Drífa Snædal, forseti Alþýðusambands Íslands (ASÍ), segir að ætlað ákall eftir því að selja hlut ríkisins í Íslandsbanka komi líklega frá væntanlegum kaupendum, ekki almenningi. „Könnun eftir könnun hefur sýnt lítinn stuðning við söluna, enda hefur traust eftir síðustu bankasölu og hruns í kjölfarið ekki verið endurheimt.“
Þetta kemur fram í vikulegum pistli hennar sem birtur var í dag.
Þar vísar Drífa meðal annars í könnun sem gerð var fyrir starfshóp sem vann hvítbók um fjármálakerfið sem skilað var til fjármála- og efnahagsráðherra í desember 2018. Formaður þess hóps var Lárus Blöndal, stjórnarformaður Bankasýslu ríkisins, sem gerði tillögu um sölu á Íslandsbanka í síðasta mánuði.
Í þeirri könnun kom fram að 61,2 prósent landsmanna var jákvæður gagnvart því að íslenska ríkið sé eigandi viðskiptabanka. Einungis 13,5 prósent þeirra voru neikvæðir gagnvart því og 25,2 prósent höfðu ekki sérstaka skoðun á því.
Svo sögðust einungis 16 prósent landsmanna treysta bankakerfinu, sem þó er að langstærstu leyti í eigu íslensku þjóðarinnar. Og 57 prósent sögðust alls ekki treysta því.
Skýringar og röksemdir skortir
Í dag var einnig send út greinargrerð sérfræðingahóps verkalýðshreyfingarinnar um áformaða sölu Íslandsbanka. Megin niðurstaða hópsins er að skýringar og röksemdir skorti fyrir þeirri ákvörðun að hefja sölu bankans nú við þær óvenjulegu aðstæður sem ríkja og að ekki sé ráðlegt að stíga svo stórt skref á óvissutímum. Þá er vakin athygli á þeim samfélagsvanda sem ófullnægjandi traust í garð stjórnvalda og fjármálakerfisins skapar.
Í niðurlagi skýrslunnar segir meðal annars að Íslandsbanki sé ekki í eigu ríkisins vegna ásælni almennings í að eiga banka heldur vegna þess að bankakerfi landsins brást almenningi fullkomlega í efnahagshruninu 2008. „Sú staðreynd þarf jafnframt að skoðast í samhengi við hina umdeildu einkavæðingu bankanna í upphafi aldarinnar. Þau rök sem helst eru borin á borð fyrir einkavæðingu Íslandsbanka núna eru að um hana hafi verið samið við gerð stjórnarsáttmála. Þá virðist hraðinn öðru fremur skýrast af þeirri staðreynd að Alþingiskosningar fara fram síðar á árinu. Þessar röksemdir eru ekki fullnægjandi og með þessari greinargerð er kallað á nánari röksemdir og skýringar. Veigamikil rök standa gegn því að selja stóran hlut í bankanum við þær aðstæður sem nú ríkja í efnahagslífinu og á fjármálamarkaði, jafnt hér á landi sem erlendis.“
Kallar eftir umræðu um samfélagsbanka
Drífa segir í pistli sínum að kjarni málsins sé sá að verið sé að taka hlut í allra eigu og selja hann til fárra. Fyrir því þurfi að vera góð rök. Einu rökin sem sett séu fram séu hins vegar hugmyndafræðileg, að ríkið eigi ekki að eiga banka. „Við höfum eitt stykki bankahrun til að læra af og lexían er þessi: Það er ekki þjóðinni í hag að taka sameiginlegar eignir hennar og setja í hendur fjármagnseigenda. Bankarnir eru ekki endilega betur settir í einkaeigu. Ef á að breyta eignarhaldi á bönkunum skulum við fyrst tryggja það að fólk geti valið viðskipti við banka í almannaeigu, rekinn á forsendum almennings og til hagsbóta fyrir okkur öll.“
Hún kallar síðan eftir að rykið verði dustað af þeirri hugmynd að breyta Landsbankanum í samfélagsbanka. „Slíkt form byggir á þeirri róttæku hugmynd að fjármálastofnanir vinni í þágu almennings en ekki fjármagnseigenda. Að bankar þurfi ekki endilega að skila gróða, geti verið í almannaeigu og stuðlað að samfélagslega mikilvægum verkefnum. Að einhverju leyti þekkjum við þessa hugmyndafræði í gegnum sparisjóðakerfið eins og það var hugsað í upphafi. Síðustu áratugir hafa hins vegar verið undirlagðir af ofurtrú á að gróðasjónarmið eigi að ráða för í fjármálastarfsemi og að „“fé án hirðis”“ sé skaðlegt.“
Selt á næstu mánuðum
Til stendur að selja hlut af eign ríkisins í Íslandsbanka á næstu mánuðum. Tillaga þess efnis var lögð fram af Bankasýslu ríkisins 17. desember og samþykkt af fjármála- og efnahagsráðherra fjórum dögum síðar.
Áformin ganga út á að skrá bankann á markað og selja ótilgreindan hlut í honum í aðdraganda þess. Fyrri áform, sem lögð voru á hilluna vegna kórónuveirufaraldursins, gerðu ráð fyrir að bankinn yrði seldur í samhliða söluferli þar sem gert var ráð fyrir beinni sölu á hluta í gegnum uppboð, mögulega til erlends banka. Þá gerðu þau áform líka ráð fyrir tvíhliða skráningu Íslandsbanka, á íslenskan hlutabréfamarkað og í erlenda kauphöll.
Nýju áformin gera einungis ráð fyrir sölu í gegnum hlutafjárútboð hérlendis og skráningu í íslensku kauphöllina. Það er meðal annars rökstutt í tillögu Bankasýslu ríkisins með því að ólíklegt sé að erlendur banki sýni áhuga á að eignast hlut í innlendum banka í núverandi umhverfi, enda séu fá dæmi á síðasta ári um beina sölu á bönkum í Evrópu til fjárfesta eða annarra banka.