„Ég er innilega þakklát fyrir að vera bólusett og að heilbrigðisyfirvöld hafi sett hópinn sem ég tilheyri í forgang. Það er valdeflandi og heilandi að einhver sér virði okkar. En baráttunni er ekki lokið á meðan fólk gleymist og situr eftir. Ekkert okkar verður frjálst fyrr en við erum það öll.“
Þetta segir Freyja Haraldsdóttir, baráttukona fyrir réttindum fatlaðs fólks og doktorsnemi, í stöðuuppfærslu á Facebook í dag en hún var bólusett gegn COVID-19 í gær. Freyja hefur meðal annars gagnrýnt upplýsingagjöf heilbrigðisyfirvalda til fatlaðs fólks í COVID-faraldri og sagt hana vera verulega ábótavant.
Rekur hún í færslunni ferlið sem leiddi að bólusetningunni. „Þegar bólusetningar hófust var ég bara róleg því samkvæmt því sem ég las var ég ekki í fyrstu forgangshópunum. Dagarnir liðu og ég fór að sjá fatlað fólk fá bólusetningu svo ég varð svolítið uggandi. Það samræmdist ekki forgangsröðuninni í reglugerðinni. Í fyrstu varð ég mjög hrædd um að þetta yrði tilviljunarkennt og við sem hefðum hæst fengjum fyrst bólusetningu og þau sem eru ekki í aðstæðum til þess að sækjast eftir réttindum sínum sætu eftir. Ég var líka hrædd um að gleymast enda hef ég margítrekað gleymst í íslensku heilbrigðiskerfi,“ skrifar hún.
Ekki hafa öll sveitarfélög sinnt upplýsingaskyldu sinni til fatlaðs fólks
Freyja greinir frá því að hún hafi haft samband við heilsugæsluna og engin svör fengið. Hún segir að samt hafi vel verið tekið á móti þessu símtali og starfsfólk heilsugæslunnar sýnt áhyggjum hennar samkennd og skilning. „Hún hvatti mig til þess að hafa samband við einhvern sem væri yfir NPA málaflokknum en ég útskýrði fyrir henni að slíkur staður væri ekki til. Það væri vissulega NPA miðstöðin, sem hefur staðið sig mjög vel í baráttu, upplýsingum og eftirfylgni fyrir bólusetningum en við værum ekki öll í NPA miðstöðinni sem erum með NPA. Ég er til dæmis ein þeirra. Þá er líka hópur fatlaðs fólks sem er með þjónustu heima hjá sér en ekki NPA. Það getur verið fólk með beingreiðslusamning eða heimaþjónustu frá sveitarfélaginu sínu.“
NPA er notendastýrð persónuleg aðstoð sem er þjónustuform sem byggir á hugmyndafræðinni um sjálfstætt líf og gerir fötluðu fólki meðal annars kleift að ráða hvar það býr og með hverjum.
Í kjölfarið hafði Freyja samband við félagsþjónustu Hafnarfjarðarbæjar, þar sem hún býr, en segir hún að þar hafi enginn verið með svör á reiðum höndum. „Þau brugðust þó hratt við og á innan við klukkustund var ég komin með upplýsingar um verklagið. Ég sé mjög eftir því að hafa ekki strax gert það opinbert, þó það sé ekki á minni ábyrgð, enda hefur þessi heimsfaraldur sýnt mér það að umfram allt er fatlað fólk almannavarnir fyrir hvert annað. Þó svo að hið opinbera hafi staðið sig vel á sumum stöðum að þá er það afar misjafnt og því getum við ekki treyst á það. Þetta kom í ljós aftur þegar sveitarfélög hafa ekki öll sinnt upplýsingaskyldu sinni til fatlaðs fólks sem býr heima og er með aðstoð,“ skrifar hún.
Fatlað fólk með aðstoð heima gleymist
Freyja bendir á að verklagið sjálft hafi ekki verið mjög aðgengilegt. Til að mynda hafi hún þurft að senda læst word-skjal með upplýsingum á borð við nafn og kennitölu og upplýsingum um aðstoðarfólk á tiltekið netfang hjá heilsugæslunni. Svo hafi hún þurft að senda annan tölvupóst með lykilorði. „Ég fékk ekki staðfestingu á móttöku fyrr en viku seinna. Þetta var auðveld framkvæmd fyrir mig en hún en er flókin fyrir marga og alls ekki aðgengileg fyrir alla.“
Í fyrradag fékk Freyja svo boð í bólusetningu og var hún bólusett í gær, eins og áður segir. „Fljótlega, þökk sé samfélagsmiðlum, sá ég að margir aðrir NPA notendur hefðu líka fengið sitt boð. Mér var mjög létt að það væri komið að þessu og að þetta fyrirkomulag virtist hafa virkað. Bólusetningin gekk eins og sögu, það var vel tekið á móti mér og komið fram af virðingu. Einu aukaverkanirnar sem ég fann fyrir rétt á eftir var velvirkni tárakirtla og aukin tilfinningasemi en mig grunar að þær hafi verið óbeinar aukaverkanir.
En þetta var auðvitað of gott til þess að vera satt. Komið hefur í ljós að það var fatlað fólk með aðstoð heima sem gleymdist. Það er gjörsamlega óþolandi en kemur samt ekki á óvart,“ skrifar hún.
Það sárasta og sannasta; líf fatlaðs fólks ekki metið þess virði að lifa því
Freyja lýkur færslunni á að tiltaka mögulegar ástæður fyrir því að fatlað fólk með aðstoð heima hafi gleymst. Hún segir að verklagið sé meðal annars óskýrt og tilviljanakennt hvernig sveitarfélög hafi farið með það. Heilbrigðiskerfið treysti jafnframt „um of á það að einhver óskilgreindur aðili, sem enginn veit samt hver er, sjái um fatlað fólk og reddi málunum. Sveitarfélögin bera ábyrgð á framkvæmd félags- og fötlunarþjónustu á grundvelli laga sem þau þverbrjóta mjög gjarnan og ráða hreinlega ekki við verkefnið oft á tíðum. Fötluðu fólki er mismunað á grundvelli búsetu og sveitarfélög hafa eitthvað óskilgreint frelsi til þess að sinna þessari skyldu eftir dúk og disk,” skrifar hún.
Þá bendir hún á að ríkið, ráðuneyti og undirstofnanir beri ábyrgð á eftirliti en sinni því ekki sem skyldi og ef upp kemst að sveitarfélag sé að brjóta á fötluðum þegnum sínum séu oftast engar afleiðingar og enginn þurfi að bera ábyrgð. Sem þýði að breytingar verði ekki. Í síðasta lagi segir hún að sárasta og sannasta ástæðan fyrir því að fatlað fólk með aðstoð heima gleymist sé að líf fatlaðs fólks sé ekki metið þess virði að lifa því. „Þess vegna er framkoman í okkar garð ómennsk.“