Vegna kórónuveirunnar og aðgerða gegn útbreiðslu hennar er spænska hagkerfið nú í dýpstu niðursveiflu frá því að borgarastyrjöld geisaði þar í landi fyrir tæpri öld síðan. Samkvæmt Þórunni Helgadóttur hagfræðingi gæti pólitísk sundrung, saga og menning Spánar auk umsvifa ferðaþjónustu útskýrt hvers vegna landið varð svona illa fyrir barðinu á veirunni og efnahagslegum afleiðingum hennar.
Menning og þéttbýli gætu hafa fjölgað smitum
Í grein Þórunnar í jólablaði Vísbendingar bendir hún á margar hugsanlegar ástæður að baki þess hversu hratt veiran tók að dreifast á Spáni síðasta vor. Til að mynda sé algengt að fólk búi þröngt í spænskum stórborgum, þar sem fasteignaverð er hlutfallslega hátt miðað við laun. Þar búi oft saman margir vinnandi einstaklingar, sem hverjir hafi sína fjölskyldu og vinahópa utan heimilisins.
Einnig veltir hún því upp hvort menningarlegir þættir hafi stuðlað að aukinni dreifingu, en mikill samgangur er milli fjölskyldumeðlima þar í landi. Því til stuðnings nefnir hún nýlega samantekt frá spænska heilbrigðisráðuneytinu sem sýndi að rúmlega 40 prósent hópsýkinga megi rekja til vina- eða fjölskylduhittinga.
Hundar máttu hreyfa sig en ekki börn
Þórunn bendir þó á að spænska ríkisstjórnin brugðist hart við þessari dreifingu smita, en samkvæmt henni risti útgöngubannið,sem tók gildi um miðjan mars í fyrra, þjóðina djúpt.
Einnig segir hún að spænsk börn hafi verið hneppt í algjör stofufangelsi á þessum tíma, þar sem engum var leyft að fara úr húsi nema til þess að sækja nauðsynjavörur.
„Athygli vakti að hundaeigendur fengu undanþágu frá útgöngubanninu til þess að viðra dýrin sín,“ bætir Þórunn við. „Gönguferðin átti þó að vera stutt og aðeins til þess að fullnægja grundvallarhreyfiþörf hundsins. Ekki var minnst á hreyfiþörf barna í reglugerðinni. Af þeim sóttvarnaaðgerðum sem beinast að börnum eru þessar aðgerðir þær hörðustu í Evrópu en spænsk börn máttu ekki yfirgefa heimili sín í 45 daga.“
Atvinnuleysi eykst á ný
Vegna veirunnar og útgöngubannsins hefur landsframleiðsla á Spáni dregist töluvert saman og atvinnuleysi aukist á ný, en það jókst einnig töluvert í kjölfar efnahagskreppunnar fyrir rúmum áratug síðan. Þórunn vitnar í nýútgefna skýrslu frá OECD, en í henni kemur fram að það muni taka nokkur ár fyrir spænskt efnahagslíf að ná bata og að atvinnuleysi muni haldast hátt í langan tíma.
Hægt er að gerast áskrifandi að Vísbendingu með því að smella hér.