Donald Trump Bandaríkjaforseti undirbýr nú að náða eða milda dóma yfir hundrað einstaklinga. Forsetatíð hans lýkur innan fárra daga. Fréttir af ákvörðuninni birtust í fjölmiðlum vestanhafs í nótt en talið er að síðar í dag eða á morgun muni fyrirætlanir forsetans formlega verða kynntar.
Samkvæmt heimildum Washington Post átti Trump í gær fundi með sínum nánustu ráðgjöfum, m.a. tengdasyni sínum Jared Kushner og dóttur sinni Ivönku Trump. Á fundinum var farið yfir langan óskalista um náðanir. Þá herma heimildir blaðsins einnig að undanfarna viku hafi Trump verið upptekinn af vangaveltum um hvort hann geti náðað fullorðin börn sín, aðra helstu ráðgjafa – og sjálfan sig – fyrirfram og þannig tryggt sig og sína gegn því að verða ákærð og dæmd í framtíðinni. Aðgerðin kallast „preemptive pardon“ á ensku.
Ekki er enn ljóst hvort að Trump mun fara þá leið, sem er enda mjög umdeild. Hann hefur slegið þessu fram oftar en einu sinni en sumir ráðgjafar hans hafa varað hann við því að nota vald til náðana sjálfum sér í hag.
CNN og Washington Post segja í sínum fréttum af áformuðum náðunum forsetans að lögmenn fjölda dæmdra manna hafi síðustu vikur þrýst á forsetann að náða skjólstæðinga sína. Þessi þrýstingur var fyrirséður því Trump hefur sagt að vald til náðunar, sem forsetinn einn hefur, séu fríðindi sem séu honum að skapi. Meðal þeirra sem CNN hefur heimildir fyrir að verði náðaðir er fjöldi hvítflibbaglæpamanna og nokkrir þekktir rapparar.
Hefur þegar náðað 94
Það er óhætt að segja að nokkur ringulreið hafi einkennt starfsemi Hvíta hússins að undanförnu. Misvísandi skilaboð hafa komið þaðan varðandi ýmsa hluti, m.a. náðanir. Í síðustu viku var lögmönnum sem sótt höfðu náðun umbjóðenda sinna stíft sagt að ganga yrði frá slíku fyrir helgina. En svo reyndist ekki vera og forsetinn er sagður hafa tekið annan snúning á málinu í gær, sunnudag.
Trump hefur þegar náðað 94 einstaklinga. Í vikunni fyrir jól náðaði hann á einu bretti 49 – aðallega vini og pólitíska stuðningsmenn. Nokkrir nánir samstarfsmenn hans fengu náðunarstimpilinn, m.a. fyrrverandi kosningastjóri hans, Paul Manaford og vinur hans til áratuga Roger Stone. Þá náðaði hann einnig Michael T. Flynn sem var þjóðaröryggisráðgjafi hans um hríð. Charles Kushner, faðir tengdasonar hans, hlaut einnig náðun sem og þrír fyrrverandi þingmenn repúblikana og fjórir verktakar Bandaríkjahers sem áttu þátt í drápum á óvopnuðum borgurum í Íraksstríðinu.
Í ítarlegri fréttaskýringu Washington Post segir að um 14 þúsund beiðnir um náðun og mildun refsingar hafi borist forsetanum. Trump hefur, eins og svo oft áður, farið sínar leiðir í málaflokknum. Hann hefur farið sér hægar en aðrir forsetar, beðið fram á síðustu stundu og svo hefur hann ekki leitað ráðgjafar hjá dómsmálaráðuneytinu eins og hefð er fyrir. Þess í stað hefur hann leitað til vina og vandamanna um hverja skuli náða.
Þetta hefur orðið til þess að margir þeir sem óskað hafa eftir náðun hafa ekki farið með mál sín í gegnum dómsmálaráðuneytið sem hefur þýtt að formlegar leiðir ráðuneytisins, sem m.a. getur falið í sér að fólk gangist við glæpum sínum og sýni iðrun, hafa verið sniðgengnar.