Mohammed bin Salman krónprins Sádi-Arabíu kynnti í upphafi árs gríðarlega stórtækar áætlanir ríkisins um uppbyggingu borgar sem á að liggja í 170 kílómetra beinni línu á Rauðahafsströnd ríkisins, í norðri, nærri landamærunum að Jórdaníu. Verkefnið gengur undir vinnuheitinu Línan.
Þar eiga ekki að vera neinir vegir á yfirborðinu og þeir milljón íbúar sem sagðir eru eiga að geta búið í borginni í fyllingu tímans eiga ekki að þurfa að ganga lengur en 5 mínútur eftir allri nauðsynlegri þjónustu, í hverfisklösum sem verða byggðir í beinni línu frá ströndinni og lengst inn í eyðimörkina. Borgin á að verða algjörlega kolefnishlutlaus.
Þetta hljómar ótrúlega. Og sennilega er það tilfellið. Krónprisinn fullyrðir að hægt verði að ferðast úr einum enda borgarinnar í annan á einungis 20 mínútum.
Sádar virðast þannig sjá fyrir sér að ferðast verði með Hyperloop-ofurhraðlestum í lofttæmdum göngum undir yfirborðinu á mörghundruð kílómetra hraða á klukkustund. Sú tækni er ekki enn fullgerð, en hefur verið á teikniborðinu árum saman.
Undir yfirborðinu á einnig að verða „ósýnilegt lag innviða“ þar sem vöruflutningar fyrir borgarana munu fara fram.
Bin Salman segir í háfleygu kynningarmyndbandi að verkefnið sé hugsað til þess að takast á við vandann sem fylgi mengun og umferðarslysum og til þess að koma í veg fyrir að fólk þurfi að verja klukkustundum á dag í að koma sér til og frá vinnu. Allt sem fólk þurfi verði innan seilingar.
“Why should we sacrifice nature for the sake of development? Why should seven million people die every year because of pollution [...] one million people every year due to traffic accidents?” HRH the Crown Prince questions as he introduces @NEOM’s THE LINE. #whatisTHELINE pic.twitter.com/9GJfsflr67
— CIC Saudi Arabia (@CICSaudi) January 10, 2021
„Af hverju ættum við að fórna náttúrunni í nafni þróunar? Hví skyldu 7 milljón manns deyja árlega vegna mengunar? Hví ættum við að missa milljón manns árlega vegna umferðarslysa?“ segir krónprinsinn meðal annars í myndbandinu.
Skýjaborg
Kynningin á Línunni hefur fengið af blendin viðbrögð og margir telja að þetta verkefni muni einungis verða til í skýrslum vel launaðra ráðgjafa krónprinsins. Bin Salman hefur á undanförnum árum verið að reyna að teikna upp hvernig olíuríkið Sádi-Arabía getur tekist á við heim án olíu, sem auður ríkisins byggist að nær öllu leyti á.
Í óvæginni umfjöllun dálkahöfundar hjá bandaríska vefritinu VICE segir að hugmyndin sé hreinlega afspyrnuheimskuleg.