Páll Magnússon, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður allsherjar- og menntamálanefndar, segist eiga von á því að Sjálfstæðismenn muni í „grófum dráttum styðja fjölmiðlafrumvarp Lilju Alfreðsdóttur sem hún segir fyrsta skrefið að því að taka Ríkisútvarpið af auglýsingamarkaði“. Frá þessu greinir hann í samtali við mbl.is í dag.
Þá segist hann enn fremur hafa áhyggjur af lýðræði á Íslandi í ljósi þess að Stöð 2 hefur ákveðið að læsa fréttatíma sínum. Fram kom í fjölmiðlum í gær að fréttatími Stöðvar 2 yrði í lokaðri dagskrá frá 18. janúar næstkomandi, en honum hefur í 34 ára verið sjónvarpað í opinni dagskrá. Það þýðir að aðrir en áskrifendur að Stöð 2 munu ekki lengur geta horft á fréttatímann.
Bendir Páll á að með þessu sé samkeppni á sjónvarpsfréttamarkaði í opinni dagskrá engin. Það sé einnig hættulegt fréttastofu RÚV sem þurfi á samkeppni að halda til að halda uppi gæðum þess fréttaefnis sem hún framleiðir. Páll er fyrrverandi fréttastjóri Stöðvar 2 og útvarpsstjóri RÚV.
Þrisvar verið afgreitt af ríkisstjórn
Lilja D. Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra hefur þrisvar kynnt frumvarp um stuðning við einkarekna fjölmiðla á ríkisstjórnarfundi og þar af leiðandi hefur það þrisvar verið afgreitt af ríkisstjórn.
Til stóð að afgreiða frumvarpið í desember síðastliðnum en af því varð ekki. Kjarninn greindi frá málinu á sínum tíma og hermdu heimildir hans að það væri vegna andstöðu innan Sjálfstæðisflokksins, sem situr í ríkisstjórn með flokki mennta- og menningarmálaráðherra. Þingmenn hans hafa lýst yfir mikilli andstöðu við frumvarpið, þrátt fyrir að það hefði þegar verið afgreitt úr ríkisstjórn og þingflokkum allra stjórnarflokkanna. Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði meðal annars að frumvarpið væri andvana fætt.
Frumvarpið hefur tekið töluverðum breytingum frá því var fyrst dreift á þingi síðasta vor. Sú breytta útgáfa, sem var kynnt í desember, er útþynnt útgáfa af þeirri hugmynd sem upphaflega var lagt upp með, og hefur verið ráðandi í ferli sem málið hefur nú verið í árum saman, að endurgreiða kostnað við rekstur ritstjórnar í samræmi við endurgreiðslur vegna framleiðslu kvikmynda og hljóðritunar á tónlist.
Slæm tíðindi fyrir lýðræðið
Páll segir í samtali við mbl.is að það sé viðtekin skoðun Sjálfstæðismanna að taka beri Ríkisútvarpið af auglýsingamarkaði og þannig að skapa vettvang fyrir óbjagaðan samkeppnismarkað.
„Brotthvarf frétta Stöðvar 2 úr opinni dagskrá eru slæm tíðindi fyrir lýðræðið á Íslandi því þetta setur okkur 35 ár aftur í tímann. Eini opni fréttatíminn verður á vegum ríkisins og það er engin samkeppni. Eftir þessa aðgerð verðu bara einn leikari á sviðinu. Þetta er líka hættulegt fyrir fréttastofu ríkisútvarpsins því ég held að þeir sem hafi verið lengi á þessum vettvangi séu sammála um það að breytingin sem varð á fréttastofu Ríkisútvarpsins með tilkomu Stöð 2 hafi verið mikil. Fréttirnar bötnuðu mjög mikið. Nú erum við aftur kominn á þann stað að ein fréttastofa er í opinni dagskrá og það er áhyggjuefni,“ segir hann við mbl.is.