Formleg rannsókn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu er hafin á mögulegu broti á sóttvarnalögum í Ásmundarsal á Þorláksmessu. Að því er fram kom í dagbók lögreglunnar að morgni aðfangadags voru milli 40-50 manns í húsinu er lögreglu bar að garði á ellefta tímanum á Þorláksmessu. Meðal gesta var Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.
Í tilkynningu frá lögreglunni í dag segir að rannsókn málsins felist m.a. í því að yfirfara upptökur úr búkmyndavélum lögreglumanna með tilliti til brota á sóttvörnum.
Bjarni hefur sagt í viðtölum eftir að málið komst í hámæli að hann telji ekki tilefni til að segja af sér ráðherraembætti vegna málsins. Hann sagði í viðtali við Kastljós í vikunni að hann hefði verið með grímu þegar hann mætti í húsið en hefði ekki haft hana á sér allan tímann.
Þá sagðist hann hafa upplifað að dvöl hans í húsinu hafi ekki staðið yfir nema í fimmtán mínútur en fjölmiðlar hafa greint frá því að frá því að annar gestur tilkynnti um meint brot á sóttvarnalögum í húsinu og þar til lögreglan mætti á vettvang hafi liðið um 40-50 mínútur. Bjarni hefði verið kominn þegar tilkynningin barst og hann hefði enn verið í húsinu er lögreglan mætti og bað fólk að yfirgefa samkvæmið.
Fleiri atriði eru umdeild. Í dagbók lögreglu kom fram að staðurinn hefði átt að vera lokaður samkvæmt flokkun rekstrarins. Eigendur halda hinu gagnstæða fram. Þá hafa þeir einnig sagt að miðað við stærð og rekstur hefðu allt að 50 manns mátt vera saman komin þar en ekki tíu.
Í dagbók lögreglunnar sagði að fáir hefðu verið með grímur, ölvun hefði verið töluverð og að fólk hefði jafnvel faðmast og kysst í kveðjuskyni eftir að samkoman var leyst upp.