Mannskæðum farsóttum, líkt og spænsku veikinni, Svartadauða og Asíuflensunni, fylgir gjarnan langt tímabil launahækkana og lægri vaxta. Þó er ekki hægt að búast við að sú verði raunin eftir að COVID-19 farsóttinni lýkur, þar sem hún hefur ekki valdið eins mörgum dauðsföllum.
Þetta skrifar Gylfi Zoega hagfræðiprófessor í nýrri jólaútgáfu Vísbendingar, sem hægt er að lesa hér. Í grein sinni fer Gylfi yfir efnahagslegar afleiðingar farsótta síðustu alda og hagfræðirannsóknir tengdum þeim.
Samkvæmt þeim virðist spænska veikin hafa leitt til skammvinnrar kreppu og langs hagvaxtarskeiðs, bæði hérlendis og erlendis, fyrir öld síðan. Sömu sögu er að segja um aðrar stórar farsóttir, en nýleg rannsókn benti til þess að farsóttum sem valda að minnsta kosti 100 þúsund dauðsföllum fylgi tímabil hærri launa og lægri sem geti varið í áratugi.
Möguleg ástæða launahækkunarinnar er sú að vinnufæru fólki hefur fækkað vegna farsóttarinnar og verður því framlag þeirra sem eftir lifa verðmætari heldur en áður. Sömuleiðis eykst fjármagnsstofn þeirra sem eftir lifa, en með því minnkar fórnarkostnaður fjármagns og vextir lækka.
„Vegna þess að COVID farsóttin hefur sem betur fer ekki valdið eins mörgum dauðsföllum og spænska veikin er ekki hægt að búast við því að laun hækki eða arðsemi fjármagns lækki á næstu árum eins og gerðist í kjölfar banvænustu farsóttanna,“ bætir Gylfi þó við. Hins vegar segir hann að efnahagslífið muni smám saman komast í eðlilegra horf þegar bæði framboðs- og eftirspurnaráhrif yfirstandandi farsóttar fjara út.
Hægt er að gerast áskrifandi að Vísbendingu með því að smella hér.