Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu segir það hafa verið á skjön við vinnureglur sínar að láta upplýsingar um að „háttvirtur ráðherra“ hafi verið á viðburði sem lögregla stöðvaði á Þorláksmessukvöld fylgja frásögn sinni í svokallaðri dagbók lögreglu.
Dagbók lögreglu er upplýsingapóstur sem lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sendir á fjölmiðla með reglulegu millibili.
Vinnureglan er sú, samkvæmt orðsendingu frá lögreglu, „að afmá persónugreinanlegar upplýsingar úr dagbók lögreglunnar þegar samantektir úr henni eru sendar hverjar sinni.“
Þetta fórst fyrir í samantektinni sem send var út á aðfangadagsmorgun, segir lögregla í tilkynningu sem send var á fjölmiðla í dag, vegna fjölda fyrirspurna um málið.
„Ef misbrestur verður á framansögðu er það ávallt skoðað til hlítar,“ segir einnig í tilkynningunni.
Í póstinum frá lögreglu snemma að morgni aðfangadags sagði að veitingarekstur væri í umræddum sal sem félli undir svokallaðan flokk II og því ætti salurinn að hafa verið lokaður á þeim tíma sem samkvæmið var stöðvað.
„Í ljós kom að á milli 40-50 gestir voru samankomin í salnum, þar á meðal einn háttvirtur ráðherra í ríkisstjórn Íslands. Töluverð ölvun var í samkvæminu og voru flestir gestanna með áfengi við hönd. Lögreglumenn veittu athygli að enginn gestanna var með andlitsgrímur fyrir andliti. Lögreglumenn sögðu að nánast hvergi voru fjarlægðartakmörk virt,“ sagði meðal annars í dagbókarfærslu lögreglu.
Mikill samkvæmisleikur hófst
Eftir að tölvupóstur með þessum upplýsingum barst til fjölmiðla reyndu þeir eðlilega að komast að því hvaða ráðherra hafði verið staddur í samkvæminu sem lögregla þurfti að stöðva vegna brota á sóttvarnareglum.
Vísir og Fréttablaðið greindu svo frá því að um hefði verið að ræða Bjarna Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra, sem var staddur í Ásmundarsal. Skömmu síðar staðfesti Bjarni það og baðst afsökunar, með færslu á Facebook.
Málið hefur vakið nokkra ólgu í stjórnmálunum og víðar í samfélaginu og kallað hefur verið eftir afsögn fjármálaráðherra. Hann sjálfur hefur sagt að hann hyggist ekki segja af sér ráðherraembætti vegna málsins.
Leiðtogar hinna stjórnarflokkanna tveggja hafa ekki gert kröfur um afsögn Bjarna og telja stjórnarsamstarf sitt við Sjálfstæðisflokk geta haldið áfram, nú þegar hann hafi beðist afsökunar.