Auglýsing

Árið 2020 átti að vera ár hinnar mjúku lendingar. Eftir samfellt hagvaxtarskeið frá 2011 á Íslandi, og röð efnahagsáfalla á árinu 2019 með gjaldþroti WOW air, kyrrsetningu MAX-véla Icelandair og loðnubresti, var búist við krefjandi en vel viðráðanlegu ári í fyrra. 

Fyrirliggjandi var að aðlögun yrði í ferðaþjónustu eftir mikla skuldsetningu og skýjaborgasmíðar áranna á undan, þar sem oft var byggt á algjörlega óraunhæfum væntingum um áframhaldandi fjölgun ferðamanna. Sennilegast var talið að sú aðlögun myndi ekki fara á fullt fyrr en um haustið 2020 þar sem margir ætluðu að reyna að bjarga sér fyrir horn um sumarið. 

Allar tölur voru þrátt fyrir allt þokkalegar. Við endurreikning hafði komið í ljós að smávægilegur hagvöxtur hafði verið 2019, alls 0,6 prósent, og spár Seðlabankans gerðu ráð fyrir að hann yrði 0,8 prósent í fyrra. Atvinnuleysi mældist reyndar hátt, 4,3 prósent, og þótti það mikið áhyggjuefni enda ekki verið hærra síðan vorið 2013. Á móti hafði tekist að ljúka við kjarasamninga á vinnumarkaði til lengri tíma sem tryggði fyrirsjáanleika. 

Góð staða ríkissjóðs og sögulega risavaxinn gjaldeyrisvaraforði fjölguðu líka verkfærunum í áhaldakistu efnahagsmála. Seðlabankinn lækkaði auk þess stýrivexti úr 4,5 í 2,75 prósent sem voru lægstu vextir í Íslandssögunni. Og ríkisstjórnin tilkynnti að ríkissjóði yrði beitt til að takast á við krefjandi stöðu. Til stóð að reka hann í tíu milljarða króna halla samkvæmt samþykktum fjárlögum ársins 2020. 

Í lok febrúar 2020 kom svo COVID-19 til Íslands. Og allt breyttist. 

Mjúka lendingin sem stefnt var að varð að draumsýn og ein sú harðasta í sögunni blasti þess í stað við.

Hin þungu högg

Einhæft atvinnulíf, þar sem þrjár stoðir (fiskveiðar, orkusala og ferðaþjónusta) halda að meginuppistöðu uppi efnahagskerfinu, og viðkvæmur örgjaldmiðill sem sveiflast mikið, ýkja efnahagslegu áhrif áfalla hérlendis. COVID-19 kreppan var ekki undantekning þar á. Ein helsta birtingarmynd hennar var algjört hrun í þjónustuviðskiptum. 

Á síðasta ári heimsóttu 479 þúsund ferðamenn Ísland. Það er fjórðungur þess fjölda sem það hafði gert árið áður og svipaður fjöldi og heimsótti landið árið 2010. Við fórum því áratug aftur í tímann þegar kemur að komu ferðamanna á síðasta ári. Munurinn er sá að störfum í þeim geira hafði fjölgað um mörg þúsund, fjárfesting í honum aukist um tugi ef ekki hundruð milljarða króna og ferðaþjónustan var orðin stærsta stoðin undir íslenska efnahagskerfinu. 

Auglýsing
COVID-19 leiddi til þrenns konar sýnilegs efnahagslegs skaða fyrir þá sem stunda þjónustuviðskipti.

Í fyrsta lagi lokaðist að mestu fyrir komu ferðamanna hingað til lands. 

Í öðru lagi hafa sóttvarnaráðstafanir gert mörgum þjónustuaðilum ókleift að reka sína starfsemi jafnvel fyrir innanlandsmarkað þannig að rekstrarhæfi náist. Þar má nefna veitingastaði, bari, aðra samkomustaði og svo framvegis. 

Í þriðja lagi hafa allskyns fyrirtæki og einyrkjar nánast þurft að leggja niður störf vegna sóttvarnaráðstafanna, eins og t.d. þeir sem starfa við framkomu eða listsköpun.

Gripið til aðgerða

Ríkissjóði hefur verið beitt af miklum krafti gegn þessari stöðu. Fjölmargir aðgerðarpakkar hafa verið kynntir til leiks. 

Sumir hafa virkað vel, eins og hlutabótaleiðin, en aðrir síður, eins og stuðnings- og brúarlán sem nánast engin eftirspurn hefur verið eftir. Heildarumfang pakkanna hefur verið sagt vera vel á fjórða hundrað milljarða króna og er þá ótalin sá aukni kostnaður sem hlotist hefur af beinu atvinnuleysi, sem hleypur á tugum milljarða króna. Áherslan hefur verið sérstaklega á fyrirtæki í ferðaþjónustu og tengdri starfsemi. 

