Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra óskaði landsmönnum til hamingju með daginn á blaðamannafundi í morgun en fyrstu skammtar af bóluefni Pfizer og BioNTech komu til landsins í dag.
„Mikið sem ég vildi að við gætum séð brosin bak við grímurnar en ég get fullvissað ykkur öll um það að það eru víða bros á andlitum á Íslandi í dag,“ sagði hún.
Um er að ræða 10.000 skammta af bóluefninu en á morgun, þriðjudag, verður farið í það að bólusetja íbúa hjúkrunarheimila og framlínufólks í heilbrigðisþjónustu. „Bólusetningin hefst á morgun og þar búum við að okkar sterku innviðum, við búum að öflugu fagfólki og gríðarlega vönduðum undirbúningi sem gerir okkur kleift að hefjast handa án tafar og vinna þetta verk hratt og vel.“
Sterkari saman
Svandís sagði að ástæðan fyrir því að svo hratt hefði gengið að þróa bóluefni væri samstaða. „Það er samvinna vísindamanna, samvinna og samstaða fyrirtækja, heilbrigðisþjónustu, samvinna og samstaða þjóða og íbúa þeirra. Þessi samstaða hefur skilað okkur þeirri stöðu sem við horfum á í dag. Lærdómurinn af COVID-19 er margháttaður en kannski sá stærsti að við vitum að við erum sterkari saman.
Fyrir fámenna þjóð eins og Íslendinga þá vitum við að samstaðan hefur gert það að verkum að við höfum komist betur í gegnum faraldurinn en margir aðrir hafa borið gæfu til en það er líka vegna samstöðu Norðurlandaþjóðanna og ekki síður samstöðu Evrópuþjóðanna að við erum komin hér með þessi bóluefni,“ sagði hún.
Nýr kafli í baráttunni við COVID-19
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði á fundinum að dagurinn í dag væri mikill gleðidagur í baráttunni við COVID-19. „Baráttan gegn COVID-19 hefur verið löng og ströng en það er trú mín að í dag muni hefjast nýr kafli í baráttunni við COVID-19 og með komu bóluefnisins tel ég að það hylli loksins í það að við getum farið að snúa baráttunni okkur í hag.“
Hann benti enn fremur á að rannsóknir sem gerðar hafa verið á þessu bóluefni sýndu að það væri mjög virkt gegn COVID-19 og mjög öruggt. „Ég vil því hvetja alla þá sem það stendur til boða að taka þessu bóluefni fagnandi.“
Alma Möller landlæknir tók einnig til máls á fundinum og sagði að þetta væri stórkostlegur dagur. „Til hamingju við öll og gangi okkur og ykkur vel,“ sagði hún.