„Bandarískir föðurlandsvinir,“ skrifaði Ivanka Trump, dóttir Donalds Trump fráfarandi forseta Bandaríkjanna, á Twitter í kvöld, um stuðningsmenn föður hennar sem brutust inn í þinghúsið í Washington í dag. Ivanka Trump sagði „föðurlandsvinunum“ að lögbrot væru ekki æskileg. „Ofbeldið verður að hætta strax. Gerið það, verið friðsamleg.“
Hún eyddi tístinu örfáum mínútum síðar eftir að hafa verið gagnrýnd harðlega fyrir að kalla múginn sem braust inn í þinghúsið „föðurlandsvini“.
Þúsundir stuðningsmanna Trumps eru samankomnir í Washington. Trump sagði á fjöldafundi í borginni í dag að hann væri réttmætur sigurvegari kosninganna en í dag átti að staðfesta úrslit þeirra í báðum deildum þingsins og þar með kjör Joes Bidens.
Eftir að ólætin í og við þinghúsið hófust skrifaði Trump á Twitter: „Verið friðsöm“.
Vegna óeirðanna hefur þjóðvarðliðið verið kallað út. Borgarstjórinn hefur sett á útgöngubann. Hótanir ýmsar, m.a. um sprengjur í borginni, hafa verið gerðar.