Samanlagður halli á ríkissjóði í fyrra var fyrir vikið, og vegna lægri tekna, langleiðina í 300 milljarða króna og hann er áætlaður 320 milljarðar króna í ár. 

Seðlabanki Íslands hefur líka beitt sér af krafti, lækkað vexti niður í 0,75 prósent og afnumið sveiflujöfnunarauka. Það hefur skilað gríðarlegri aukningu í húsnæðislánum en nánast engu í fyrirtækjalánum. Bankarnir eru einfaldlega fullir af peningum og ekki að lána til fyrirtækja.

Íslenska banka­kerfið lán­aði atvinnu­fyr­ir­tækjum lands­ins alls 809 millj­ónir króna á fyrstu ell­efu mán­uðum árs­ins 2020 í nýjum útlán­um, að frá­dregnum upp­greiðslum og umfram­greiðsl­u­m. 

Til sam­an­burðar lán­uðu bank­arnir tæp­lega 209 millj­arða króna til atvinnu­fyr­ir­tækja árið 2018, eða 258falt það sem þeir lánuðu á ellefu mánuðum í fyrra. 

Þeir sem aðgerðirnar beindust að

Í nýlegri úttekt VR kom fram að sérfræðingar stéttarfélagsins töldu að um 300 milljarðar af 340 milljörðum króna sem lofað hafði verið í allskyns aðgerðir hefðu farið í að styðja við fyrirtæki. Það sem eftir stæði ætti að fara beint til heimila, en að það hafi einungis skilað sér að litlu leyti enn sem komið er. Um átta milljarðar króna hafa nú runnið til þeirra í formi sérstakra barnabóta, endurgreiðslu á virðisaukaskatti og ferðagjafar en á móti hafa greitt tæplega níu milljarða króna í skatt fyrir að leysa út séreignarsparnað sinn. Heimili landsins hefðu því í raun greitt meira inn í ríkissjóð en þau hefðu tekið úr úr honum vegna aðgerða sem ráðist var í vegna faraldursins.

Þorri þeirra peninga sem deilt hefur verið út hafa farið í að styðja við fyrirtæki í ferðaþjónustu, eða í tengdum geirum. Ýmsir hafa gagnrýnt þá aðferðarfræði og segja hana merki um skammsýni. Betra væri að fjárfesta í menntun, innviðum, nýsköpun og betra starfsumhverfi fyrir fyrirtæki til framtíðar frekar en að leggja allt undir á eina atvinnugrein, sem skapar mörg störf en er með litla arðsemi í samanburði við aðrar. 

Á meðal þeirra sem það hafa gert er Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, sem sagði í viðtali við Kjarnann í september að atvinnustefnan hér gengi út á að velja sigurvegara. Aðgerðir stjórnvalda miðuðu fyrst og síðast að því að bjarga ferðaþjónustunni í stað þess að fjárfesta frekar til framtíðar. 

Þeir sem tapa

Helstu afleiðingarnar af þessu ástandi hafa verið fjöldaatvinnuleysi. Í lok nóvember voru 26.354 án atvinnu að öllu leyti eða hluta og samanlagt atvinnuleysi mældist 12 prósent. Langtímatvinnulausum hefur fjölgað um 150 prósent. 

Samkvæmt skýrslu sérfræðingahóps ASÍ, BSRB og BHM vann mun kreppan koma verst niður á erlendum ríkisborgunum (40 prósent atvinnulausra), ungu fólki (atvinnulausum á aldrinum 18-24 ára hefur fjölgað um 123 prósent á einu ári) og konum í láglaunastörfum. Verst er staðan á Suðurnesjum, þar sem atvinnuleysi er 23 prósent. 

Auglýsing
Síðustu mánuði hafa margir klárað bótarétt sinn, og þeim mun fjölga mikið í nánustu framtíð. Þá fara þeir á félagslega framfærslu sveitarfélaga. Töluvert fleiri þurftu til að mynda á fjár­hags­að­stoð Reykja­vík­ur­borgar til fram­færslu að halda á fyrstu tíu mán­uðum árs­ins 2020 en allt árið á undan. Í júlí einum saman fengu yfir 1.400 manns slíka aðstoð en fjöld­inn hafði ekki verið meiri í þeim mán­uði í fimm ár. Fjórð­ungi fleiri fengu fjár­hags­að­stoð í októ­ber en á sama tíma árið 2019. 

