Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, ætlar að vera í framboði í næstu þingkosningunum. Hún greindi formlega frá þessu í stöðuuppfærslu á Facebook í dag.
Þar sagðist hún, í ljósi þess að hún væri flutt aftur á æskuslóðir sínar í Mosfellsbæ, þætti henni rétt að færa sig um set og bjóða fram krafta sína til að leiða lista Pírata í Suðvesturkjördæmi í september næstkomandi, þegar næst verður kosið til Alþingis. Þórhildur Sunna leiddi lista Pírata í Reykjavíkurkjördæmi suður í síðustu Alþingiskosningum, haustið 2017. Jón Þór Ólafsson var oddviti Pírata í Suðvesturkjördæmi í þeim kosningum, en hann tilkynnti nýverið að hann myndi ekki sækjast eftir endurkjöri.
Raunar liggur fyrir að mikil endurnýjun verði í forystusveit Pírata fyrir komandi kosningar. Auk Jóns Þórs hafa þeir Smári McCarthy og Helgi Hrafn Gunnarsson tilkynnt að þeir sækist ekki eftir áframhaldandi þingsetu. Björn Leví Gunnarsson og Halldóra Mogensen munu hins vegar gera það, en hvorugt þeirra var oddviti á lista Pírata 2017 og bæði eru síðustu þingmenn sitt hvors Reykjavíkurkjördæmisins.
Framundan séu kosningar þar sem tækifæri gefist til að velja annars konar stjórnmál en hefð hefur verið fyrir á Íslandi. „Stjórnmál sem einkennast af ábyrgð, heiðarleika og réttlæti. Stjórnmál sem byggja á mannúð, framsýni og hugrekki. Við getum valið að stíga upp úr hjólförum sérhagsmuna, afturhalds og spillingar til þess að troða nýjar og betri slóðir til framtíðar. Við getum valið að lögfesta nýja stjórnarskrá fyrir Ísland. Árin mín á þingi hafa líka kennt mér að til þess að svo megi verða, þurfum við Píratar að komast í ríkisstjórn. Þar skiptir sterk grasrót og stuðningur kjósenda lykilmáli.“
Í þessu verkefni vilji hún taka þátt í áfram. „Ég vil leggja mitt af mörkum til þess að bæta samfélagið mitt og undirbúa það fyrir framtíðina. Það tilkynnist því hér með að ég sækist eftir endurkjöri og býð mig fram í prófkjöri Pírata. Í ljósi þess að ég er flutt á mínar gömlu æskuslóðir í Mosfellsbænum þykir mér rétt að færa mig um set og bjóða fram krafta mína til þess að leiða lista Pírata í Suðvesturkjördæmi.“
Fylgi Pírata mældist 12,3 prósent í síðustu könnun MMR sem myndi gera flokkinn að þriðja stærsta flokki landsins á eftir Sjálfstæðisflokki og Samfylkingu.