Minnihluti sveitarstjórnarinnar í Múlaþingi, nýju sameinuðu sveitarfélagi á Austurlandi, virðist ekki ganga í miklum takti, miðað við umræður á aukafundi sem haldinn var vegna skriðufallanna á Seyðisfirði í gær. Þar tókust bæjarfulltrúar meðal annars á um loftslagsvísindi og trúmál.
Þröstur Jónsson bæjarfulltrúi Miðflokksins nefndi í ræðu sinni á fundinum að hann tryði því að bænahópur fólks í Reykjavík hefði átt þátt í því að ekki varð manntjón í hörmungunum í bænum. Hópurinn hefði að morgni föstudagins örlagaríka fyrir jól, er risavaxin skriða féll og olli gríðarlegu tjóni, beðið sérstaklega fyrir Seyðfirðingum.
„Ég trúi því að skaparinn hafi kippt aðeins í spotta þar,“ sagði Þröstur.
Síðar á fundinum gagnrýndi hann svo Jódísi Skúladóttur, bæjarfulltrúa Vinstri grænna, fyrir að leggja til að Múlaþing hugaði að því að vera í fararbroddi í loftslagsmálum. Jódís sagði að skriðuföllin í Seyðisfirði, í kjölfar fordæmalausrar úrkomuákefðar dagana á undan, væru dæmi um afleiðingar hamfarahlýnunar.
Vísindamenn hafa bent á að þær breytingar sem eru að verða á loftslagi jarðar kunni að leiða til þess að úrkomuákefð aukist hér á landi á öldinni, en á það er minnst í skýrslu Vísindanefndar frá árinu 2018. Dagana 14.-18. desember síðastliðinn mældist úrkoma á Seyðisfirði 577,5 mm, sem er það mesta sem hefur mælst hér á landi á fimm daga tímabili frá upphafi mælinga. Síðan féll skriðan.
„Pólitísk vísindi en ekki vísindi“
„Ný og gömul gögn benda til þess að muni kólna en ekki hlýna næstu 30 árin. Það er verið að misnota aðstöðu sína hér til að koma þessu á framfæri. Þetta eru pólitísk vísindi en ekki vísindi,“ sagði Þröstur á fundinum – og hafði áður sagt að hann teldi það ekki við hæfi að blanda „loftslagskvíða“ inn í umræðu um málefni Seyðfirðinga, sem ættu við næg vandamál að etja.
Hildur Þórisdóttir bæjarfulltrúi Austurlistans og Seyðfirðingur tók upp hanskann fyrir Jódísi og andmælti þessum orðum Þrastar.
„Það er bláköld staðreynd að við erum að horfa upp á breytingar í veðurkerfinu og náttúruhamfarir um allan heim sem má rekja með beinum hætti til hnattrænnar hlýnunar. Vísindamenn hafa bent okkur á þetta í áratugi. Pólitíkin hefur ekki hlustað af því það hefur ekki hentað stórfyrirtækjum,“ sagði Hildur og bætti við að ekki væri um að ræða gervivísindi né pólitík.
Sagðist ekki láta þagga niður í sér með þessum hætti
Jódís svaraði síðan Þresti og sagðist telja að sér vegið með því að segja að hún væri í „pólitískum blekkingarleik.“
„Ég er lögfræðingur með sérhæfingu í umhverfismálum og starfaði að þeim hjá Umhverfisstofnun. Ég læt ekki þagga niður í mér eða smætta umræðuna á þennan hátt. Þetta er gríðarlega mikilvægt og þetta er af eitt af stóru málunum,“ sagði Jódís.
„Talandi um vísindalegar staðreyndir, þá læt ekki einhvern sem hefur mál sitt á því að það sé bænahring í Reykjavík að þakka að ekki fór verr segja mér að ég sé að fara með þvælu,“ sagði Jódís einnig.
„Hæddur og spottaður“
„Jæja, þar kom að því að ég er hæddur og spottaður fyrir að nefna nafn Jesú Krists,“ sagði Þröstur næst er hann tók til máls á fundinum. Hann sagði það ekki koma sér á óvart, þar sem það stæði í Biblíunni. Því næst sagðist hann ekki ætla að fara í „stórdeilur út af þessu“, en hvatti aðra bæjarfulltrúa til að kynna sér þau gögn sem væru að koma í ljós um „dvínandi sólaráhrif.“
Hann sagðist standa við það sem hann hefði sagt og endurtók að jörðin myndi kólna, sem væru góð tíðindi.