Már Guðmundsson, fyrrverandi seðlabankastjóri, stofnaði svonefnt greiðsluráð Seðlabanka Íslands 14. febrúar árið 2019. Það hefur ekki farið mikið fyrir því síðan, en greiðsluráðið er hugsað sem „samráðsvettvangur stjórnvalda, markaðsaðila og annarra haghafa um málefni greiðslumiðlunar og fjármálainnviða í víðum skilningi.“
Markmið ráðsins er, samkvæmt vefsvæði þess á heimasíðu Seðlabankans, að stuðla að viðeigandi undirbyggingu stefnumótunar í þessum málaflokki hér á landi, með sjónarmið um öryggi, virkni og hagkvæmni að leiðarljósi.
Fastafulltrúar ráðsins koma frá nokkrum stofnunum hins opinbera, auk hagsmunasamtaka bæði neytenda og fyrirtækja. Seðlabankinn á að undirbúa fundi þess og seðlabankastjóri að stýra fundunum.
Fyrsti fundur var haldinn 23. apríl 2019 og stóð í klukkustund og kortér. Ráðgert var að halda þann næsta um sex mánuðum seinna. Af öðrum fundi ráðsins hefur ekki enn orðið.
Þó hefur vinnuhópur sem greiðsluráðið skipaði verið að störfum, samkvæmt upplýsingum frá Seðlabankanum.
Bankinn telur samráðsvettvang mjög mikilvægan
Kjarninn heyrði af því að ekki hefði verið fundað í þessu ráði nema í þetta eina sinn og beindi fyrirspurn til Seðlabankans um hver framtíð greiðsluráðs væri og hvort ætlunin væri að leggja samráðsvettvanginn niður. Svo er ekki.
Í svari Seðlabankans segir að hlutverk greiðsluráð hafi verið til skoðunar innan Seðlabankans, enda hafi miklar breytingar átt sér stað að undanförnu, m.a. með upptöku nýs millibankakerfis, sem fram fór í lok októbermánaðar 2020.
„Nú stendur yfir heildarendurskoðun á samstarfsvettvangi stjórnvalda, markaðsaðila og annarra haghafa um málefni greiðslumiðlunar og fjármálainnviða í víðum skilningi.
Sú heildarendurskoðun hefur dregist vegna nauðsynlegra viðbragða og aðgerða bankans vegna COVID. Seðlabankinn telur nú - sem áður – mjög mikilvægt að slíkur samstarfsvettvangur sé til staðar þar sem stefnumótun getur átt sér stað í málefnum greiðslumiðlunar og fjármálainnviða með sjónarmið um öryggi, skilvirkni og hagkvæmni að leiðarljósi,“ segir í svari bankans.