Sjálfstæðisflokkurinn mælist með nákvæmlega sama fylgi og hann hafði í lok nóvember í nýjasta Þjóðarpúlsi Gallup, eða 23,7 prósent. Samfylkingin var líka með sama fylgi um liðin áramót og hún mældist með í lok nóvember, eða 17 prósent.
Í raun er fylgi allra þeirra níu flokka sem mældir voru með stuðning nánast það sama nú og það var um mánuði áður.
Píratar eru áfram þriðji stærsti flokkur landsins með 11,9 prósent fylgi, Vinstri græn koma þar á eftir með 11,7 prósent og fylgi Viðreisnar mælist tíu prósent.
Miðflokkurinn mælist með 9,1 prósent stuðning og flokkurinn sem hann klauf sig frá, Framsóknarflokkurinn, yrði minnsti flokkurinn á Alþingi ef kosið yrði í dag með 8,3 prósent atkvæða.
Hvorki Flokkur fólksins (4,3 prósent) eða Sósíalistaflokkur Íslands (3,8 prósent) eru líklegir til að ná inn manni á þing miðað við þær fylgistölur sem þeir mælast með nú.
Næst verður kosið í september næstkomandi að óbreyttu.
Nálægt 58 prósent aðspurðra segjast styðja sitjandi ríkisstjórn, sem er tæplega tveimur prósentustigum minni stuðningur en mældist í lok nóvember.
Fjórir bæta við sig, fimm tapa fylgi
Stjórnarflokkarnir þrír eru allir undir kjörfylgi síðustu kosninga, líkt og þeir hafa verið meira og minna allt kjörtímabilið. Sjálfstæðisflokkurinn myndi tapa 1,6 prósentustigi ef kosið yrði í dag, Framsóknarflokkurinn 2,4 prósentustigi en Vinstri græn allra stjórnarflokka mest, eða 5,2 prósentustigum. Samanlagt fylgi stjórnarflokkanna nú mælist 43,7 prósent en þeir fengu 52,9 prósent í síðustu kosningum.
Til viðbótar við þessa þrjá hefur Sósíalistaflokkurinn, sem hefur aldrei boðið fram til þings, tekið til sín nýtt fylgi upp á 3,8 prósent. Það þýðir að einungis Samfylkingin hefur tekið meira en hann af nýju fylgi til sín samkvæmt mælingum.
Miðflokkurinn myndi tapa 1,8 prósentustigi ef kosið yrði í dag og Flokkur fólksins 2,6 prósentustigum.
Niðurstöður sem hér birtast um fylgi flokkanna á landsvísu eru úr netkönnun sem Gallup gerði dagana 1. desember 2020 til 3. janúar 2021. Heildarúrtaksstærð var 10.958 og
þátttökuhlutfall var 51,5 prósent. Vikmörk á fylgi við flokka eru 0,6-1,2 prósent. Einstaklingar í úrtaki voru handahófsvaldir úr Viðhorfahópi Gallup.