Miðstjórn Alþýðusambands Íslands (ASÍ) mótmælir harðlega áformum um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka, í ályktun sem samþykkt var í dag. Miðstjórn ASÍ segir að flýtir hafi einkennt ferlið og að ekki hafi verið færðar fram fullnægjandi röksemdir fyrir sölunni.
„Mikilvægt er að ríkið, fyrir hönd almennings, sé með aðkomu að fjármálamarkaði og haldi uppi samfélagslegum sjónarmiðum við endurreisn efnahagslífsins. Sérstaklega þarf að gæta að hagsmunum lántakenda sem margir ganga í gegnum tímabundna erfiðleika vegna COVID-kreppunnar,“ segir í ályktun miðstjórnar ASÍ.
Þar segir einnig að vafi leiki á því hversu stóran hlut ríkið ætlar sér að selja og að stjórnvöld hafi ekki útskýrt hvað þau telja ásættanlegt verð.
Sérfræðingahópur verkalýðshreyfingar taldi röksemdir skorta
Síðasta föstudag var send út greinargerð sérfræðingahóps verkalýðshreyfingarinnar um áformaða sölu Íslandsbanka og vísar miðstjórn ASÍ til hennar í ályktun sinni.
Niðurstaða hópsins var að röksemdir skorti fyrir þeirri ákvörðun að hefja sölu bankans nú. Óvíst væri hvort salan myndi auka samkeppni á fjármálamarkaði og núverandi tímapunktur væri ekki ákjósanlegur í ljósi efnahagslegrar óvissu.
Ekkert ákall frá mótföllnum almenningi
„Miðstjórn ASÍ hafnar því að selja þurfi hlut ríkisins til að bæta stöðu ríkissjóðs eða fjármagna fjárfestingar í samfélagslegum innviðum. Nýlegar skattalækkanir á fjármagnseigendur benda ekki til þess að ríkisstjórnin hafi þungar áhyggjur af afkomu ríkissjóðs. Ákall um sölu á banka kemur ekki frá almenningi sem að miklum meirihluta er mótfallinn slíkri sölu og jákvæður í garð ríkisins sem eiganda banka,“ segir í ályktun miðstjórnarinnar.
Skiptar skoðanir
Til stendur að selja hlut af eign ríkisins í Íslandsbanka á næstu mánuðum. Tillaga þess efnis var lögð fram af Bankasýslu ríkisins 17. desember og samþykkt af fjármála- og efnahagsráðherra fjórum dögum síðar. Málið hefur verið til umræðu á Alþingi og stjórnmálaumræðu undanfarinna vikna og hluti stjórnarandstöðunnar hefur talað gegn málinu.
Á meðal stjórnarliða virðist þó ríkja samstaða um að þetta sé rétta leiðin. Steingrímur J. Sigfússon forseti Alþingis og þingmaður Vinstri grænna ræddi við Kjarnann á dögunum og sagðist ekki gera neinar athugasemdir við að hlutur ríkisins í Íslandsbanka yrði boðinn til sölu nú.
„Í fyrsta lagi er það nú þannig að þessi banki kom óvænt í hendur ríkisins sem greiðsla í formi stöðugleikaframlags. Það var engin sérstök stefna að ríkið ætti að eignast Íslandsbanka og þar af leiðandi á það ekki að vera einhver sérstök stefna að ríkið eigi að eiga hann áfram,“ sagði Steingrímur meðal annars í viðtalinu við Kjarnann.
Selt á næstu mánuðum
Söluáformin ríkisstjórnarinnar ganga út á að skrá bankann á markað og selja ótilgreindan hlut í honum í aðdraganda þess.
Fyrri áform, sem lögð voru á hilluna vegna kórónuveirufaraldursins, gerðu ráð fyrir að bankinn yrði seldur í samhliða söluferli þar sem gert var ráð fyrir beinni sölu á hluta í gegnum uppboð, mögulega til erlends banka. Þá gerðu þau áform líka ráð fyrir tvíhliða skráningu Íslandsbanka, á íslenskan hlutabréfamarkað og í erlenda kauphöll.
Nýju áformin gera einungis ráð fyrir sölu í gegnum hlutafjárútboð hérlendis og skráningu í íslensku kauphöllina. Það er meðal annars rökstutt í tillögu Bankasýslu ríkisins með því að ólíklegt sé að erlendur banki sýni áhuga á að eignast hlut í innlendum banka í núverandi umhverfi, enda séu fá dæmi á síðasta ári um beina sölu á bönkum í Evrópu til fjárfesta eða annarra banka.