Alls voru 26.437 atvinnulausir að öllu leyti eða hluta í desembermánuði. Af þeim voru 21.365 atvinnulausir að öllu leyti en 5.108 voru á hlutabótaleiðinni. Þetta kemur fram í nýrri mánaðaskýrslu Vinnumálastofnunar um vinnumarkaðinn.
Þar kemur einnig fram að einungis 20 prósent þeirra sem hafa fengið hlutabætur á árinu 2020 hafa komið aftur inn á atvinnleysisskrá sem bendir til þess að leiðin hafi nýst vel til að viðhalda vinnusambandi milli fyrirtækja sem lentu í tímabundnum rekstrarvandræðum vegna kórónuveirufaraldursins og starfsmanna þeirra.
Kostnaður ríkissjóðs vegna hlutabóta á árinu 2020 var 21,3 milljarðar króna, en vegna almennra atvinnuleysisbóta alls 30,8 milljarðar króna, samkvæmt tölum sem birtar eru á vef stjórnarráðsins.
Langtímaatvinnuleysi aukist mikið
Langtímaatvinnuleysi hefur aukist gríðarlega síðastliðið ár. Alls höfðu 4.213 verið án atvinnu í meira en tólf mánuði í lok desembermánaðar 2020, sem er 2.565 fleiri en voru í þeirri stöðu ári áður. Hlutfallslega hefur langtímaatvinnulausum því fjölgað um 156 prósent milli ára.
Á tölum Vinnumálastofnunar má sjá að 6.705 til viðbótar hafa verið án atvinnu í hálft ár eða meira. Það þýðir að 10.918 manns hafa verið atvinnulausir í hálft ár eða lengur. Sá hópur taldi 4.374 manns fyrir ári síðan og því hefur orðið 150 prósent aukning innan hans.
Suðurnes í sérflokki
Sem fyrr er atvinnuleysi mest á meðal erlendra ríkisborgara, en þeir voru 51.120 alls í lok september síðastliðins. Innan þess hóps mælist nú 24 prósent atvinnuleysi.
Þegar horft er til svæða er atvinnuleysið langmest á Suðurnesjunum þar sem það mælist 23,3 prósent. Næst mest mælist það á höfuðborgarsvæðinu þar sem það var tólf prósent, eða rétt um helmingur þess hlutfalls sem mælist atvinnulaus á Suðurnesjunum.
Atvinnuleysi er hærra meðal kvenna en karla á flestum svæðum nema á höfuðborgarsvæðinu og á Norðurlandi eystra. Á Norðurlandi vestra er það svipað hjá körlum og konum.