Ágúst Ólafur Ágústsson, oddviti Samfylkingarinnar í Reykjavík suður, mun ekki vera á framboðslista flokksins í komandi kosningum. Frá þessu greinir hann í stöðuuppfærslu á Facebook.
Þar segir Ágúst Ólafur að honum þyki dapurlegt fyrir sig að uppstillingarnefnd flokksins hafi ekki talið rétt að hann yrði í líklegu þingsæti fyrir næstu kosningar. Þó gagnrýna megi ýmislegt varðandi aðferðina sem beitt hafi verið við uppstillingu virði hann rétt nefndarinnar til að taka sína ákvörðun.
Ágúst Ólafur segist hafa boðið uppstillingarnefnd flokksins sáttatillögu sem fælist í því að hann færi úr oddvitasætinu í kjördæminu í nafni nýliðunar og tæki annað sætið á lista. „Þeirri tillögu var hafnað af meirihluta uppstillingarnefndar. Þessi niðurstaða er mér vissulega vonbrigði en ég horfi stoltur til baka yfir feril minn í stjórnmálum og er ég mjög þakklátur fyrir að hafa fengið tækifæri til að vinna að betra samfélagi.“
Kjarninn hefur heimildir fyrir því að Ágústi Ólafi hafi verið boðið þriðja sætið á lista flokksins í Reykjavíkurkjördæmi suður en að hann hafi hafnað því boði.
Flokkurinn lét framkvæma skoðanakönnun á meðal félagsmanna í Samfylkingunni í Reykjavík í aðdraganda uppstillingarinnar í síðasta mánuði. Samkvæmt niðurstöðu hennar lentu Helga Vala Helgadóttir þingmaður, Kristrún Frostadóttir, aðalhagfræðingur Kviku banka, Rósa Björk Brynjólfsdóttir þingmaður, Jóhann Páll Jóhannsson, fyrrverandi blaðamaður og núverandi starfsmaður Samfylkingarinnar, og Ragna Sigurðardóttir, forseti ungra jafnaðarmanna, í fimm efstu sætunum.
Búast má við því að þrjú eða fjögur þeirra hið minnsta verði í efstu sætunum hjá Samfylkingunni í Reykjavík. Ekki liggur fyrir hvort Rósa Björk ætli að taka slaginn þar eða bjóða sig fram til að leiða flokkinn í Suðvesturkjördæmi, þar sem hún var oddviti Vinstri grænna í kosningunum 2017.
Skoðanakönnunin var ekki bindandi heldur var henni ætlað að uppstillingarnefnd flokksins, sem í sitja 17 manns, sýn á vilja flokksmanna í höfuðborginni þegar hún raðar á lista fyrir næstu kosningar. Nefndin er þó ekki bundin af niðurstöðunni.
Í nýlegri umfjöllun Kjarnans, sem byggði á niðurstöðu tveggja kannana MMR sem gerðar voru um mánaðamótin október/nóvember, mældist fylgi Samfylkingarinnar á höfuðborgarsvæðinu 18,4 prósent. Fylgi á þeim slóðum myndi skila flokknum 4-5 þingsætum í Reykjavíkurkjördæmunum tveimur. Ef hann vinnur kosningasigur í borginni gætu þau orðið sex. Líkleg uppskera í Suðvesturkjördæmi, miðað við stöðu mála í könnunum um þessar mundir, yrðu tvö þingsæti.
Í sömu umfjöllun kom fram að Samfylkingin væri á miklu skriði hjá yngstu kjósendunum og konum. Í könnun sem MMR birti daginn fyrir kosningarnar 2016 mældist Samfylkingin með eitt prósent fylgi í aldurshópnum 18 til 29 ára. Í haust var Samfylkingin með 19,3 prósent fylgi hjá þeim aldursflokki. Þá kom fram í umfjölluninni að Samfylkingin nyti stuðnings 21,4 prósent kvenna en einungis 11,9 prósent karla.
Fyrir liggur að Logi Einarsson, formaður flokksins, muni leiða í Norðausturkjördæmi en óljóst er hvernig málum verður háttað í Norðvesturkjördæmi, þar sem þingmaðurinn Guðjón Brjánsson leiddi síðast, og í Suðurkjördæmi, þar sem Oddný Harðardóttir er sitjandi oddviti. Heimildir Kjarnans herma að vilji sé hjá mörgum áhrifamönnum innan flokks að gera breytingar í Norðvesturkjördæmi og sækja fastar fylgi í þéttbýlari sveitarfélög innan þess.