Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) sendi í dag bréf á íslensk stjórnvöld, þar sem fram kemur að löggjöfin um leigubifreiðar á Íslandi, sem fela í sér ákveðinn hámarksfjölda útgefinna starfsleyfa, fari gegn ákvæði EES-samningsins um að fólk hafi rétt til að hefja og stunda atvinnustarfsemi.
Frá þessu er greint í fréttatilkynningu á vef ESA. Íslenskum stjórnvöldum eru gefnir tveir mánuðir til þess að koma sjónarmiðum sínum á framfæri og í kjölfarið mun stofnunin ákveða hvort hún fari lengra með málið.
Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra lagði fram frumvarp um breytingar á lögum um leigubíla í október. Það er enn til meðferðar í umhverfis- og samgöngunefnd þingsins.
Álit ESA er það að leyfiskerfið á Íslandi eins og það er í dag hafi hamlandi áhrif á nýliðun á leigubílamarkaði. Skilyrðin sem þurfi að uppfylla til að fá leyfi séu ekki hlutlæg, heldur séu þeim sem hafi verið til staðar á markaðnum í hag.
Þetta hafa íslensk stjórnvöld í reynd viðurkennt að standist að öllum líkindum ekki 31. gr. EES-samningsins og frumvarpið sem lagt var fram í október var til þess gert að mæta fyrri aðfinnslum. Hefur Sigurður Ingi samgönguráðherra meðal annars sagt það ætlað til þess að tryggja að Ísland standist þjóðréttarlegar skuldbindingar sínar.
Núgildandi lög um leigubifreiðar tóku gildi árið 2001, en unnið hefur verið að endurskoðun þeirra á undanförnum árum.
Athugasemdir ESA voru tilefni þess að ráðist var í vinnu við að endurskoða lögin, en í janúar 2017 tilkynnti stofnunin íslenskum stjórnvöldum að hún hefði hafið frumkvæðisathugun á leigubifreiðamarkaðnum á Íslandi og mögulegum hindrunum á aðgengi að honum.