Samheldni var ofarlega í huga Joe Biden, forseta Bandaríkjanna í innsetningarræðu sinni í dag. Hann sagði þjóðina eiga erfitt verk fyrir höndum sér sem krefðist þess að Bandaríkjamenn hlustuðu aftur á hvern annan og ynnu saman.
Innsetningarathöfnin fór fram í Washington um hádegi að staðartíma í dag, eða fimmleytið á íslenskum tíma. Þar sór Biden embættiseið, ásamt Kamala Harris, varaforseta Bandaríkjanna.
Fáir áhorfendur voru viðstaddir athöfnina, en gestafjöldi var takmarkaður sökum sóttvarnarráðstafana. Þó var mætingin góð meðal fyrrum og núverandi ráðamanna í bandarískum stjórnmálum, en fyrrum forsetar og varaforsetar síðustu áratuga, að Donald Trump undanskildum, voru þar.
Í ræðu sinni sagði Biden að bandaríska þjóðin hafi lært hversu verðmætt og brothætt lýðræðið sé, en einungis tvær vikur eru síðan æstur múgur réðst inn í þinghús Bandaríkjanna til að reyna að koma í veg fyrir að öldungadeild Bandaríkjaþings staðfesti forsetakjör hans. „Í dag hefur lýðræðið sigrað,“ bætti Biden þó við.
Forsetinn lagði áherslu á sættir innan bandarísks þjóðfélags og sagði þjóðina eiga erfitt verk fyrir höndum sér. Þeirra á meðal væri heimsfaraldurinn, sem hefði orðið fleiri Bandaríkjamönnum að bana en seinni heimsstyrjöldin, auk fjögur hundruð ára gamals ákalls um jafnræði milli kynþátta, sem muni ekki vera frestað lengur. Einnig minntist Biden á hvíta kynþáttahyggju í ræðu sinni sem og hryðjuverkaógn innanlands sem þjóðin þyrfti að horfast í augu við og sigrast á. Sjá má ræðuna í fullri lengd hér að neðan.
Biden bætti þó við að þessar áskoranir krefðust einingar og samheldni, sem væri vandfundin í lýðræðissamfélagi. „Því það verður enginn friður án samheldni. Aðeins heift og biturð.“ Í því samhengi bað hann um nýtt upphaf og að Bandaríkjamenn ættu að byrja að hlusta á hvern annan aftur, þótt þeir væru ekki sammála, „því ósætti ætti ekki að leiða til sundrungar“.