Fjórir af þeim tæplega 5.000 einstaklingum sem hafa verið bólusettir gegn COVID-19 á Íslandi til þessa, með bóluefninu frá Pfizer og BioNTech, hafa látist. Í tilkynningu frá embætti landlæknis, sóttvarnalækni og Lyfjastofnun segir að hugsanlega kunni þetta að tengjast bólusetningunni, þó að eins og sakir standi bendi „ekkert til þess“ að beint orsakasamhengi sé þarna á milli.
Andlátin fjögur eru á meðal fimm alvarlegra aukaverkana sem hafa verið tilkynntar til Lyfjastofnunar eftir fyrstu umferð bólusetninga.
„Í ljósi þess að um nýtt bóluefni er að ræða hafa landlæknir, sóttvarnalæknir og forstjóri Lyfjastofnunar ákveðið að fá óháða aðila til að fara gaumgæfilega yfir þessi fimm alvarlegu atvik,“ segir í fréttatilkynningu sem send var á fjölmiðla í dag.
Öldrunarlæknar munu skoða atvikin
Þar segir að tveir sérfróðir læknar á sviði öldrunar verði fengnir til að annast rannsóknina og að henni verði hraðað eins og kostur er. Stefnt er að því að frumniðurstöður liggi fyrir innan viku til 10 daga.
Í tilkynningu segir að tilgangur rannsóknarinnar sé að meta hvort líklegt sé að þessi alvarlegu atvik tengist bólusetningunni eða hvort þau tengist undirliggjandi sjúkdómum. „Eins og sakir standa bendir ekkert til þess að beint orsakasamhengi sé þarna á milli,“ segir í fréttatilkynningunni.
Þegar niðurstöður rannsóknarinnar liggja fyrir verður skoðað hvort breyta þurfi nálgun að bólusetningum eldri einstaklinga.
Átján látast að jafnaði á dvalar- og hjúkrunarheimilum í hverri viku
Sérstaklega er tekið fram að sá hópur sem bólusettur var með fyrstu sendingu bóluefnisins samanstendur af öldruðum og hrumum einstaklingum sem dvelja á hjúkrunarheimilum, öldrunardeildum eða eru í dagdvöl.
„Hafa ber í huga að að jafnaði látast 18 einstaklingar á dvalar- og hjúkrunarheimilum á viku hverri,“ segir í fréttatilkynningunni.
Jafnframt segir þar að kallað hafi verið eftir upplýsingum frá Norðurlöndunum og sömuleiðis frá Lyfjastofnun Evrópu um hvort sjá megi aukna tíðni dauðsfalla hjá eldri einstaklingum sem hafa verið bólusettir í öðrum Evrópulöndum undanfarna daga og vikur.
Þá er tekið fram að sérstök tölfræðigreining á dauðsföllum í þessum hópi fari fram á vegum embættis landlæknis.
Fréttatilkynning Lyfjastofnunar, landlæknis og sóttvarnalæknis í heild sinni:
Lyfjastofnun hefur verið tilkynnt um fimm alvarlegar aukaverkanir, þar af fjögur andlát, sem hugsanlega kunna að tengjast bólusetningu við SARS-CoV-2 veirunni. Í öllum tilfellunum erum að ræða aldraða einstaklinga með undirliggjandi sjúkdóma og sem búa á hjúkrunarheimilum. Í ljósi þess að um nýtt bóluefni er að ræða hafa landlæknir, sóttvarnalæknir og forstjóri Lyfjastofnunar ákveðið að fá óháða aðila til að fara gaumgæfilega yfir þessi fimm alvarlegu atvik.
Tilgangur rannsóknarinnar er að meta hvort líklegt sé að þessi alvarlegu atvik tengist bólusetningunni eða hvort þau tengist undirliggjandi sjúkdómum. Eins og sakir standa bendir ekkert til þess að beint orsakasamhengi sé þarna á milli. Þess ber að geta að sá hópur sem bólusettur var með fyrstu sendingu bóluefnisins samanstendur af öldruðum og hrumum einstaklingum sem dvelja á hjúkrunarheimilum, öldrunardeildum eða eru í dagdvöl. Hafa ber í huga að að jafnaði látast 18 einstaklingar á dvalar- og hjúkrunarheimilum á viku hverri. Rannsóknin verður gerð af tveimur sérfróðum læknum á sviði öldrunar og verður henni hraðað eins og kostur er. Stefnt er að því að frumniðurstöður liggi fyrir innan viku til 10 daga.
Jafnframt hefur verið kallað eftir upplýsingum frá Norðurlöndunum og frá Lyfjastofnun Evrópu um hvort sjá megi aukna tíðni dauðsfalla hjá eldri einstaklingum sem hafa verið bólusettir í öðrum Evrópulöndum undanfarna daga og vikur. Þá fer fram sérstök tölfræðigreining á dauðsföllum í þessum hópi á vegum embættis landlæknis.
Vakin er athygli á því að allar íslenskar tilkynningar um mögulegar aukaverkanir lyfja eru skráðar í miðlægan gagnagrunn sem Lyfjastofnun Evrópu heldur úti til frekari greiningar, með það að markmiði að tryggja svo kostur er gæði og öryggi lyfja. Fyrir Íslands hönd tekur Lyfjastofnun virkan þátt í þeirri vinnu.
Þegar niðurstöður rannsóknarinnar liggja fyrir verður skoðað hvort breyta þurfi nálgun að bólusetningum eldri einstaklinga.
Alma D. Möller
landlæknir
Þórólfur Guðnason
sóttvarnalæknir
Rúna Hauksdóttir Hvannberg
forstjóri Lyfjastofnunar