Skoðanakönnun sem framkvæmd var af fyrirtækinu YouGov á meðan að atburðir gærdagsins í Washington DC stóðu yfir hefur fengið marga til þess að staldra við og íhuga á hvaða stað bandarískt samfélag er komið. Í könnuninni voru kjósendur spurðir út í innrás æst múgs í bandaríska þjóðþingið.
Samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar töldu um það bil sex af hverjum tíu kjósendum að innrásin í þingið sé ógn við bandarískt lýðræði. En það er afar misjafnt eftir kjósendahópum, hvernig litið er á hlutina.
Einungis 27 prósent kjósenda Repúblikanaflokksins sögðust telja atburðina ógn við lýðræðið, á meðan að 9 af hverjum 10 demókrötum töldu svo vera.
Til viðbótar sögðust 45 prósent þeirra sem svöruðu og eru skráðir kjósendur Repúblikanaflokksins hreinlega styðja gjörðir þeirra hundruða sem þustu inn í þinghúsið með ofbeldi. Svipað hlutfall kjósenda flokksins sagðist á móti innrásinni í þingið.
Fleiri repúblikanar töldu Biden bera ábyrgð en Trump
YouGov spurði þátttakendur einnig að því hverjir þeir teldu að bæru ábyrgð á atburðunum.
Meirihluti, eða 55 prósent, sagðist telja að Donald Trump forseti bæri mikla ábyrgð og 11 prósent til viðbótar töldu hann bera einhverja ábyrgð á því hvernig fór.
42 prósent sögðu að þingmenn Repúblikanaflokksins sem höfðu ákveðið að mótmæla kosningaúrslitum í einstaka ríkjum bæru mikla ábyrgð á stöðunni og 20 prósent til viðbótar sögðu þá bera einhverja ábyrgð.
Einnig töldu 17 prósent kjósenda að Joe Biden verðandi Bandaríkjaforseti bæri mikla ábyrgð á atburðunum og 9 prósent til viðbótar sögðu hann bera einhverja ábyrgð. Í kjósendahópi repúblikana töldu fleiri Biden bera mikla ábyrgð á atburðunum (35 prósent) en Trump (13 prósent).
Öfgamenn eða föðurlandsvinir?
Samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar voru einnig mjög skiptar skoðanir á því hvaða augum þeir sem réðust inn í þinghúsið voru litnir. Rúmur helmingur þátttakenda í könnunni (52 prósent) sagði rétt að kalla þau „öfgamenn“ og 49 prósent töldu rétt að tala um „innlenda hryðjuverkamenn.“
Kjósendur Repúblikanaflokksins töldu flestir (50 prósent) að rétt væri að tala um „mótmælendur“, 30 prósent þeirra sögðu rétt að kalla hópinn „föðurlandsvini“ og röskum fjórðungi þeirra þótti rétt að tala um „öfgamenn.“
Þátttakendur í þessari könnun YouGov voru 1.448 talsins. Þar af voru 1.397 sem höfðu heyrt af því sem hafði átt sér stað í Washington, en um netkönnun var að ræða sem framkvæmd var á milli 17:17 og 17:42 í gær, að bandarískum austurstrandartíma.
Gögnin eru vigtuð með tilliti til aldur, kyns, menntunarstig, yfirlýstra stjórnmálaskoðana og uppruna svarenda og eiga að endurspegla fullorðna íbúa Bandaríkjanna ágætlega.