„Þið trúið því ekki hversu margir hafa sent mér skilaboð um að þeir séu á sama máli og ég en vilji ekki segja sína skoðun opinberlega því að þau séu hrædd við það og vilji ekki eiga á hættu að vera útskúfað.“
Þetta sagði Vigdís Eva Steinþórsdóttir, fulltrúi Samtaka íbúa og hagsmunaaðila í Mýrdal, á fundi Landverndar í dag þar sem fjallað var um áformaða færslu á hringveginum um Mýrdal. Um 200 manns horfðu á beint streymi af fundinum og upptöku af honum má nálgast hér.
Vigdís er í hópi þeirra sem vilja bæta og færa til núverandi veg um Gatnabrún norðan Reynisfjalls í stað þess að leggja nýjan veg við eða yfir Dyrhólaós og gera jarðgöng í gegnum Reynisfjall – um svæði sem Vigdís segir einstaklega fallegt og náttúruperlu í heild sinni. Framkvæmdirnar myndu því fela í sér „mjög mikinn fórnarkostnað“.
Vegagerðin hefur auglýst drög að tillögu að matsáætlun um færslu hringvegarins í Mýrdal. Í tillögunni eru taldir upp fjórir kostir sem eru til skoðunar. Þrír þeirra felast í færslu vegarins að sjónum en einn í uppbyggingu í núverandi vegstæði með tilfærslu að hluta. Veglína meðfram sjónum er þegar á aðalskipulagi Mýrdalshrepps og á samgönguáætlun sem samþykkt var á Alþingi í haust.
„Ég var komin með leið á að heyra talað um þessi göng eins og það væri þegar staðfest að það ætti að verða af þeim,“ sagði Vigdís, sem er uppalin í Mýrdalnum. Þess vegna tók hún sig til fyrr í mánuðinum og skrifaði færslu inn í Facebook-hóp íbúa í þeirri von að koma af stað umræðu. Það gekk eftir og Vigdís segir það hafa glatt sig að finna hversu margir væru á sama máli og hún.
Gangaleiðin hefur tekið völdin
„Umræðan um veglínuna hefur verið frekar einsleit – jafnvel má segja að það hafi engin umræða verið undanfarið,“ sagði Vigdís. „Búið er að drepa niður allt tal í samfélaginu um að laga núverandi veglínu. Það er búið að þagga niður í þeim hópi þannig að gangaleiðin hefur tekið völdin.“ Hún segir að fólk sem hafi lýst þeirri skoðun sinni að vilja ekki göng hafi orðið fyrir skítkasti og jafnvel einelti „og svo eru dæmi um það að fólk hafi flutt frá svæðinu og að ástæðuna megi rekja til þessa máls“.
Í samtölum við fólk síðustu daga hefur hún komist að því að legið hafi við slagsmálum milli fólks áður fyrr er þessi mál bar á góma. „Ég vona að allir séu búnir að læra af þessu svo að fólk geti stigið fram með sínar skoðanir án einhvers ótta.“
Margt sérkennilegt kom að hennar sögn upp á yfirborðið er hún fór að grúska í vegamálunum í gegnum tíðina „og ég hef komist að því að það hefur ekki verið farið vel með þetta mál“.
Nefndi hún að árið 2010, þegar vinna við nýtt aðalskipulag Mýrdalshrepps var í gangi, hafi umhverfisráðherra hafnað veglínu með sjónum. Það hafi hins vegar ekki stoppað sveitarstjórnina, ekki frekar en allar þær neikvæðu umsagnir um málið sem bárust, m.a. frá Umhverfisstofnun, Skipulagsstofnun og Vegagerðinni.
Umhverfisstofnun lagðist gegn veglínunni
Árið 2013 halda svo skrítnir hlutir áfram að gerast að mati Vigdísar. Tillaga að veglagningunni er aftur komin á borð umhverfisráðherra og sá sem embættinu gegndi þá gaf grænt ljós, mörgum til mikillar undrunar. Þar með hafi verið gengið þvert á umsagnir helstu stofnana. Umhverfisstofnun hafi til að mynda vikið sérstaklega að sérstöðu Dyrhólaóss í sinni umsögn um aðalskipulagstillöguna og sagt að svæðið hefði mikið verndargildi og lagðist stofnunin gegn veglínunni með sjónum. Í umsögn Vegagerðarinnar var m.a. vitnað í umsögn Umhverfisstofnunar en einnig bent á að ekki væri nægjanlega rúmt og öruggt svæði fyrir vegagerð í Víkurfjöru.
