanna var með andlitsgrímur fyrir andliti. Lögreglumenn sögðu að nánast hvergi voru fjarlægðartakmörk virt.“
Lögreglumenn sáu aðeins þrjá sprittbrúsa í salnum. Þeir ræddu við ábyrgðarmenn skemmtunarinnar á staðnum og kynnt þeim að skýrsla yrði rituð. Í kjölfarið var gestum vísað út. „Þegar að gestir gengu út voru flestir búnir að setja upp andlitsgrímu. Gestirnir kvöddust margir með faðmlögum og einhverjir með kossum. Einn gestanna var ósáttur með afskipti lögreglu og líkti okkur við nasista.“
Bjarni baðst afsökunar
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, greindi frá því í stöðuuppfærslu á Facebook á ellefta tímanum á aðfangadag að hann væri sá ráðherra sem var viðstaddur samkvæmið.
Þar sagði hann meðal annars: „Ég hafði verið í húsinu í um fimmtán mínútur og á þeim tíma fjölgaði gestunum. Rétt viðbrögð hefðu verið að yfirgefa listasafnið strax þegar ég áttaði mig á að fjöldinn rúmaðist ekki innan takmarkana. Það gerði ég ekki og ég biðst innilega afsökunar á þeim mistökum.“
Stöðuuppfærslan í heild sinni var eftirfarandi: „Á heimleið úr miðborginni í gærkvöldi fengum við Þóra símtal frá vinahjónum, sem voru stödd á listasafninu í Ásmundarsal og vildu gjarnan að við litum inn til þeirra og köstuðum á þau jólakveðju. Þegar við komum inn og upp í salinn í gærkvöldi hefði mér átt að verða ljóst að þar voru fleiri en reglur gera ráð fyrir.
Eins og lesa má í fréttum kom lögreglan og leysti samkomuna upp. Og réttilega. Þarna hafði of margt fólk safnast saman.
Ég hafði verið í húsinu í um fimmtán mínútur og á þeim tíma fjölgaði gestunum. Rétt viðbrögð hefðu verið að yfirgefa listasafnið strax þegar ég áttaði mig á að fjöldinn rúmaðist ekki innan takmarkana. Það gerði ég ekki og ég biðst innilega afsökunar á þeim mistökum.“