Kvika banki hefur nú keypt upp allt hlutafé í Netgíró, hálfu ári eftir að viljayfirlýsing um það var rituð. Yfirlýsingin sneri að 80 prósenta hlut í fyrirtækinu, en bankinn átti fyrir um 20 prósenta eignarhlut.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Kviku sem birt var á vef Kauphallarinnar fyrr í dag. Samkvæmt tilkynningunni eru kaupin í samræmi við stefnu bankans að nýta tæknilausnir til þess að nútímavæða fjármálaþjónustu, en bankinn hafði áður sett upp fjártækniþjónustuna Auði í sama tilgangi.
Sex mánuðir í stað þriggja
Í viljayfirlýsingu sinni fyrir sex mánuðum síðan áætlaði Kvika að gengið yrði frá kaupsamningi við Netgíró innan við þriggja mánaða, en þá átti eftir að fá samþykki stjórnar Kviku, auk niðurstaðna áreiðanleikakönnunar og samþykki eftirlitsaðila.
Bankinn mun birta afkomuspá fyrir árið 2021 þann 28. janúar næstkomandi. Í spánni er gert ráð fyrir að kaupin á Netgíró hafi jákvæð áhrif á afkomu ársins en stefnt er að því að þau áhrif aukist töluvert þegar horft er til næstu ára.