Bein útsending frá þinghúsinu í Washington og óeirðunum þar fyrir innan og utan var löngu hafin á sjónvarpsstöðvunum áður en liðsauki barst lögreglumönnunum sem voru að glíma við þúsundir æstra stuðningsmanna Donalds Trump. Fólk sat heima í stofu og fylgdist með og hugsaði: Hvar er eiginlega þjóðvarðliðið? Liðið sem hefur verið mjög sjáanlegt í öllum mótmælum í borginni síðustu mánuði? Hvers vegna var það ekki einfaldlega á staðnum þegar í upphafi í mótmælum sem höfðu verið skipulögð vikum saman?
2.000 manna lögreglulið sinnir öryggisgæslu í þinghúsinu. Þetta er sérstök lögregludeild og eftir hryðjuverkin í Bandaríkjunum árið 2001 var fjölgað í henni. Sá sem henni stýrir, Steven Sund, hefur verið harðlega gagnrýndur fyrir undirbúninginn fyrir herskara Trump-stuðningsmanna á miðvikudag. Hann sagði af sér strax daginn eftir. En í viðtali við Washington Post í dag segir hann sína hlið á málinu. Og hún er nokkuð önnur en almennt hefur verið talið.
Í viðtalinu segir hann til dæmis frá því að hann hafi sex sinnum óskað eftir liðsstyrk áður en hann loks mætti á vettvang. Fyrsta skiptið átti sé raun stað áður en miðvikudaginn rann upp. Hann hafði orðið sífellt áhyggjufyllri er nær dró mótmælunum. Hann vildi hafa þjóðvarðliðið til taks. En yfirmaður hans á Bandaríkjaþingi hafnaði þeirri beiðni. Sagði að slíkt lið, grátt fyrir járnum, myndi senda röng skilaboð.
Fjarvera þess sendi hins vegar „rétt skilaboð“ til múgsins þegar til kom. Hann taldi sig geta ruðst inn án mikillar mótstöðu. Og það reyndist rétt.
Tveimur dögum áður en viðburðurinn margauglýsti, „Björgum Bandaríkjunum“, átti að fara fram, bað Sund yfirmenn öryggisgæslu beggja þingdeildanna um leyfi til að óska eftir því að þjóðvarðliðið yrði í viðbragðsstöðu. Hann vildi hafa vaðið fyrir neðan sig ef upp úr myndi sjóða. Hann vildi geta kallað eftir liðsstyrk og fengið hann strax, ef á þyrfti að halda. Þó að lögreglan hafi á þessum tímapunkti fengið upplýsingar um að hópurinn sem Trump hafði boðað til Washington til að mótmæla kosningaúrslitunum yrði mun stærri en fyrri mótmæli í borginni, hafi yfirmenn öryggisgæslunnar hafnað beiðni hans. Þeim þótti varhugavert að lýsa yfir „neyðarástandi“ fyrir mótmælin. Það myndi senda röng skilaboð. Yfirmaður öryggismála í öldungadeildinni lagði þó til að Sund myndi nota óformlegar leiðir til að biðja um að þjóðvarðliðið yrði í viðbragðsstöðu kæmi til þess að þinglögreglan þyrfti aðstoð.
Á miðvikudeginum, þegar umræður voru í báðum þingdeildum um staðfestingu á úrslitum forsetakosninganna í nóvember, og tugþúsundir stuðningsmanna Trump höfðu safnast saman fyrir framan þinghúsið, fóru að renna tvær grímur á þinglögregluna. Og þegar ljóst var að hún réði ekki við aðstæður segist Sund hafa óskað eftir aðstoð fimm sinnum. Ástandið varð, að hans sögn, miklu verra en hann hefði nokkru sinni getað ímyndað sér.
Aðeins fimmtán mínútum eftir stuðningsmenn Trumps höfðu arkað að þinghúsinu eftir að hafa hlustað á ræðu forsetans við Hvíta húsið hafði þeim tekist að komast yfir ytri varnarlínu lögreglunnar við þinghúsið. Um 1.400 þinglögreglumenn voru á vakt.
„Ef við hefðum haft þjóðvarðliðið hefðum við getað haldið þeim í skefjum lengur þar til að liðsauki frá öðrum lögreglusveitum hefði komið á vettvang,“ segir Sund í viðtalinu við Washington Post.
Rétt fyrir kl. 14 að staðartíma hafði stuðningsmönnum Trump tekist að brjótast inn í sjálft þinghúsið. Þinglögreglan lagði þá þegar áherslu á að koma þingmönnum í öruggt skjól. Liðsauki barst skömmu síðar frá lögreglunni í Washington-borg en þá var ástandið komið úr böndunum.
Klukkan 14.26 hafði Sund samband við varnarmálaráðuneytið og óskaði eftir enn frekari aðstoð. Hann sagði neyðarástand hafa skapast og að brýnt væri að þjóðvarðliðið kæmi þegar í stað til aðstoðar.
Þá gerðist það sem kom öllum á óvart að Walter E. Piatt, yfirmaður herdeildar ráðuneytisins, sagðist ekki getað mælt með því við hermálaráðherrann að þjóðvarðlið yrði kvatt á vettvang. Sund segir að Piatt hafi sagt að sér hugnaðist ekki að sjá þjóðvarðliða standa ásamt lögreglunni við þinghúsið.
