Helstu fréttaveitur vestanhafs hafa lýst yfir sigri John Ossoff í kosningum til þingsætis í öldungadeild Bandaríkjaþings í Georgíuríki. Því er ljóst að demókratar muni ná meirihluta í öldungadeildinni.
Líkt og Kjarninn greindi frá fyrr í dag voru sumir kosningavaktarar og fjölmiðlar nú þegar búnir að lýsa yfir sigri Ossoff, en stærstu fjölmiðlarnir héldu að sér höndum þar sem enn var talið of mjótt á mununum milli hans og mótherja hans, repúblíkananum David Perdue, eftir að 98 prósent atkvæðanna voru talin.
Nú hafa þó New York Times, CNN, Washington Post, Associated Press og Fox News þó allir lýst yfir sigri Ossoff og þykir því ljóst að öldungadeildin er í höndum demókrata með minnsta mögulega meirihluta.
Kosið var til tveggja öldungadeildaþingsæta í Georgíu í dag, en demókratinn Raphael Warnock og repúblikaninn Kelly Loeffler kepptust um hitt þingsætið. Í morgun lýstu helstu fjölmiðlar vestanhafs yfir sigri Warnock, en hann er nú með 50,7 prósent atkvæða gegn 49,3 prósentum Loeffler.
Jafnmargir demókratar og repúblikanar voru kjörnir í öldungadeildina, en verðandi varaforseti Kamala Harris getur veitt demókrötum meirihluta með oddaatkvæði sínu. Fyrir eru demókratar með meirihluta í fulltrúadeild Bandaríkjaþings, auk þess sem Joe Biden, frambjóðandi demókrata, bar sigur af hólmi í nýafstöðnum forsetakosningum þar í landi.