Í upphafi árs var tilkynnt að Davíð Þorláksson, forstöðumaður samkeppnishæfnissviðs Samtaka atvinnulífsins, hefði verið ráðinn framkvæmdastjóri Betri samgangna, opinbers hlutafélags sem hefur það hlutverk að hrinda umfangsmiklum samgönguframkvæmdum á höfuðborgarsvæðinu í framkvæmd.
Alls sóttu 18 manns um starfið, samkvæmt svari frá fyrirtækinu Vinnvinn, ráðningar og ráðgjöf, sem var stjórn Betri samgangna til ráðgjafar í ráðningarferlinu, en Kjarninn spurðist fyrir um hvernig ráðningarferlinu hefði verið háttað.
Þrír einstaklingar komust í lokaúrtak vegna starfsins og fengu verkefni til þess að leysa. Að endingu var það stjórn félagsins sem tók lokaákvörðun um að ráða Davíð Þorláksson, að sögn Árna Mathiesen fyrrverandi ráðherra, sem er stjórnarformaður félagsins.
Samkvæmt svari frá Vinnvinn var starfið auglýst 24. október síðastliðinn, með auglýsingum í Fréttablaðinu, Morgunblaðinu og Viðskiptablaðinu og á heimasíðu Vinnvinn. Auglýsing birtist jafnframt á vefborða á samfélagsmiðlunum Facebook og LinkedIn.
„Við mat á umsækjendum var stuðst við viðurkenndar aðferðir sem veita hámarks forspá um frammistöðu í starfi. Ráðningarferlið fólst í mati á umsóknum, viðtölum, persónuleikamati og verkefni sem lagt var fyrir valinn hóp umsækjenda,“ segir einnig í svari Vinnvinn til Kjarnans.
Samkvæmt Árna Mathiesen voru sjö manns af þeim átján sem sóttu um tekin í viðtöl og verkefni var lagt fyrir þrjá einstaklinga. Stjórnin tók að því loknu ákvörðun um að ráða Davíð í starfið, en samkvæmt svari Vinnvinn var allt ferlið „unnið í náinni samvinnu við stjórn Betri samgangna ohf. allt frá hæfnigreiningu starfsins þangað til niðurstaða fékkst í málið.“
Í stjórn félagsins sitja auk Árna þau Eyjólfur Árni Rafnsson, Guðrún Ögmundsdóttir, Gunnar Einarsson, Ólöf Örvarsdóttir og Hildigunnur Hafsteinsdóttir. Varamenn eru Ármann Kr. Ólafsson og Guðrún Birna Finnsdóttir.
Gerir ráð fyrir því að fleiri starfsmenn verði ráðnir en hófsemi gætt
Blaðamaður spurði Árna hvað væri nú framundan hjá félaginu, sem stofnað var í haust af ríkinu og sex sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu til þess að halda utan um þær miklu samgöngubætur sem ráðast á í á höfuðborgarsvæðinu og fjármögnun þeirra.
Framkvæmdastjórinn Davíð er enn sem komið er eini starfsmaður Betri samgangna, en Árni segist gera ráð fyrir því að félagið muni ráða fleiri. „Við erum kannski ekki alveg búin að átta okkur á því hvaða uppsetningu við þurfum að hafa,“ segir Árni.
„Við munum gæta eins mikils hófs í því og hægt er og nýta okkur sérfræðiþekkingu sem er fyrir hendi í þeim stofnunum sem hluthafarnir eru með, en samt að gæta þess að við höfum tæki og tól og þá þar með mannafla til þess að mynda okkur sjálfstæðar skoðanir og taka sjálfstæðar ákvarðanir,“ segir stjórnarformaðurinn.
„Dálítið metnaðarfull áætlun“
Árni segir að mörg verkefni séu framundan hjá félaginu, en ferlið við að koma samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins af stað og stofna félagið Betri samgöngur með lögum hafi kannski tekið aðeins lengri tíma en gert var ráð fyrir og vonast var eftir í upphafi.
Nú sé unnið að undirbúningi ýmissa framkvæmda, bæði stofnvegaframkvæmda og Borgarlínuframkvæmda og einnig uppbyggingu hjólastíga og göngustíga. Talsvert verði um framkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu á næstu árum.
„Þetta er dálítið metnaðarfull áætlun og það hefur ekki verið mikið um stofnvegaframkvæmdir undanfarin ár og Borgarlínuframkvæmdirnar eru ákveðin nýjung í þessu og breyta umferðinni og umferðarflæðinu. Það kallar á að það verði bætt úr ýmsu í stofnvegunum og stofnvegirnir verði aðlagaðir því að mæta þessum nýju aðstæðum sem Borgarlínan mun skapa,“ segir Árni.
Búa til verðmæti úr Keldnalandinu
Eitt af helstu verkefnum Betri samgangna, samkvæmt stofnsamþykktum félagsins, verður að gera eins mikil verðmæti og hægt er úr landi ríkisins við Keldur í Reykjavík.
Félagið mun taka við Keldnalandinu samkvæmt sérstökum samningi við fjármála- og efnahagsráðuneytið og allan ábata af þróun þess og sölu skal láta renna óskertan til samgangna á höfuðborgarsvæðinu.
„Félagið skal annast þróun landsins í samvinnu við skipulagsyfirvöld með það að markmiði að hámarka virði landsins og uppbyggingarmöguleika þess eins og kostur er. Við þróun landsins skal félagið hafa náið samráð við skipulagsyfirvöld er lýtur að skipulagsmálum, lóðarmálum og hönnun samgönguframkvæmda,“ segir í stofnsamþykktum Betri samgangna.
Árni segir þessa ráðstöfun Keldnalandsins „mjög athyglisvert verkefni“, því að vissu leyti sé það nýjung að nýta efnahagsreikning ríkisins í þessum tilgangi.
Lét sig samgöngumálin varða á þingi
Blaðamaður spurði Árna að lokum hvernig það hefði komið til að hann hefði valist til þess að verða stjórnarformaður Betri samgangna. „Ég eiginlega bara veit það ekki,“ segir Árni, hlær og bætir við að þeirri spurningu verði að beina til Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra, sem setti hann í hlutverkið.
„Að öllu gamni slepptu var ég þingmaður bæði í gamla Reykjaneskjördæmi og Suðvesturkjördæmi með Bjarna og eitt af verkefnum þingmanna þess tíma var að hafa mikil afskipti af samgöngumálunum,“ segir Árni.
Hann segir til viðbótar að á þingferli sínum, sem var frá árinu 1991-2009, hafi hann látið sig samgöngumál höfuðborgarsvæðisins og nágrennis varða og meðal annars verið formaður samgöngunefndar Alþingis, fyrst þegar hann kom inn á þing.