Skipulagsstofnun bárust á þessum tíma tugir athugasemda við aðalskipulagstillöguna og sagði að af þeim mætti ráða að ekki hafi verið fjallað á opinskáan og samanburðarhæfan hátt um aðra möguleika á legu hringvegar, þar með talið á endurbætur á núverandi leið.
Veglínan var sett inn á aðalskipulag þegar það var samþykkt árið 2013.
Fjármagn var að sögn Vigdísar tryggt fyrir endurbótum á núverandi leið en enn og aftur gerist undarlegir hlutir því árið 2015 fari sveitarstjórn Mýrdalshrepps „í baráttu“ gegn þeim áformum. Hún hafi fengið þingmenn Suðurlands með sér í lið sem hafi sent innanríkisráðherra bréf þar sem sagði m.a. að meirihluti heimamanna væri á móti endurbótum á veginum. Þetta segir Vigdís ekki rétt þar sem vilji heimamanna hafi aldrei verið kannaður. Hið rétta sé að meirihluti sveitarstjórnar hafi lagst gegn áformum um endurbætur.
Miklar fórnir
„Út frá þessu öllu fæ ég þá niðurstöðu að helsti kostur við göng og sjávarleiðina er að taka brekkurnar,“ sagði Vigdís. „En viljum við fórna þessu öllu fyrir þriggja kílómetra styttingu og að losna við brekku sem mér skilst að sé hægt að koma í um sex prósent halla?“
Nú er að mati Vigdísar þörf á því að hugsa til framtíðar. Bættra samgangna sé þörf – um það séu allir sammála. „En það er árið 2021. Við ættum að vera búin að læra að lifa í sátt og samlyndi við náttúruna. Og við ættum að minna okkur á að hagsmunir náttúrunnar eru hagsmunir mannfólksins og því ættum við að geta fundið betri lausnir.“
Vigdís hvetur fólk til að segja sína skoðun á málinu. „Ég veit að það getur verið óþægilegt að gera það opinberlega en stundum þarf maður bara að gera eitthvað sem manni finnst óþægilegt til að tala fyrir því sem maður trúir á.“
Þorbjörg Sævarsdóttir, verkfræðingur hjá Vegagerðinni, sagði í sínu erindi á fundinum að þegar valkostir vegarins væru skoðaðir væri gott að hafa í huga hver markmið framkvæmdarinnar væru: Að til staðar væri greiðfær vegur fyrir alla umferð allan ársins hring og að umferðaröryggi yrði bætt. Benti hún á að umferð um hringveginn á þessum slóðum hefði aukist mikið síðustu ár og ætti eftir að aukast ennfrekar heldur en hitt. Enn ætti eftir að útfæra alla valkosti og yrði forhönnun framkvæmdarinnar unnin samhliða umhverfismatsferlinu sem nú væri farið í gang. Hún sagði Vegagerðina fagna öllum ábendingum og umræðum og í vinnunni framundan yrði haft að leiðarljósi að aðalvalkosturinn yrði vel útfærður vegatæknilega séð, að hann félli að stefnumörkun sveitarfélagsins og samgönguáætlun en yrði einnig valinn út frá umhverfis- og samfélagssjónarmiðum.
Fundarmenn beindu fjölmörgum spurningum til Þorbjargar og í einni var bent á að vegurinn um Reynisfjall væri í sömu hæð og vegurinn í gegnum Kórahverfið í Kópavogi og hvað gæti þá réttlætt að fara í stóra framkvæmd á þessum slóðum á meðan mun alvarlegri takmarkanir væru á samgöngum víða annars staðar.
Þorbjörg benti á að í næstu skrefum umhverfismatsins og forhönnunar framkvæmdarinnar yrði farið yfir veðurfarið á svæðinu og ólíkir valkostir bornir saman með það í huga. „Auðvitað ætlum við að vinna þetta eins vel og við getum. Ætlum í ítarlegt mat á umhverfisáhrifum.“ Í því ferli kæmi til greina að bæta við einhverjum valkostum. „En við leggjum ekki fram valkost nema að hann sé fýsilegur.“ Einn þeirra valkosta sem Vegagerðin hefur sett fram fer þvert yfir Dyrhólaós í stað þess að liggja á bökkum hans líkt og lagt er til í tveimur öðrum valkostum. „Vegtæknilega séð er sú lína ansi góð,“ sagði Þorbjörg. Spurð hvort farið yrði yfir ósinn á brú sagði hún það líklegt til að halda vatnsstreymi inn á svæðið.