Þetta verða taparar kórónuveirukreppunnar.

Skattur á verst settu, skattleysi fyrir hina

Það blasir við að líklegast er að tekjulágt fólk eða þeir sem lenda í atvinnumissi eða öðrum áföllum vegna kórónuveirufaraldursins séu að leysa út séreignasparnaðinn sinn, og greiða þessa skatta. Þetta er líka fólkið sem er líklegast til að eiga ekki eigið húsnæði og búa þannig við óöryggi leigumarkaðar, sem hefur ekki lækkað í verði sem neinu nemur þrátt fyrir að þúsundir íbúða sem áður hýstu ferðamenn hafi bæst við flóru hans síðastliðið ár.

Á sama tíma býðst þeim sem eiga húsnæði, halda vinnu, geta unnið að heiman, eru að jafnaði með hærri og hafa séð kjör sín batna verulega í faraldrinum, að nota séreignarsparnað sinn skattfrjálst til að greiða inn á húsnæðislán sín. 

Þeir sem eru verst settir og leysa út séreignarsparnað til að draga fram lífið og standa undir skuldbindingum þurfa að borga skatt af fyrirframnýtingu á séreignarsparnaði. Þeir sem eru mun betur settir, eiga eignir og leysa út séreignarsparnað til að fjárfesta í fasteign þurfa þess ekki. 

Þeir sem sigra

Við skulum bara segja það upphátt: stór hópur Íslendinga mun koma vel út úr þessari kreppu, og mun hafa styrkt sig fjárhagslega á meðan að á henni stóð. Allir mælikvarðar benda til þess. Sparnaður hefur aukist verulega vegna minni neysluútgjalda. Launahækkanir hafa skilað þeim sem halda vinnu og geta stundað hana að heiman auknum kaupmætti. Beinar greiðsluaðgerðir stjórnvalda (almennar barnabætur og ferðagjöf) hafa gagnast þessum hópi til jafns við þá sem hafa farið illa út úr kreppunni og endurgreiðslur á virðisaukaskatti lenda fyrst og síðast hjá fólki sem á eigið húsnæði og hefur ráðist í endurbætur á því (3,3 milljarðar af 4,3 milljörðum króna í virðisaukaskattsendurgreiðslur hafa farið til húsnæðiseigenda), húsnæðisverð hefur hækkað og lánakjör eru nú þau bestu í lýðveldissögunni, sem þýðir minni fjármagnskostnað þeirra sem skuldsetja sig. 

Þá er ótaldir þeir fjármagnseigendur sem eiga hlutabréf. Úrvalsvísitala íslensku Kauphallarinnar hækkaði um 22,5 prósent í fyrra. Einungis tvö félög á markaði lækkuðu og annað þeirra, Icelandair Group, hefur náð sér í meiri pening en nokkuð annað fyrirtæki – tugi milljarða króna – í hlutafé og ríkisaðstoð frá því að faraldurinn skall á.

Þetta verða sigurvegarar kórónuveirukreppunnar.

Afleiðingarnar

Það verður hægt að takast endalaust á um hvort gripið hafi verið til réttra aðgerða til að takast á við efnahagslegar afleiðingar kórónúveirunnar. Margt gott hefur verið gert, og margt er afar umdeilt. Hvort viðunandi árangri verður náð mun tíminn einn leiða í ljós.

Auglýsing
Það liggur þó skýrt fyrir að alvarlegustu efnahagslegu afleiðingar kórónuveirukreppunnar verða ekki tapað hlutafé eða minnkað eigið fé hluta fyrirtækjaeigenda, heldur sú staða sem á þriðja tug þúsund íbúa landsins eru í vegna atvinnumissis. Langtímaatvinnuleysi leiðir af sér fjárhagsvanda, eykur líkur á andlegum erfiðleikum og félagslegum vandamálum. 

Það að sá hluti landsmanna sem hélt vinnu mun að uppistöðu fara mun betur fjárhagslega út úr kreppunni mun til viðbótar leiða til aukins ójöfnuðar. Aukin ójöfnuður leiðir til frekari jaðarsetningar hópa. Frekari jaðarsetning leiðir af sér sundrungu og samfélagslega erfiðleika. Og svo framvegis.

Tækifæri sem fara forgörðum

Spurningin sem stjórnmálamenn, og við sem samfélag, stöndum frammi fyrir er hvað við ætlum að gera við allt þetta fólk? Ætlum við að vonast til að þetta leysist allt að sjálfu sér þegar landið tekur að rísa eða er nú tíminn til að grípa til róttækra aðgerða? Eru mögulega tækifæri í áfallinu til að hugsa hlutina upp á nýtt?

