Hvorki Miðflokkurinn né Framsóknarflokkurinn myndi ná inn manni í Reykjavíkurkjördæmunum ef kosið yrði í dag, samkvæmt könnunum sem Maskína gerði fyrir fréttastofu Stöðvar 2, Vísis og Bylgjunnar.
Miðflokkurinn fékk einn þingmann kjörinn í Reykjavík 2017, Þorstein Sæmundsson sem datt inn sem uppbótarþingmaður í Reykjavík suður. Þá fékk flokkurinn 7,6 prósent atkvæða í því kjördæmi og 7,0 prósent í Reykjavík suður. Samkvæmt könnun Maskínu fengi Miðflokkurinn 4,8 prósent í Reykjavík suður nú og einungis 3.6 prósent í Reykjavík norður.
Lilja D. Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknarflokksins, var ellefti og síðasti kjördæmakjörni þingmaður Reykjavíkurkjördæmis suður í síðustu kosningum þegar flokkur hennar fékk 8,2 prósent atkvæða í kjördæminu. Verr gekk í hinu Reykjavíkurkjördæminu þar sem Framsókn fékk 5,3 prósent atkvæða og náði ekki inn manni. Miðað við stöðu mála samkvæmt könnun Maskínu er Lilja ansi langt frá því að ná inn á ný, þar sem fylgi Framsóknar í kjördæmi hennar hefur næstum helmingast og mælist 4,3 prósent.
Í Reykjavík norður, þar sem Ásmundur Einar Daðason félags- og barnamálaráðherra ætlar að bjóða sig fram næst er fylgið aðeins skárra, eða 4,8 prósent, en þó ekki nægjanlegt til að ná inn manni ef þetta yrði niðurstaða kosninga.
Samfylkingin, Sósíalistaflokkurinn og Viðreisn á siglingu
Sá flokkur sem bætir mestu við sig í höfuðborginni samkvæmt könnunum Maskínu er Samfylkingin. Í Reykjavíkurkjördæmi norður, þar sem Helga Vala Helgadóttir er líklega að fara að leiða flokkinn aftur, mælist fylgi hans nú 25,7 prósent. Það er meira en tvöföldun á fylgi Samfylkingarinnar í kjördæminu frá síðustu kosningum og myndi gera flokkinn að langstærsta flokknum í því.
Samfylkingin bætir líka við sig í Reykjavíkur suður – fjórum prósentustigum – og myndi fá 17 prósent atkvæða. Hún yrði næst stærsti flokkurinn í kjördæminu yrði þetta niðurstaða kosninga og allar líkur yrðu þá á að þingmenn Samfylkingar í Reykjavík yrðu fimm talsins, í stað tveggja eins og nú er.

Viðreisn er einnig á ágætri siglingu og bætir vel við fylgi sitt í báðum Reykjavíkurkjördæmunum frá síðustu kosningum. Samkvæmt könnunum Maskínu fengi flokkurinn 11,9 prósent atkvæða (3,5 prósentustigi meira en 2017) í norður og 14,6 prósent í suður (6,1 prósent meira en 2017).
Píratar mega líka vel við una. Þeir bæta við sig 2,4 prósentustigum í Reykjavík suður og mælast með 13,8 prósent fylgi og eru nánast á pari – lækka um 0,5 prósentustig niður í 13,1 prósent – í Reykjavík norður.
Sjálfstæðisflokkurinn tapar og Vinstri græn í vanda
Framsókn er ekki eini stjórnarflokkurinn sem tapar fylgi í höfuðborginni. Það gera hinir tveir líka. Sjálfstæðisflokkurinn myndi halda stöðu sinni sem stærsti flokkurinn í Reykjavík suður, þar sem Sigríður Á. Andersen leiddi lista flokksins í síðustu kosningum, ef kosið yrði í dag með 20,6 prósent fylgi en myndi tapa 2,2 prósentustigum frá 2017. Í hinu Reykjavíkurkjördæminu, sem Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra leiddi síðast, tapar flokkurinn hins vegar forystuhlutverki sínu til Samfylkingarinnar og mælist með 19,6 prósent fylgi, eða þremur prósentustigum minna en hann fékk upp úr kjörkössunum fyrir rúmum þremur árum.

Í Reykjavík suður, þar sem búist er við því að Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra leiði aftur í haust, fer fylgið úr 18,9 prósent í 12,8 prósent, og lækkar því um 6,1 prósentustig. Það myndi líka skila einum kjördæmakjörnum þingmanni.
Flokkur fólksins tapar líka fylgi í báðum Reykjavíkurkjördæmunum og myndi fá annars vegar 5,5 prósent í suður og hins vegar 3,7 prósent í norður ef kosið yrði í dag, samkvæmt niðurstöðu Maskínu. Það myndi ekki duga til að ná inn þingmanni í kjördæmunum.
Minna rót í Kraganum, en samt hreyfingar
Maskína skoðaði líka stöðuna í Suðvesturkjördæmi, Kraganum svokallaða, stærsta kjördæmi landsins sem samastendur af nágrannasveitarfélögum Reykjavíkur. Þar eru sveiflurnar minni en í höfuðborginni. Sjálfstæðisflokkurinn myndi tapa mestu – 3,9 prósentustigum – en áfram vera langstærsti flokkur kjördæmisins, þar sem Bjarni Benediktsson, formaður flokksins, leiðir. Alls segjast 27 prósent aðspurðra ætla að kjósa Sjálfstæðisflokkinn þar. Ekki er víst að það myndi hafa nein áhrif á þá fjóra þingmenn sem Sjálfstæðisflokkurinn er þegar með í kjördæminu.

Fylgistap Vinstri grænna er mun minna í Suðvesturkjördæmi en í höfuðborginni og fylgið fer úr 13,6 prósentum í 12 prósent. Líklega myndi flokkurinn þó tapa kjördæmakjörnum þingmanni fyrir vikið. Það myndi Miðflokkurinn að öllum líkindum gera líka þar sem fylgi hans fer úr 9,8 prósentum í síðustu kosningum í 6,8 prósent.
Framsóknarflokkurinn, sem er með einn mann kjördæmakjörinn í Kraganum nú, myndi ekki ná að endurtaka þann leik miðað við stöðu mála í könnunum Maskínu, þar sem fylgi flokksins er nú að mælast 6,6 prósent.
Flokkur fólksins tapar einnig fylgi í Kraganum og mælist með 4,7 prósent. Minnstur þeirra flokka sem mælast var svo Sósíalistaflokkurinn með 3,3 prósent fylgi.
Fjöldi svarenda í könnunum Maskínu í Suðvesturkjördæmi var 807.