40-50 ára gömul tillaga
Guðni Einarsson, sem einnig er í Íbúa og hagsmunasamtökum í Mýrdal, sagði vegamálin í sveitinni sinni hafa verið sér hjartleikin til margra ára. Hann er bóndi og landeigandi í Þórisholti og á því beina aðkomu að málinu.
„Hér ræðum við um 40 til 50 ára gamlar hugmyndir sem voru raunhæfar á þeim tíma en eru það svo sannarlega ekki í dag,“ sagði Guðni á fundi Landvernar. „Um er að ræða umdeilda framkvæmd sem valdið hefur miklum deilum í Mýrdal.“ Sagði hann ákveðinn hóp manna, sem berjist fyrir jarðgangaleiðinni, engu skeyta um náttúruperlurnar sem yrði fórnað undir nýja veginn.
„Og hver er svo þessi hræðilegi fjallvegur um Reynisfjall?“ spurði Guðni og benti svo á að í fyrsta lagi lægi hann ekki yfir Reynisfjall, eins og oft heyrðist í umræðunni, heldur fyrir fjallið. Ekki væri svo um raunverulegan fjallveg að ræða þar sem hæsti punktur hans væri aðeins í 120 metrum yfir sjávarmáli. Með því að gera endurbætur á Gatnabrún og út úr þorpinu eins og fram kæmi í valkosti fjögur,, mætti ná fram öllum forsendum um greiðfæran láglendisveg.
Guðni líkt og Vigdís benti á að þegar veglínan „með gati í gegnum Reynisfjall“ hafi verið sett á aðalskipulag hafi henni verið „þröngvað í gegn með pólitísku handafli“ – gegn því sem Umhverfisstofnun og Vegagerðin höfðu ráðlagt. Það hafi einnig gengið gegn hagsmunum landeigenda og fjölda íbúa.
„Því fögnum við því að gert verði faglegt mat á umhverfisáhrifum þessarar veglínu samanborið við valkost fjögur,“ sagði Guðni og bætti við: „En jafnframt að fagleg niðurstaða verði virt.“
Fornaldarhugsunarháttur
Guðni sagði að í því ástandi sem ríkti í efnahagsmálum í dag ætti það ekki að hafa farið framhjá neinum að Mýrdælingar byggi afkomu sína á ferðamönnum sem komi þangað til að skoða sig um í fagurri og síbreytilegri náttúru. „Það lýsir mikilli skammsýni og fornaldarhugsunarhætti að heimamenn vilji skaða okkar helstu mjólkurkú, sem eru náttúruperlur okkar Mýrdælinga.“
Um tíu milljarða króna einkaframkvæmd yrði að ræða með fylgjandi gjaldtöku næstu þrjá til fjóra áratugina – framkvæmd sem myndi hafa grafalvarleg og óafturkræf umhverfisáhrif. „Ég spyr því: Höfum við leyfi til að fara svona með okkar fallega Mýrdal? Ég segi nei. Við verðum að láta í okkur heyra til að koma í veg fyrir þetta stórslys.“
Tryggvi Felixson, formaður stjórnar Landverndar, sagði að sú ákvörðun sem nú lægi fyrir um hringveginn um Mýrdal væri fyrst og fremst pólitísk, ekki fagleg. Vegagerðin hafi sjálf árið 2008 sagt að ekki væri skynsamlegt að færa veginn að sjónum.
Ferlið væri komið af stað en enn væri um áform að ræða – engin endanleg ákvörðun um framkvæmd hefði verið tekin. Að mati Landverndar ætti aðalkosturinn hjá Vegagerðinni að vera að endurbæta núverandi veg og færa. Hvað nauðsyn framkvæmdarinnar varðar, að teknu tilliti til náttúruverndarlaga, segir mikilvægt að greina mun betur þann farartálma sem vegurinn er sagður vera og slysatíðni á honum.
„Við erum að leggja upp í vegferð sem getur verið bæði löng og ströng. En við verðum að taka því, því okkar hlutverk er að tala fyrir náttúruverðmætum og umhverfi.“