Demókratar virðast hafa náð að tryggja sér öldungadeildarþingsætin tvö sem keppst var um í kosningunum í Georgíu í gær. Þegar hafa sumir bandarískir kosningavaktarar og fjölmiðlar lýst yfir sigri bæði Raphael Warnock og Jon Ossoff. Sjálfir hafa demókratarnir einnig báðir lýst yfir sigri.
Flestir fjölmiðlar vestanhafs telja þó enn of mjótt á munum til að slá sigri Ossoff föstum, en hafa þarf sigur með meira en 0,5 prósentustiga mun til þess að ekki sé farið sjálfkrafa í endurtalningu atkvæða í ríkinu.
En það þarf eitthvað mikið – og verulega óvænt – að eiga sér stað svo hann hafi ekki betur gegn öldungadeildarþingmanni Repúblikanaflokksins, David Perdue, þegar upp er staðið.
Ossoff er með forystu sem fer stækkandi, þar sem þau fáu atkvæði sem á eftir að telja eru talin líklegri til að falla honum í skaut en repúblikananum, þegar horft er á samsetningu kjósendahópsins sem stendur á bak við hin ótöldu atkvæði.
Báðar deildir þingsins og framkvæmdavaldið í höndum demókrata
Ef niðurstaðan verður þessi þýðir það að Demókrataflokkurinn mun stjórna öldungadeild Bandaríkjaþings með oddaatkvæði Kamölu Harris varaforseta, en hvor flokkur um sig mun hafa 50 þingmenn. Demókrataflokkurinn er einnig með meirihluta í fulltrúadeildinni og tekur síðan við forsetaembættinu 20. janúar.
Ljóst er að með báðar þingdeildirnar undir stjórn demókrata verður auðveldara fyrir Joe Biden að koma hlutum á fyrsta ári sínu sem forseti. Hann mun ekki þurfa að takast á það verkefni að leita málamiðlana gagnvart repúblikönum í öldungadeildinni um ýmsar áherslur sínar og skipan embættismanna á borð við dómara. Þessi staða, sem er óvænt, gjörbreytir myndinni sem blasti við eftir kosningarnar í nóvember.
Repúblikanaflokkurinn á nú í miklum vanda og telja margir að kenna megi forsetanum Donald Trump að svo fór sem fór í Georgíu. Í frétt Politico kenna nokkrir nafnlausir heimildarmenn innan flokksins honum um hvernig úrslitin virðast vera.
Síendurteknar staðlausar og hraktar fullyrðingar hans um kosningasvik, í því ríki og öðrum, eru af ýmsum taldar hafa spillt fyrir sigurvonum Repúblikanaflokksins í kosningum gærdagsins í Georgíu.
Stacey Abrams þakkað
Árangur demókrata í Georgíu er afar merkilegur, en ríkið sveiflaðist naumlega yfir til demókrata í forsetakosningunum í nóvember í fyrsta sinn síðan 1992 og hefur nú kosið sér fyrstu öldungadeildarþingmennina úr röðum demókrata á þessari öld. Rautt ríki er orðið blátt. Eða fjólublátt sveifluríki, hið minnsta.
Árangurinn má að margra mati þakka baráttukonunni Stacey Abrams og ýmsum öðrum sem hafa unnið ötullega að því undanfarin ár að fjölga kjósendum úr minnihlutahópum á kjörskrá ríkisins. Abrams er hluti af grasrótarhreyfingum sem hafa undanfarinn áratug og rúmlega það tekið sig saman um að láta raddir svartra kjósenda í Georgíu heyrast.
Hún bauð sig fram til ríkisstjóra Georgíu árið 2018 og tapaði naumlega og búist er við að hún reyni aftur á framboð til þess embættis árið 2022.
Frá tapi Adams árið 2018 og fram að forsetakosningunum í nóvember síðastliðnum bættust um 800 þúsund nýir kjósendur við kjörskrá ríkisins, sem telur í heild 7,7 milljónir manna.
Munurinn á atkvæðafjöldanum í báðum kosningum gærdagsins hleypur á örfáum tugum þúsunda.