Kvikmyndaframleiðandinn Sagafilm segir að frumvarpsdrög ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra hygli fyrirtækjum sem byggja starfsemi sína á verktöku, á kostnað þeirra sem hafa fastráðna starfsmenn. Fyrirtækið býst við fjöldauppsögnum í greininni nái frumvarpsdrögin að verða að lögum í óbreyttri mynd.
Þetta kemur fram í umsögn Sagafilm um frumvarpsdrögin sem birtist á samráðsgátt stjórnvalda síðastliðinn föstudag. Kjarninn hefur áður fjallað um fyrirhugað frumvarp, en markmið þess er að reglur um ríkisstyrki til kvikmyndaframleiðenda verði skýrari, auk þess sem framleiðendurnir verði bundnir strangari skilyrðum til þess að geta fengið þá.
Frumvarpshöfundar sýni „vanþekkingu og skilningsleysi“
Samkvæmt frumvarpsdrögunum yrði ekki lengur hægt að fá þann framleiðslukostnað sem reiknaður er sem hlutdeild af rekstri félagsins endurgreiddan. Sagafilm gerir alvarlega athugasemd við þá tillögu og segir hana vera þá óskýrustu og alvarlegustu í drögunum, auk þess sem hún varpi „mestu ljósi á vanþekkingu og skilningsleysi frumvarpshöfunda á rekstri framleiðslufyrirtækja.“
Í umsögninni segir að þessi tillaga komi sérstaklega niður á Sagafilm, þar sem fjöldi starfsmanna fyrirtækisins eru fastráðnir. Því sé eðlilegt að launakostnaður þeirra, sem sé stór hluti af rekstrarkostnaði fyrirtækisins, sé tekinn með í framleiðslukostnaði á kvikmyndum eða þáttum.
Segir gerviverktöku einu leiðina
Sagafilm segir að hlutdeildin sem fyrirtækið telji með til framleiðslukostnaðar hafi verið reiknað út frá starfsmannakostnaði þess. Þar er meðtalinn allur skrifstofu- og stjórnunarkostnaður félagsins, til viðbótar við bókhalds- og endurskoðunarkostnaðar, auka annars beins starfsmannakostnaðar.
„Óhjákvæmileg afleiðing þessa ákvæðis frumvarpsins, verði það að lögum, er að kvikmyndaframleiðslufyrirtæki veigra sér við að fastráða starfsmenn sem taka þátt í framleiðslu kvikmynda,“ segir í umsögninni. Fyrirtækið segir því að eina leiðin til þess að halda áfram óbreyttri starfsemi og uppfylla skilyrði reglunnar sé með gerviverktöku, eða að segja upp öllum fastráðnum starfsmönnum og ráða þá sem verktaka.