Demókratar í fulltrúadeild Bandaríkjaþings hafa kynnt ákæruefnin á hendur Donald Trump Bandaríkjaforseta og boða að gengið verði til atkvæða í fulltrúadeildinni um hvort forsetinn verði ákærður til embættismissis eður ei í þessari viku, jafnvel strax á miðvikudag.
Bandarískir miðlar segja frá þessu í dag og New York Times birtir ákæruskjalið, sem demókratar hóta nú að bera undir atkvæði í fulltrúadeildinni. Það gera þeir í kjölfar þess að tillögu þeirra um að skorað yrði á Mike Pence varaforseta um að beita 25. grein stjórnarskrárinnar til að svipta Trump völdum var hafnað af repúblikönum.
Samkvæmt frétt New York Times verður ákæruskjal demókratanna lagt fyrir fulltrúadeildina á miðvikudag, ef svo fer sem horfir að Pence beiti sér ekki gegn Trump næsta sólarhringinn eða forsetinn segi sjálfur af sér embætti.
Samkvæmt sömu frétt hafa 210 þingmenn Demókrataflokksins þegar samþykkt að ákæra forsetann á miðvikudag, ef ákæruskjalið verður borið undir fulltrúadeildina. Það er því þegar næstum því kominn meirihluti fyrir málinu í fulltrúadeildinni og búist er við að einhverjir repúblikanar sláist í hópinn, samkvæmt frétt Times.
Á meðal þess sem demókratar hyggjast ákæra Trump fyrir er að ógna öryggi Bandaríkjanna, með því að hvetja með lygum til þess að æstur múgur lét til skarar skríða síðasta miðvikudag.
Í ákæruskjalinu segir að forsetinn hafi ógnað heilindum lýðræðiskerfisins, haft afskipti af friðsamlegum valdaskiptum og stefnt þinginu í hættu með því að hvetja æstan múg til ofbeldisverka gegn ríkisstjórn Bandaríkjanna, með ræðu sinni á mótmælafundi í Washington síðasta miðvikudag.
Verði ákæra á hendur Trump samþykkt færist málið til öldungadeildar Bandaríkjaþings þar sem þingmenn kjósa um hvort forsetanum skuli vikið úr embætti eða ekki, en einungis 9 dagar eru nú þar til Joe Biden tekur við sem næsti forseti Bandaríkjanna.