Ný könnun frá Gallup leiðir í ljós að fleiri segjast andvíg frumvarpi Guðmundar Inga Guðbrandssonar umhverfis- og auðlindaráðherra um Hálendisþjóðgarð en fylgjandi.
RÚV greinir frá niðurstöðum könnunarinnar, en um er að ræða netkönnun sem framkvæmd var dagana 29. desember til 10. janúar. Niðurstöður hennar eru á þann veg að 43 prósent aðspurðra segjast andvíg frumvarpinu en 31 prósent fylgjandi. Rúmlega fjórðungur segist hvorki með eða á móti. Skoða má niðurstöður Þjóðarpúls Gallup um Hálendisþjóðgarð í heild sinni hér.
Fram kemur í frétt RÚV að 45 prósent séu þó almennt fylgjandi því að hálendi Íslands verði gert að þjóðgarði, eða töluvert fleiri en segjast fylgjandi frumvarpi ráðherra, sem deilt hefur verið um á sviði stjórnmálanna undanfarið.
34 prósent segjast nú andvíg því að miðhálendið verði gert að þjóðgarði en 20 prósent taka hvorki afstöð með eða á móti. Því eru áfram fleiri en færri sem vilja að þjóðgarður verði stofnaður á hálendinu.
Einnig segir að 56 prósent þeirra sem eru undir þrítugu séu fylgjandi frumvarpinu og að stuðningur sé mestur á meðal þeirra sem einnig segjast ætla að kjósa Vinstri græn eða Samfylkinguna. Þeir sem segjast ætla að kjósa Miðflokkinn eða Framsóknarflokkinn eru líklegastir til að vera andvígir frumvarpinu.
Fleiri en fjórir af tíu telja sig ekki þekkja frumvarpið vel
Samkvæmt frétt RÚV telja rúmlega 40 prósent aðspurðra sig ekki þekkja frumvarpið vel. Fram kemur að karlar segist þekkja frumvarpið betur en konur og að andstæðingar hálendisþjóðgarðs, íbúar utan höfuðborgarsvæðisins og kjósendur Miðflokksins hafi verið líklegust til að segjast þekkja frumvarpið vel.
Á vef stjórnarráðsins hefur verið sett upp upplýsingasíða þar sem algengum spurningum um stofnun hálendisþjóðgarðs og það sem felst í frumvarpinu er svarað.
Stuðningur við Hálendisþjóðgarð hefur farið vaxandi undanfarinn áratug
Skoðanakannanir sem framkvæmdar hafa verið á undanförnum árum hafa sýnt fram á meirihlutastuðning við stofnun miðhálendisþjóðgarðs, en málið hefur verið umdeilt og mikið til umræðu nú þegar hugmyndirnar eru komnar á það stig að geta orðið að veruleika.
Samkvæmt skoðanakönnun sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands framkvæmdi árið 2018 voru tæplega 63 prósent frekar eða mjög hlynnt stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu og um 28 prósent sögðust ekki hafa á því skoðun sem hallaðist í aðra hvora áttina. Einungis 10 prósent voru andvíg.
Nánar má fræðast um niðurstöður viðhorfskönnunarinnar í meistaraverkefni Michaël Bishop í land- og ferðamálafræði, sem finna má á Skemmunni.
Fyrri kannanir sem gerðar hafa verið á viðhorfum þjóðarinnar til stofnun miðhálendisþjóðgarðs hafa einnig bent til þess að meirihluti landsmanna sé hlynntur hugmyndinni.
Samkvæmt könnun Capacent Gallup frá árinu 2011 voru um 56 prósent þjóðarinnar hlynnt því að stofna þjóðgarð á miðhálendinu, en tæp 18 prósent lýstu sig andvíg slíkum hugmyndunum. Þá, rétt eins og í könnun Félagsvísindastofnunar 2018, var stuðningurinn mestur á höfuðborgarsvæðinu.
Önnur könnun sem Gallup gerði árið 2015 sýndi að stuðningur landsmanna við miðhálendisþjóðgarð var kominn yfir 61 prósent. Áfram mældist stuðningurinn meiri á meðal íbúa höfuðborgarsvæðisins en íbúa landsbyggðanna.