Alþingi gerði mistök við útreikning á aksturskostnaði Guðjóns S. Brjánssonar, þingmanns Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi, fyrir árið 2020. Mistökin fólust í því að þegar bílaleigubíll sem tekinn hafði verið á leigu fyrir Guðjón fyrir rúmum þremur árum var gerður upp þá reyndist hann hafa ekið aðeins meira á ári en gert hafði verið ráð fyrir í langtímaleigusamningnum.
Við það myndaðist viðbótarkostnaður vegna áranna 2018, 2019 og 2020 upp á um eina milljón króna. Þau mistök voru hins vegar gerð af skrifstofu Alþingis að sá kostnaður var allur gjaldfærður á árinu 2020, þegar hann hefði átt að dreifast yfir árin 2018 og 2019 líka.
Fyrir vikið lækkar aksturkostnaður Guðjóns á árinu 2020 úr 2.669 þúsund krónum í rætt tæpar tvær milljónir króna. Þetta staðfestir Eggert Jónsson, forstöðumaður fjármálaskrifstofu Alþingis, í samtali við Kjarnann, en Guðjón bað um að farið yrði yfir áður uppgefnar tölur um akstur hans þar sem honum fannst þær ekki passa. Við það komu ofangreind mistök í ljós.
Það þýðir að Guðjón og Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokks í Suðurkjördæmi, hafa sætaskipti á listanum yfir þá þingmenn sem keyrðu mest á árinu 2020. Ásmundur, sem hefur árum saman setið á toppnum yfir þá þingmenn sem hafa myndað mestan aksturskostnað sem greiddur er sameiginlegum sjóðum. Alls kostaði akstur Ásmundar 2.218 þúsund krónur á síðasta ári samkvæmt birtum tölum á vef Alþingis.
Tölur teknar saman reglulega
Kjarninn hefur reglulega tekið saman upplýsingar um aksturkostnað þingmanna undanfarin ár. Forsaga þess er að fjölmiðlar reyndu árum saman að nálgast þær upplýsingar, en án árangurs. Á því varð breyting í byrjun febrúar 2018 þegar birtar voru upplýsingar um að fjórir þingmenn sem fengu hæstu endurgreiðslurnar úr sjóðum Alþingis fyrir keyrslu á árinu 2017 hefðu fengið samtals 14 milljónir króna. Þar af hefði Ásmundur fengið 4,6 milljónir króna fyrir að keyra eigin bifreið 47.664 kílómetra.
Forsætisnefnd ákvað að bregðast við og allar upplýsingar um kostnað sem fylgir störfum þingmanna er nú birtur reglulega.
Síðast voru þær tölur uppfærðar seint í síðustu viku þegar kostnaður vegna síðasta ársfjórðungs 2020 var bætt við. Þær tölur sýndu að Guðjón S. Brjánsson væri nýr aksturskóngur Alþingis.
Keyrði minna vegna faraldurs
Í samtali við Kjarnann segir Guðjón að það hafi horft skakkt við honum. Hann hefði enda keyrt minna í fyrra en árið áður vegna kórónuveirufaraldursins en samt var kostnaður vegna bílaleigubíls sem Alþingi leigir fyrir hann meiri. Þegar hann hafi athugað málið á skrifstofu Alþingis hafi ofangreind mistök komið í ljós. Hluti aksturskostnaðar fyrir árið 2018 og 2019 hafði verið bókfærður á árið 2020 með þeim afleiðingum að aksturskostnaður hans á því ári sýndist meiri en hann raunverulega var.
Ekki er búið að uppfæra tölurnar á vef Alþingis og samkvæmt honum er Guðjón enn sá þingmaður sem keyrði mest. Eggert Jónsson, forstöðumaður fjármálaskrifstofu Alþingis, staðfesti hins vegar mistökin við Kjarnann.
Aðrar fréttir Kjarnans sem byggðu á upplýsingum á vef Alþingis hafa verið uppfærðar til samræmis við þessa breytingu.