Jón Þór Ólafsson þingmaður Pírata hyggst ekki gefa kost á sér í næstu alþingiskosningum, samkvæmt grein sem birtist á vef Vísis í morgun.
Í greininni segist Jón Þór ekki lengur vera nauðsynlegur í framlínu Pírata. Verkefni hans innan flokksins færist nú til grasrótarinnar við að styðja frambjóðendur meðfram þingstörfunum fram að kosningum og styðja svo nýja þingmenn sem taka sæti fyrir flokkinn eftir kosningar.
Jón Þór er þriðji þingmaður Pírata af sex sem hafa gefið út að þeir ætla ekki að bjóða sig fram í næstu kosningum, en líkt og Kjarninn greindi frá síðastliðinn september hafa þingmennirnir Helgi Hrafn Gunnarsson og Smári McCarthy líka í hyggju að hætta á þingi.
Í tilkynningum sínum sögðu þingmennirnir báðir að þeim hugnaðist ekki að ílengjast um of á þinginu, auk þess sem að umbótamálum þurfi ekki síður að sinna utan veggja Alþingis.
Hinir þrír þingmenn Pírata, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, Halldóra Mogensen og Björn Leví Gunnarsson hafa hins vegar allir gefið út að þeir ætli að gefa kost á sér í komandi kosningum.