Líneik Anna Sævarsdóttir alþingismaður býður sig fram í fyrsta sæti á framboðslista Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi. Hún tók fyrst sæti á þingi árið 2013 og sat til ársins 2016, en kom síðan aftur inn á þing eftir kosningarnar 2017.
Hún var í öðru sæti á lista Framsóknarflokksins í kjördæminu fyrir síðustu kosningar. Þórunn Egilsdóttir, sem leiddi listann, hefur sem kunnugt er boðað að hún ætli ekki fram að nýju vegna veikinda.
Í framboðstilkynningu frá Líneik Önnu segir að hún berjist fyrir jafnrétti og jafnræði íbúa landsins og þar með góðum samgöngum, bæði í raunheimum og netheimum. Samgöngur séu lykill að tækifærum og samfélagsþróun. Ein
„Sjálfbær nýting náttúruauðlinda er grundvöllur íslensks efnahagslífs og því þarf samspil manns og náttúru að vera viðvarandi viðfangsefni stjórnmálanna. Markvissar aðgerðir í umhverfismálum eru mikilvægar og þurfa að byggja á upplýstri umræðu,“ segir einnig í fréttatilkynningu þingmannsins.
Póstkosningar fara fram í mars
Framsóknarflokkurinn í Norðausturkjördæmi mun kjósa á lista með póstkosningu, sem stendur yfir í mars. Kosið verður um efstu sex sætin á framboðslista flokksins. Framboðsfrestur rennur út sunnudaginn 14. febrúar.
Líneik Anna á heima á Fáskrúðsfirði í Fjarðabyggð þar sem hún hefur búið í aldarfjórðung. Hún er uppalin á Fljótsdalshéraði en hefur auk þess búið um tíma á höfuðborgarsvæðinu og á Vesturlandi. Líneik er líffræðingur með kennsluréttindi og hefur lengst af starfað við fræðslumál og stjórnun; við kennslu, verkefnastjórn og sem skólastjóri á Fáskrúðsfirði.