Til að mæta þessu mikla atvinnuleysi, langvinni jaðarsetningu öryrkja, hluta lífeyrisþegar og annarra lágtekjuhópa og þeim áskorunum sem fylgja sjálfvirknivæðingu fjórðu iðnbyltingarinnar, þarf að laga flókin og óréttlát framfærslukerfi. Það þarf að fjölga eggjunum í íslensku efnahagskröfunni með stóraukinni fjárfestingu í nýsköpun og sprotastarfsemi. Það þarf að ráðast hratt í stór innviðaverkefni sem skapa mörg störf og styðja við framtíðaruppbyggingu hins nýja efnahagshags, t.d. hvað varðar orkuskipti. Það þarf að breyta ríkinu úr valdafyrirbæri, sem mylur undir fáa útvalda, í þjónustufyrirbæri, sem bætir samfélagið fyrir flesta. 

Og það þarf að tryggja því fólki sem vill vera að gera eitthvað virkni, í stað þess að borga tugum þúsunda fyrir að vera heima hjá sér af hættu við að framfærsla þeirra skerðist.

Þetta er stærsta viðfangsefni stjórnmálanna í dag, þegar örfáir mánuðir eru í næstu kosningar. 

Niðurstöður þeirra ættu ráðast á þeim lausnum sem fram verða settar á ofangreindri stöðu.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Losun koldíoxíðs út í andrúmsloftið á stóran þátt í því að þolmarkadagur jarðar er jafn snemma á árinu og raun ber vitni.
Þolmarkadagur jarðarinnar er runninn upp
Mannkynið hefur frá upphafi árs notað þær auðlindir sem jörðin er fær um að endurnýja á heilu ári. Til þess að viðhalda neyslunni þyrfti 1,7 jörð.
Kjarninn 29. júlí 2021
Örn Bárður Jónsson
Ný stjórnarskrá í 10 ár – Viska almennings og máttur kvenna
Kjarninn 29. júlí 2021
Til að fá að fljúga með flugfélaginu Play verða farþegar að skila inn vottorði um neikvæða niðurstöðu úr PCR-prófi eða hraðprófi.
Hafa þurft að vísa vottorðalausum farþegum frá
Flugfélagið Play hefur fengið jákvæð viðbrögð við þeirri ákvörðun að meina farþegum um flug sem ekki hafa vottorð um neikvætt COVID próf. Fyrirkomulagið verður enn í gildi hjá Play þrátt fyrir að vottorðalausum muni bjóðast sýnataka á landamærunum.
Kjarninn 29. júlí 2021
Kamilla Jósefsdóttir og Alma Möller landlæknir.
Sértæk bóluefni gegn delta-afbrigði „okkar helsta von“
Frá því að fjórða bylgja faraldursins hófst hér á landi hafa sextán sjúklingar legið á Landspítala með COVID-19. Tíu eru inniliggjandi í dag, þar af tveir á gjörgæslu.
Kjarninn 29. júlí 2021
Kort Sóttvarnastofnunar Evrópu sem uppfært var í dag.
Ísland orðið appelsínugult á korti Sóttvarnastofnunar Evrópu
Mikil fjölgun greindra smita hér á landi hefur haft það í för með sér að Ísland er ekki lengur grænt á korti Sóttvarnastofnunar Evrópu. Væru nýjustu upplýsingar um faraldurinn notaðar yrði Ísland rautt á kortinu.
Kjarninn 29. júlí 2021
Jóhann Björn Skúlason, yfirmaður smitrakningateymis almannavarna.
Smitrakningunni „sjálfhætt“ ef fjöldi smita vex gríðarlega úr þessu
Miklar annir eru nú hjá smitrakningarteymi almannavarna. Á bilinu 180-200 þúsund notendur eru með smitrakningarforrit yfirvalda í símum sínum og það gæti reynst vel ef álagið verður svo mikið að rakningarteymið hafi ekki undan. Sem gæti gerst.
Kjarninn 29. júlí 2021
Ari Trausti Guðmundsson
Faraldur er ekki fyrirsjáanlegur
Kjarninn 29. júlí 2021
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra.
„Ekki má hringla með marklínuna“
Dómsmálaráðherra vonar að stjórnarandstöðunni „auðnist ekki að slíta í sundur þá einingu sem ríkt hefur meðal landsmanna í baráttunni gegn veirunni“. Samhliða útbreiddri bólusetningu þurfi að slá nýjan takt og „leggja grunn að eðlilegu lífi á ný“.
Kjarninn 29. júlí 2021
Meira úr sama flokkiLeiðari