Fleiri tóku þátt í þessu símtali, m.a. embættismenn Washington-borgar og einn þeirra segir í samtali við Washington Post að Sund hafi bókstaflega grátbeðið um hjálp, aftur og aftur.
Varnarmálaráðuneytið hefur ítrekað sagt í kjölfar árásarinnar á þinghúsið að þinglögreglan hafi ekki beðið um aðstoð þjóðvarðliðsins fyrirfram, þ.e. áður en mótmælin fóru úr böndunum. Ekki hafi verið beðið um að þjóðvarðliðið yrði í viðbragðsstöðu. Beðið hafi verið um aðstoð eftir að allt fór úr böndunum þrátt fyrir að allir eigi að vita að þjóðvarðliðið geti ekki brugðist við með mjög stuttum fyrirvara. Talsmaður varnarmálaráðuneytisins segir að þinglögreglan og lögreglan í Washington-borg hafi talið sig ráða við verkefnið og ekki beðið um að liðsauki væri til taks.
Það var ekki fyrr en tæpum fjórum klukkustundum eftir að ráðist var á þinghúsið að þjóðvarðliðið var komið á vettvang. Þá höfðu þegar fjórir látist í átökunum.
Sund, sem hefur verið yfirmaður þinglögreglunnar í rúmt ár, sagði af sér og sagðist hafa brugðist samstarfsmönnum sínum.
Mikil átök innandyra
Átökin sem þinglögreglumenn lentu í við múginn inni í þinghúsinu voru mun meiri og alvarlegri en talið var í fyrstu. Á myndböndum og myndum sem birtar hafa verið um helgina má sjá lögreglumenn reyna allt hvað þeir gátu til að stöðva innrás stuðningsmanna Trumps og leggja líf sitt í hættu.
Sund mun láta af embætti 16. Janúar. Fjórum dögum síðar mun Joe Biden taka við embætti forseta. Sund óttast að það sama gerist þá.
Í viðtalinu við Washington Post viðurkennir Sund að öfgahópar hafi dagana á undan mótmælunum hótað því að brjótast inn í þinghúsið. Hann hafði áhyggjur en sagði slíkar hótanir þó oft hafa verið settar fram án þess að af þeim yrði. „Fólk segir ýmislegt á samfélagsmiðlum,“ segir hann um hótanirnar.
Hann hafi engu að síður ákveðið að hafa samband við yfirmenn öryggismála í þinginu og óska eftir því að þjóðvarðliðið yrði til taks. Hann hafði samband við yfirmann hjá þjóðvarðliðinu sem fullvissaði hann um það að ef á þyrfti að halda gætu 125 þjóðvarðliðar komið á vettvang „nokkuð fljótt“.
Mættu með klifurbúnað
Ástandið við þinghúsið hafi hins vegar allt frá því fyrstu stuðningsmenn Trump mættu verið hlaðið ofbeldi. „Þeir voru með hjálma, gasgrímur, skildi og piparúða, flugelda og klifurbúnað. Klifurbúnað!“ Sund segist aldrei hafa séð nokkuð þessu líkt í Washington.
Þegar í stað hafði hann því samband við lögreglustjórann í Washington sem sendi 100 lögreglumenn á vettvang á innan við tíu mínútum. Þegar ljóst var að það myndi engan veginn duga til hringdi Sund í yfirmenn öryggismála þingsins og bað um þjóðvarðliðið. En formsatriða vegna tók það alltof langan tíma. Og árásin á þinghúsið hófst af krafti.
Þjóðvarðliðið í Washington-borg heyrir ekki undir ríkisstjórann heldur beint undir forsetann. Því þurfti að fá samþykki varnarmálaráðuneytisins til að senda þjóðvarðlið á vettvang.
Hvað gerist eftir nokkra daga?
Eftir mikið þras í símtalinu sem fyrr er greint frá var niðurstaðan loks sú að yfirmaður öryggismála í þinghúsinu hafði samband við Mitch McConnell, forseta öldungadeildarinnar, til að reyna að fá þjóðvarðliðið á vettvang. Þá var klukkan að verða 16.
Liðsauki hafði borist frá lögreglunni í Washington og alríkislögreglunni.
Varnarmálaráðuneytið segir að klukkan rúmlega 15 hafi heimild til að kalla út þjóðvarðliðið fengist en það átti eftir að taka um tvo tíma þar til liðsmenn þess, sem sinna sínum hefðbundnu störfum dags daglega, komust á vettvang.
Sund varar við því sem gæti verið í vændum í tengslum við innsetningarathöfn Bidens og mótmæli sem boðað hefur verið til næsta miðvikudag í borginni. „Þetta er mjög hættulegt fólk og það var mjög vel undirbúið. Ég á erfitt með að kalla þetta mótmæli,“ segir hann um uppþotið í síðustu viku. Hann kennir Trump um að hafa stofnað lífi þinglögreglumanna í hættu.
Í dag er búið að koma upp háum varnargirðingum umhverfis þinghúsið. Fyrsta varnarlínan er orðin sterkari en hún var á miðvikudaginn. Hvort viðbúnaðurinn nú reynist nægur mun tíminn leiða í ljós.