Lokað hefur verið fyrir innlagnir á hjartadeild Landspítalans eftir að upp komst að sjúklingur hafi smitast á meðan hann var inniliggjandi þar. Þetta kemur fram í nýútgefinni fréttatilkynningu frá Landspítalanum.
Samkvæmt tilkynningunni kom í ljós að sjúklingur, sem legið hafði á hjartadeildinni hafi reynst smitaður í kvöld. Ekki liggur fyrir hvernig hann hafi smitast, en þó liggur fyrir að það hafi gerst á meðan hann var inniliggjandi á deildinni.
Þrátt fyrir að lokað hafi verið fyrir innlagnir á deildina verður bráðum innlögnum hjartasjúklinga verður sinnt á öðrum legudeildum. Öllum valkvæðum aðgerðum og göngudeildarheimsóknum á hjartadeild á morgun, miðvikudaginn 13. janúar, hefur verið frestað.
Vegna smitsins hefur farsóttarnefnd Landspítala, ásamt stjórnendum hjartadeildar ákveðið að skima alla 32 sjúklinga deildarinnar, auk starfsfólk hennar, sem telur á annað hundrað manns. Þar að auki verður haft samband við aðstandendur. Samkvæmt tilkynningunni er nú þegar hafið að skima og hafa samband við aðstandendur, en því verður haldið áfram á morgun. Tryggt verði að þeir fari skimun sem þörf krefur.
Sóttvarnalæknir hefur verið upplýstur um málið og nú er unnið að smitrakningu innanhúss og meðal þeirra sem deildinni tengjast eftir atvikum.
Margir starfsmenn og heimsóknir leyfðar
Í tilkynningunni eru nefndar ýmsar mögulegar útskýringar á því að COVID-19 smit hafi komið upp á deildinni, jafnvel þótt ítrustu sóttvarna og fyllstu varúðar og öryggis sjúklinga sé gætt. Þar er bent á að mikill fjöldi starfsmanna starfi á deildinni sem sé virkt upp að vissu marki í samfélginu. Einnig bætir spítalinn við að heimsóknir aðstandenda séu leyfðar upp að vissu marki.